Hugleiðing úr grænni messu

Þegar séra Þorgeir (Arason) hafði samband við mig fyrir viku síðan og bað mig að flytja hugleiðingu varðandi náttúruna í grænni messu var ég á leið til Spánar til að fara að ganga um fjöll og dali í sex daga. Ég sagði honum að ég skyldi gera það og myndi nota vikuna til íhugunar. Það gerði ég og settist svo niður og punktaði niður það sem kom upp í hugann sem snýr auðvitað að minni upplifun af náttúrunni bæði sem barn og fullorðinn einstaklingur.

Náttúra Íslands er einstök og það þarf ekki að segja neinum Íslendingi, en náttúran er reyndar víðar fögur í öðrum löndum líka, fjölbreytt og einstök, ekkert síður en á Íslandi. Ég hef hvergi komið þar sem ekki er fallegt um að litast. Ólíkt loftslag skapar tækifæri fyrir fjölbreyttari trjágróður og stærri og litskrúðugri blómaflóru í suðrænni löndum en hér. Í dag eru margir farnir að hugsa meira um að náttúran þarfnast aðhlynningar ef hún á að haldast hrein og fögur, en víða er nú því miður pottur brotinn í þeim efnum. Hvarvetna má sjá rusl á víðavangi, plast og dót hanga í trjám, liggja með fram vegum og í fjörum landsins og svo er einnig í öðrum löndum. Sem betur fer eru til náttúruunnendur sem kippa upp drasli sem verður á vegi þeirra í göngum og á hlaupum og sumstaðar hér á landi hefur fólk bundist félagsskap til að hreinsa ákveðin svæði. Það er frábært framtak sem ber að lofa.

Á göngu minni á Spáni fór ég að hugsa um það hvenær ég fyrst fór að kunna að meta náttúruna og þann frið og þær gjafir sem hún gefur hverjum þeim sem hennar kann að njóta. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það hafi raunverulega gerst þegar ég var barn og var falið það verk að reka kýrnar til fjalls en það var alltaf gert á sumrin og gamall maður, Höskuldur Stefánsson að nafni, sem var vinnumaður á æskuheimili pabba í næsta húsi við okkur fór með og sagði mér frá og kenndi að þekkja helstu plönturnar í fjallinu, svo sem jakobsfífil, holtasóley, lyfjagras, elftingu, fjallagrös og svo mætti lengi telja. Hann staldraði við hjá þessum plöntum og sagði mér hvað þær hétu og stundum einnig að um einhvern lækningamátt væri að ræða hjá þeim.

Hann kenndi mér líka að hlusta á kyrrðina og þekkja raddir nokkurra fuglategunda. Þessi gamli maður sem er löngu látinn var afskaplega góður maður sem mér þótti afar vænt um. Hann var ættaður frá Berufirði. Hann hafði það fyrir sið að fylgjast alltaf með Passíusálmunum þegar þeir voru lesnir í Ríkisútvarpinu á föstunni. Og Passíusálmana hans erfði ég eftir hann.

Berjabrekkurnar

Nú en þegar ég rifja upp tengsl við náttúruna í æsku minni þá komu blessaðar berjabrekkurnar í Teigagerðistindi sterkt inn. Þangað sóttum við krakkarnir dag eftir dag þegar berin voru farin að spretta, bæði til að tína upp í okkur og eins til að tína ber í grautinn, en heima hjá mér þótti okkur afar gott að fá berjasúpu í hádeginu eftir soðninguna.

Í berjabrekkunum áttum við margar gæðastundir í friði og ró. Því það var harðbannað að vera með læti í fjallinu og alls ekki mátti styggja álfana og huldufólkið því það gat hefnt sín að sögn ömmu minnar Sigríðar Jónsdóttur. Hún átti margar sögur í fórum sínum af huldufólki og öðrum verum og við tókum fullt tillit til þess.

Reyndar urðum við einu sinni skelfingu lostin þegar við vorum að leika okkur undir Sjónarhrauni upp og ofan við Skúlaklett en þar bjuggu álfar að ömmu sögn. Við vorum nokkuð mörg að vaða út í poll sem myndast hafði undir klettinum og vorum að skvetta hvert á annað og að sjálfsögðu æstust við upp og létum öllum illum látum. Áður en leikurinn hófst höfðum við þó lagt úlpurnar okkar á grasivaxna klettasnös sem var eins og v í laginu svo þær blotnuðu ekki. Mig minnir að þetta hafi verið að vori eftir leysingar. Þegar leiknum var lokið tóku allir úlpurnar sinar af syllunni en ég var seinust til að grípa í mína en þá var hún föst og ég togaði og togaði en viti menn úlpan vildi ekki hreyfast. Ég rak upp skaðræðisöskur og þá loks losnaði úlpan og við hlupum skelfingu lostin heim. Ég held að hún amma mín hafi viljað með sögum sínum kenna okkur að virða náttúruna og læra að njóta fegurðar hennar í friði.

Rekinn í fjörunni

Já, þær eru margar minningarnar frá æskuárunum sem tengjast náttúrunni og einni enn myndi ég vilja deila með ykkur. Við krakkarnir heima hjá mér bjuggum nálægt fjörunni og þar vorum við oft að leika okkur á fjöru og eins að fara á árabátnum hans pabba út á fjörð til að veiða á færi eða jafnvel bara að liggja fram á borðstokkinn og fylgjast með fiskunum og marglyttunum þegar logn var í firðinum.

Á fjöruna rak ýmislegt merkilegt og við týndum skeljar og kuðunga og svo rak auðvitað á land ýmislegt sem við myndum í dag flokka undir sjávarmengun eins og t.d. rusl sem fleygt var í sjóinn af farþegaskipunum Esju og Heklu sem sigldu umhverfis landið með farþega og auðvitað öðrum skipum og fiskibátum líka. En þegar Esjan og Heklan voru á ferð komu oft upp í fjöruna mjólkurumbúðir frá Reykjavík, þær voru þríkanta fernur og okkur fannst verulega flottar.

Fleira rak nú á fjörur sem ég ætla ekki að segja frá, en sjórinn fær því miður enn ótrúlega útreið mannanna og sagt er að fiskarnir og dýrin sem þar lifa séu orðin mjög plastmenguð. Þetta er sorgleg staðreynd og brýnt að við öll hugsum betur um það sem við gerum náttúrunni með óhóflegri neyslu af öllu tagi og kærulausri meðferð á umbúðum og úrgangi.

Að komast upp á tindinn

Já fjaran átti sem sagt líka hug minn þegar ég var barn, en ég hef minna gert af því að ganga fjörur síðustu árin. Þó gekk ég á tveimur ströndum í síðustu viku á Spáni en þær voru tiltölulega hreinar og fínar og greinilega hirt vel um þær. Og þá er ég komin að enn einni sögunni sem snýr að áhuga mínum á náttúrunni og fjallgöngum sem ég hef gert nokkuð af undanfarin tíu til fimmtán ár bæði hér á landi og utanlands.

Þegar ég var fimmtán ára gekk ég ásamt vinkonu minni og frænku á strigaskóm og stuttbuxum á fjallið okkar Teigagerðistind í glampandi sólskini og hita í júlímánuði. Það var fyrsta fjallgangan mín. Við höfðum ákveðið þetta nokkrum dögum áður og að morgni þessa dags sem var sunnudagur bankaði vinkona mín á herbergisgluggann minn klukkan átta og út stökk ég með eitt súkkulaðistykki í nesti. Upp gengum við án hvíldar og klifruðum upp sunnanvert fjallið. Það kom fyrir að það hrundi smá grjót undan fótum okkar en við létum það ekki á okkur fá en raunar sé ég eftir á að þetta var glæfraför hjá okkur. Upp komust við og á hádegi sátum við uppi á tindi og horfðum yfir fagra fjörðinn okkar, Reyðarfjörð og vorum alsælar. Við borðuðum sláturkepp sem vinkona mín hafði tekið með sér og höfðum súkkulaði í eftirmat. Getið þið ímyndað ykkur betri orku fyrir fjallageiturnar?

Þessari sögu vildi ég deila með ykkur til að minna á sigurinn sem felst í því að komast upp á tind og gefast ekki upp. Seinna á lífsleiðinni greindist vinkona mín með alvarlega sykursýki og hefur oft átt erfiða daga. Hún sagði mér að þegar henni liði illa þá færi hún upp á Teigagerðistindinn í huganum og hugsaði um okkur þar glaðar og ánægðar með okkur og þá liði sér alltaf betur.

Síðan hef ég marga fjallgönguna farið og gengið margar þekktar og fagrar gönguleiðir hér á landi og eins og allir sem það hafa gert vita er varla neitt eins gefandi og heillandi og útiveran í náttúrinni með góðu og hressu fólki sem nýtur hins sama. Það er einstakt að fá að vera heilbrigður og geta hreyft sig og gengið á fjöll, yfir skörð og dali, hvort það sem er hér á landi eða erlendis. Hér á Héraði eru einstakar náttúruperlur og það má segja að nánast á hverjum degi fari ég eftir vinnu út að ganga oftast ein til að njóta kyrrðarinnar, fuglanna og gróðursins eða kaldrar vetrarfegurðar á þeim árstímum. Einnig geng ég oft með vinum mínum og félögum í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar og stundum líka Fjallhressum. Eftir göngurnar kem ég endurnærð heim með hreinan huga og bros á vör. Slíkur er máttur náttúrunnar. Það er guðs gjöf.

Sorgin yfir trjánum

Að lokum langar mig að segja ykkur frá einum degi í síðustu göngu minni á Spáni. Það var ganga sem gengin var að litlu fjallaþorpi með 170 íbúum og heitir Guadalest. Það er vinsæll ferðamannastaður og þangað koma rútufylli af ferðamönnum til að skoða þorpið og gamlan kastala sem trjónir yfir því. Í klukkustund á gönguleiðinni var þagnarbindindi, engin okkar mátti segja orð en í hópum gengu þennan daginn 24 konur. Getið þið ímyndað ykkur hve erfitt það getur verið fyrir suma? Ekki mig því ég er vön að þegja!

En já, við gengum fram hjá risastóru uppstöðulóni í fjallinu sem þorpið situr á og þar var ótrúlegur gróður af öllu tagi, blóm í ýmsum litum og stærðum, háar bambusplöntur og ýmsar trjátegundir, appelsínutré og sítrónutré og meira að segja sáum við bananatré. Stígarnir voru misgóðir en umhverfið ótrúlega fagurt.

Á þessari leið íhugaði ég endanlega hvað ég ætlaði að segja við ykkur í dag. Þegar við nálguðumst toppinn og komum að litlu þorpi Bernian fórum við að taka eftir því að hnýttir höfðu verið svartir og grænir borðar víða í girðingar , á tré og svo á hús í þorpinu og á leiðinni að Guadalest.

Við sáum þegar í þorpið var komið að þetta voru mótmæli gegn niðurhöggi á gömlum trjám sem átti að fella til að auðkýfingar nokkrir gætu byggt sér fín hús þarna í hæðunum. Þessi tré höfðu veitt skjól og gefið af sér ávexti í hundruði ára. Þessu vildu bæjarbúar og fólk í héraðinu mótmæla með þessum hætti. Svart táknaði sorg og græni liturinn var fyrir trén. Náttúran lætur oft í lægri hluta fyrir áformum og áætlunum okkar mannanna. Vonandi tekst að forða sem flestum trjám þarna frá eyðingu en því miður ræður fátæka, vinnusama fólkið oft litlu en auðmenn meiru um það hvað verða vill.

Að vernda náttúruna

Að síðustu þetta, við hér á eyjunni okkar Íslandi þurfum að vera á varðbergi fyrir spillingu á náttúrunni okkar. Ásókn ferðamanna er mikil sem skiljanlegt er því að sjálfsögðu langar alla að sjá þetta fagra land. Við erum bara því miður ekki undirbúin fyrir komu þeirra allra og því getur margt farið úrskeiðis.

Við þurfum að taka á því og ýta á eftir þeim sem stjórna landinu að vinna verk sín náttúrunni í hag. Sjálf þurfum við að vera vakandi fyrir því að fræða ungu uppvaxandi kynslóðina um náttúruna og hversu mikilvæg hún er fyrir okkur í mörgum skilningi. Foreldrar, afar og ömmur eru bestu aðilarnir til að annast þá fræðslu. Það mun skila margfalt betri árangri í verndun náttúrunnar en tilskipanir og neikvæð umræða um tillitsleysi og kæruleysi fólks.

Göngum öll vel um úti í náttúrunni og sýnum henni þá virðingu sem hún á skilið. Það mun skila sér margfalt til okkar aftur til baka. Guð blessi náttúruna og okkur öll sem erum auðvitað lífverur í náttúrunni.

Hugleiðingin var flutt sunnudaginn 22. apríl í Grænni messu í Egilsstaðakirkju sem haldin var í tilefni af Dagi Jarðar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.