Hugleiðingar um Austurgöng, vegi og samgöngur aðrar

Við framtíðar uppbyggingu samfélaga verður margs að gæta, ekki síst þegar kemur að samgöngum (vegir, brýr, jarðgöng, flugvellir) er standa munu til hundruða ára eins og til dæmis jarðgöng og vel byggðar brýr. Eins er það með flugvelli, samgöngur til þeirra, að og frá, þurfa að vera með sem skilvirkustum hætti, ígrundaðar til langrar framtíðar.

Nú blasir sú áskorun við okkur íbúum Múlaþings og ekki síst okkur íbúum Fljótsdalshéraðs, að taka ákvörðun um hvar gangnamunni Fjarðarheiðargangna á að staðsetjast. (Íbúar Múlaþings ættu auðvitað að kjósa um staðsetningu gangnamunna Héraðsmegin, samfara sveitastjórnakosningum.)

Nú á næstu árum kemur nýr Axarvegur, göng undir Fjarðarheiði, ný brú yfir Lagarfljót, stækkun og aukin virkni Egilsstaðaflugvallar og bætt vegakerfi heildrænt séð að þessum MEGIN gatnamótum Austurlands, sem Egilsstaðir eru, í lofti sem láði, úr nær öllum áttum að segja, og er mjög mikilvægt að nái fram að ganga, til heilla frekari þróun og framförum á Austurlandi öllu.

Hreinasta og besta tengingin við fyrirhuguð jarðgöng undir Fjarðarheiði, að þessum MEGIN gatnamótum, er að gangnamunninn Héraðsmegin komi út við Lönguhlíðina upp af Steinholti og tengist þar við núverandi Seyðisfjarðarveg með vegi áfram að brú um Melshorn og hringtorgi á veginum yfir Egilsstaðanes, eða á flugvallarafleggjaranum, Frá þessu hringtorgi geta svo ökumenn valið sér leið eftir hentugleika hvers og eins, hvort sem þeir ætla í Fellabæ, norður í land, á flugvöllinn, í Egilsstaði, Hallormsstað, suður um Axarveg eða hvað annað menn vilja.

Austurgöng

Mikilvægt er að pressa á yfirvöld vegamála og ríkis að láta hefja jafnframt og nú þegar undirbúning og framkvæmdir að áframhaldandi austurgöngum, úr Seyðisfirði í Mjóafjörð og áfram þaðan til Norðfjarðar, þar sem til dæmis mikilvægar höfuðstöðvar Heilbrigðisstofnunar Austurlands eru. Við þessi austurgöng glæðist samlegð og nýting innviða á alla vegu í fjórðungnum, til dæmis flæði milli menntastofnana, eins mun um Austfirði greiðast leiðir fólks og flutnings sem kemur með ferjunni Norrænu eða flugi frá Egilsstaðaflugvelli, allt árið. Inn og útflutningur margvíslegrar vöru eins og til dæmis matvæla og fleira af svæðinu, til að mynda með ferjunni eða í flugi frá Egilsstaðaflugvelli. Frá flugvellinum höfum við Austfirðingar, vegna nálægðarinnar gagnvart Evrópu, tækifæri á að koma mögulega ferskasta fiski frá Íslandi á markaði þar víða um lönd. Vestfirðingar til dæmis þurfa að aka, óraleiðir, með sína útflutningsferskvöru, í flug frá Keflavík. Frá Egilsstaðaflugvelli, gætu til dæmis útgerðarmenn á Austurlandi komið fiskinum með flugi, nánast spriklandi, á markaðstorgin í Evrópu. Við þessi göng öll mun og Mjóifjörður öðlast nýtt líf á alla mælikvarða.

Munum líka að þessi austurgöng munu spara alveg snjómokstur til Mjóafjarðar, að stóru leiti um Fagradal, forða vegfarendum frá fjallbyljaveðrum, ófærð, snjóflóðahættu og snjóflóðum, sem vel eru þekkt á þeim slóðum. Þessi tenging gegnum Mjóafjörð austur og vestur, styrkir líka og auðveldar aðkomu vinnukrafts frá vestursvæðum eins og Héraði, Seyðisfirði, Mjóafirði að til dæmis hinum stóra vinnustað, álverinu í Reyðarfirði, svo og annað streymi vinnukrafts og ferðalanga um og á milli svæða á Austurlandi.

Vöruflutningar við Egilsstaðaflugvöll

Við Egilsstaðaflugvöll þarf að byggja kæli og frystigeymslur fyrir matvæli sem eru til dæmis á leið í flug eða ferju. Byggja þar líka vörumóttökustöðvar aðrar þar sem allir flutningsaðilar eru á sama svæði, en ekki dreifðir um hvínandi koppagrundir eins og nú er. Allur vöruflutningur til Egilsstaða beinist því að þessum stað við flugvallarsvæðið þar sem dreifingastöðvarnar þá eru og fer síðan þaðan í smærri flutningstækjum út í samfélögin og eða fljúgandi út í heim, ef vill.

Innan 10 – 12 ára, gætu ef vel er haldið á spöðunum, almenn umferð sem og vöruflutningabílar er koma og fara austurleiðina, þá farið um austurgöngin, samhliða nýjum Axarvegi er kemur sunnan að út Skriðdal og Vallaveg, á hjáleið með vöruflutning vestan núverandi vegar neðan Húsasmiðju, þaðan út á dreifingarstöðvarnar við flugvöllinn, sem og flutningabílar frá austurgöngunum. Á þessum tíma, kringum 10 - 12 ár ætti ný Lagarfljótsbrú að vera að komin í gagnið. Mögulega verður efnið úr jarðgöngunum notað í flughlöð og fleira tengt stækkun flugvallarins, til að byggja upp veginn að nýju brúnni, eins og hann er teiknaður af hendi vegagerðar, sunnan fyrir endann á stækkuðum flugvelli, út með honum að vestan áleiðis að gömlubrú og sjónhendis yfir á Ullartanga. Aðkoma norðan úr landi að dreifingarstöðvunum er einföld eftir núverandi leið og síðan á hugsanlegum nýjum vegi um Fellabæ, yfir komandi Lagarfljótsbrú, vel fjarri miðbæ Egilsstaða.

Ný Lagarfljótsbrú

Þá er spurning hvort ætti að byggja nýja brú yfir Fljótið, fast meðfram þeirri gömlu að norðanverðu. Vegurinn þá suður fyrir enda flugvallar og út ( norður) að brúnni, milli vallar og fljóts. Atvinnu- og verslunarhúsnæði norðanvert á vesturbakkanum yrði þá víkjandi ef nauðsyn krefur. Þá er líka spurning hvort leggja ætti veginn að hinni nýju brú, í stokk undir flugvöllinn. Annað eins hefur nú verið gert.

Mikilvægt, hvað þessar hugmyndir mínar varðar, er að byggja strax brúna við Melshornið með vegtengingu frá Seyðisfjarðarvegi yfir á Egilsstaðanes, svo koma megi eftir þeirri leið til dæmis hugsanlega, efnisflutningum frá gangnagerð að væntanlegu brúarstæði yfir Lagarfljót, flughlöð og fleira. Þessi Melhornsbrú og vegur mundu líka strax draga úr umferð frá ferjunni Norrænu og jafnframt þunganum af Borgarfjarðarvegi, gegnum miðbæ Egilsstaða.

Best væri meðfram gangnagerðinni, að brúa Eyvindará út úr beygjunni við Hnútuna, leggja Fagradalsveg þar áfram, vel uppbyggðan, neðan í Kálfshól og út malarbakkana austan við ána og tengja við gamla veginn að Dalhúsum eða hugsanlega aðra betri leið þar út og ofar. Í þessa vegagerð nýtist þá vel efnið frá göngunum. Með þessu beinist öll Fagradalsumferð að loknum gangnaframkvæmdum norður á Seyðisfjarðarveg vestur og niður á Melhornsbrú á hringtorg áður um rætt, á Egilsstaðanesi. Fagradalsumferð mun auðvitað minnka töluvert við göngin austur um firði og léttist þar af leiðandi vetrarþjónusta á dalnum, þegar önnur leið verður í boði eins og áður er getið og verður þá jafnframt dalurinn víkjandi, varðandi snjóhreinsun.

Leiðir frá gangamunna

Núverandi umferð af Fagradal, sem menn vilja losna við úr miðbæ Egilsstaða, (vöruflutningar) gæti, meðan ekki er búið að tengja Fagradalsveg við Seyðisfjarðarveg, ofan gljúfra, verið beint út á Eiðaveg, norður um Eyvindarárbrú á Seyðisfjarðarveg og þaðan sem leið liggur um Melhornsbrúna (þegar hún er tilbúin) að hringtorgi á nesinu og farið norður í land, eða suður Vallaveg án þess að „klukka“ verulega miðbæinn.

Einnig er rétt að benda á að umferðaræð frá úthverfum Egilsstaða, um Vonarskarð (lægðin innan við Vonarland) mundi tengjast vestur á veginn frá Melhornsbrúnni og losa óþarfa snöfl ökutækja inn í bæ ef ætlunin er að skreppa til dæmis út á flugvöll eða Fellabæ.

Hugmyndin um gangnamunna Fjarðarheiðargangna, Héraðsmegin, innan Dalhúsalands, finnst mér dulítið skrítin, þar sem grunnhugmyndin við jarðgöng gengur út á að losna sem mest við vetraraðstæður, snjómokstur og ófærð. Hræddur er ég um að snjósöfnun og ófærðarbálkar leggist á þessa svo kölluðu suðurleið, þvert yfir gil og ása, niður fyrir Hálslæk, inn, trúlega, botnlausar mýrarvilpur og ásadrög, ofan (austan) og síðan innan (sunnan) Egilsstaða gegnum, að mér skilst, þegar skipulögð íbúðahverfi syðst í byggðinni og þar niður á Vallaveg.

Frá þessum gangnamunna innan Dalhúsalands, er mun lengri og óskilvirkari leið ofan í Egilsstaði og nágrenni, miðað við Lönguhlíðarmunna. Eru Seyðfirðingar og síðar umferð um austurgöng aðallega á leið upp á Eyvindar og Fagradal? Erum við að fara að aka langt upp á Eyvindardal ef við ætlum að skreppa á til dæmis Seyðisfjörð eða Norðfjörð. Ég held ekki. Hverjum eiginlega datt þessi Dalhúsagangnamunna vitleysa í hug?

Eina skynsamlega tillaga sem ég hef séð varðandi suðurleið, er hugmynd Benedikts Pella Vilhjálmssonar um göng undir Egilsstaðaháls, sjónhendis frá Dalhúsamunna og beina leið vestur á Vallaveg, sunnan Egilsstaða.

Munum, að við færum ekki gangnamunnan síðar. Þessi milljarða framkvæmd má ekki mistakast skipulagslega og við megum ekki taka ákvörðun í skugga „hótana“ um kostnað er falli á sveitarfélagið ef ekki ganga eftir hugmyndir vegagerðar. Að þessi suðurleið, að sögn Vegagerðar, sé mörgum sinnum ódýrari, en aðrar leiðir, fæ ég ekki skilið, nema þá, að alltaf sé miðað við Dalhúsamunnann. Ég kaupi bara ekki þá staðsetningu, hún er ekki samfélagsvæn. Látum ekki flæma okkur út í kviksyndin, þaðan er ekki afturkvæmt.

Austurland samtengt

Seyðisfjarðarvegur, upp að gangnamunna við Lönguhlíð, verður hreinn og beinn til allrar framtíðar, auðveldur til snjóhreinsunar ef þá einhver er. Stutt og greið leið niður í Egilsstaði, flugvöllinn, norður í land, til Borgarfjarðar eða suður á bóginn. Eins skilvirk verður auðvitað leiðin í hina áttina, austur í Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð, Eskifjörð og svo þaðan vegurinn áfram austur í Fáskrúðsfjarðargöng, o.s.frv. Þessi austurgöng og vegalagningar allar eiga að þjóna samfélögunum, með sem skemmstum og skilvirkustum leiðum, til framtíðar.

Knýjum líka á um nauðsynleg göng til Vopnafjarðar svo Austfirðir geti á endanum haldist í hendur.

Munum að huga til langrar framtíðar hvað þessa hluti varðar. Góðar og skilvirkar samgöngur milli byggðarlaga, byggja undir framtíðina, auka samlegðina, slagkraftinn, samhugann, eykur að hugmyndum, býr til nýjar, gefa af sér á alla vegu.

Knýjum á stjórnarvöldin að klára þessi hagkvæmu göng, Egilsstaðir,Seyðisfjörður,Mjóifjörður til Norðfjarðar og síðan og ekki síst Vopnafjarðargöng. Þessi göng upp talin og vegabætur munu verða landinu öllu til hagsældar um ókomna tíð.

Millifyrirsagnir eru Austurfréttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.