Hræðslan
Eiríkur Guðmundsson skrifar: Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdarstjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, er furðuleg fýr. Ég hef ekki vitneskju um hvar maðurinn er til heimils en miðað við síðustu yfirlýsingar hans býst ég við að hans híbýli sé stór og stæðilegur fílabeinsturn.
Með yfirlýsingum sínum í Fréttablaðinu laugardaginn 4. apríl hótar hann öllum þeim sem gætu hugsað sér að styðja þá sem eru tilbúnir að leggjast í breytingar á kerfinu sem brýtur mannréttindi fólks í landinu. Hann hótar aðgerðum sinna manna. Hann notar þau orð að enginn skynsamur stjórnmálamaður geti látið sér detta í hug að ganga í breytingar á kerfinu. Það er rangt hjá Friðriki, og hann veit það sennilega fullvel. Það sem hann óttast er einmitt að skynsamir stjórnmálamenn sem eru ekki undir hælnum á LÍÚ komist til valda eftir kosningar. Stjórnmálamenn sem eru ekki hræddir við að beita sér í breytingum til batnaðar, svo að mannréttindabrotum íslenskra stjórnvalda ljúki, og að opnað verði fyrir nýliðun í sjávarútvegi á ný. Friðrik liggur í samankipraður af hræðslu í sínum Fílabeinsturni, hræddur við að stjórnmálamenn á borð við Guðjón Arnar Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson, Grétar Mar Jónsson, Kalla Matt og mig sjálfan geti lagt sitt að mörkum í baráttunni gegn ónothæfu kvótakerfi. Það er fagnaðarefni, og segir okkur að við erum að ná að opna augu fólks. Á sama tíma vorkenni ég framkvæmdarstjóranum innilega fyrir að vera eins hræddur við breytingar og raun ber vitni, það getur ekki verið þægileg tilfinning að eiga við til lengri tíma.
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mönnum það málþóf sem hefur átt sér stað undanfarna daga á hinu háa Alþingi í tenglsum við stjórnarskrárbreytingar. Þar standa nú stjórnmálamenn sem eru með hælmark LÍÚ á enninu í pontu, jafnt dag og nótt, í veikri von um að hindra framgang breytingana. Eitthvað segir mér að þar spili stórt hlutverk 1. gr. frumvarpsins þar sem meðal annars segir:
,,Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.”
Það er morgunljóst að þegar þessar breytingar ganga í gegn verður ekki verjandi að halda áfram því kvótakerfi sem nú er við lýði.
Friðrik J. ætlar sér sennilega að mæta niður á Austurvöll í sumarbyrjun með sína veðsetningarbyltingu ef þetta verður að veruleika. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að þar munu fáir aðrir mæta með honum. Þjóðin vill kvótakerfið burt og það viljum við í Frjálslynda flokknum líka, og höfum barist duglega fyrir. Við munu áfram láta allar hótanir frá Friðriki og hans skósveinum sem vind um eyru þjóta, og ég skora á ykkur að gera það einnig. Við erum með málstaðinn með okkur, eitthvað sem Friðrik J. og LÍÚ hafa því miður aldrei kynnst.
X-Fyrir mannréttindi
Eiríkur Guðmundsson
Höfundur skipar 2.sæti Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæmi