Orkumálinn 2024

Hugvekja á fyrsta sunnudegi í aðventu

Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu. Dagurinn er jafnframt fyrsti dagurinn á nýju kirkjuári. Það er algengur siður kristinna manna að kveikja á fyrsta kertinu á aðventukransinum á þessum degi en það kerti köllum við spádómskertið.

Við kveikjum á spádómskertinu til minningar um spádóma gamla testamentisins um komu messíasar, frelsara mannkyns. Spádómarnir spáðu fyrir um að Guð myndi senda þjón sinn, sem hann myndi leggja anda sinn yfir og færa þjóðunum réttlæti. Hann myndi ekki þreytast eða gefast upp fyrr en hann hefur grundvallað rétt á jörðu. Þessi þjónn sem spádómarnir töluðu um reyndist vera maðurinn Jesús frá Nazaret.

Jesús prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: „Tíminn er fullnaður og Guðs ríki er í nánd. Takið sinnaskiptum og trúið fagnaðarerindinu.“ Það er einmitt þetta Guðs ríki, og biðin eftir því sem við kristið fólk minnumst í dag en í spádómunum er einnig spáð fyrir um hinn nýja himinn og hina nýju jörð þar sem réttlæti og gleði munu ríkja. Það er því þessi bið, biðin eftir komu frelsarans og Guðs ríkisins sem við minnumst á aðventunni og erum þátttakendur í með því að taka þátt í henni nú, enn eitt árið.

En það er hins vegar óhætt að segja að aðventuhátíðin í ár byrji frekar óvenjulega. Í staðinn fyrir hátíðlega messu í kirkjunni verðum við að sætta okkur við að horfa á guðsþjónustuna í gegnum streymi. Ástæðan er augljós en vegna núverandi sóttvarnarreglna, vegna heimsfaraldursins, er söfnuðunum ekki heimilt að safnast saman í kirkjunum og hefja nýtt kirkjuár á hefðbundinn hátt. En það er einmitt það sem við erum líka öll að bíða eftir. Við erum öll að bíða eftir að lífið komist aftur í eðlilegt horf.

„Bið, endalus bið, sem bara styttist ei neitt,“ söng Svala Björgvinsdóttir hér um árið, í lagi sem kemur okkur flestum í jólaskapið og er orðinn fastur liður í jólaundirbúningnum. Maður verður einhvern veginn að heyra þetta lag, a.m.k. einu sinni til þess að komast í almennilegt jólaskap. En innihald textans á sjaldan eins vel við og núna. Það er einmitt þessi bið sem einkennir allt þjóðfélagið í dag. Við erum öll að bíða.

Ég held að við getum flest verið sammála um að við getum varla beðið eftir að bóluefnið gegn COVID-19 komist í umferð. Það er von okkar flestra að þegar bóluefnið er komið, þá getur lífið komist aftur í eðlilegt horf. Við getum tekið af okkur grímurnar, farið áhyggjulaus í sund, klippingu og kirkju og fundið fyrir öryggi aftur. Við þráum frelsi, frelsi frá ótta og þessari stöðugu ógn sem við virðumst vera svo varnarlaus gagnvart. Þetta er hundleiðinlegt ástand og fyrir marga er þetta eflaust eins og að vera í fangelsi.

Í prédikun sinni, sem prédikuð var á fyrsta sunnudegi í aðventu í Barcelona 2. desember 1928 sagði Dietrich Bonhoeffer eftirfarandi orð: „Að halda aðventuna hátíðlega þýðir að læra að bíða [...] hátíðarhöld aðventunnar er aðeins möguleg fyrir þau sem eru þjökuð í sálinni, þau sem vita að þau eru fátæk og ófullkomin og þau sem bíða í eftirvæntingu eftir einhverju betra, sem er á leiðinni.“ Þessi orð Bonhoeffers hafa sjaldan haft jafn mikla þýðingu og einmitt á þessum tímum. Nú er aðventan gengin í garð og við erum flest buguð í sál og í anda, varnarlaus og bíðum í eftirvæntingu eftir betri tímum. En 15 árum síðar eftir að hann flutti þessa prédikun, á fyrsta sunnudegi í aðventu 1943 sat Dietrich Bonhoeffer í fangaklefa í Tegel fangelsinu í Þýskalandi, en hann hafði verið fangelsaður fyrir að hafa átt þátt í tilraun til að ráða Hitler af dögum. Á þessum degi sat hann í fangaklefanum, þar sem hann var að skrifa bréf til vinars síns og sagði fangaklefann ágætis samlíkingu fyrir aðventuna, hann sagði: „maður bíður og vonar, gerir eitt og annað, dyrnar eru læstar og geta aðeins verið opnaðar utanfrá.“

Kæru systkin í Kristi, ég vil koma á framfæri hvatningu til ykkar allra. Minnumst boðskapar aðventunnar, minnumst þess á meðan að við bíðum eftir bóluefninu gegn COVID-19, að við bíðum einnig eftir að Guðs ríki komi í fullnustu sinni. Við bíðum ekki einungis eftir að heimsfaraldrinum ljúki og við getum öðlast öryggi aftur og farið út á meðal fólks og haldið utan um okkar nánustu. Við bíðum einnig eftir réttlæti í heiminum. Við bíðum þess að hungursneyðir taki enda, víð bíðum þess að konur öðlist fullkomið jafnrétti um allan heim, víð bíðum þess að þjáðir einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópum öðlist jafnrétti, við bíðum þess að jörðin okkar, náttúran, öðlist virðingu mannkyns á ný svo hægt sé að koma í veg fyrir yfirvofandi afleiðingar hlýnunar jarðar.

Kæru systkin, minnumst þess að við erum fólk trúar og trúum því að Guð er Guð réttlætis, sem mun koma fljótlega með ríki sitt hér á jörð. Minnumst þess að við erum fólk vonar, að við treystum því að Guð hefur góða hluti í vændum. Síðast en ekki síst, minnumst þess að við erum fólk kærleikans, að við mætum náunga okkar og umhverfi af elsku og væntumþykkju. Boðskapur aðventunnar kennir okkur að bíða og að vera þolinmóð. Nýtum tækifærið og horfum á nýtt kirkjuár sem ár nýrra tíma. Guð lofaði fólki sínu, að hann myndi senda þjón sinn til að kalla fram réttlæti hér á jörð, hann stóð við það. En hann hefur lofað okkur nýrri jörð, nýrri sköpun sem einkennist af þessu réttlæti og þar erum við þjónar og tökum virkan þátt í henni.

Tökum þátt, lifum á nýjan hátt, njótum aðventunnar með þolinmæði, lifum í voninni, í kærleika og sátt við alla menn. Amen.

Hugvekjan var send út frá Norðfjarðarkirkju sunnudaginn 29. nóvember. Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson og sr. Erla Björk Jónsdóttir leiddu stundina. Kór Norðfjarðarkirkju söng undir stjórn Naviu Duec-Stefansson organista. Prestar í Austfjarðaprestakalli munu senda út messur alla sunnudaga í aðventu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.