Horfum til himins

Egilsstaðaflugvöllur er einn af fjórum millilandaflugvöllum á Íslandi og er opinn allan sólarhringinn, allt árið. Flugstöðin var upphaflega byggð á árunum 1963 til 1968 en endurbyggð og stækkuð á árunum 1987 til 1999. Veðurfar er flugi hagstætt og áreiðanleiki áætlunarflugs nær 99%.

Í aðdraganda kórónuveirufaraldursins var unnið að því að Isavia tæki alfarið yfir rekstur, viðhald og framkvæmdir á vellinum með það fyrir augum að hann yrði fyrsti varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Gert var ráð fyrir að tekjur frá Keflavíkurflugvelli fjármögnuðu uppbygginguna. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur orðið dráttur á þessum fyrirætlunum.

Þótt gert sé ráð fyrir að völlurinn verði malbikaður í sumar, malbikið á vellinum er frá 1993, eru engin áform enn um uppbyggingu akstursbrautar, stækkunar flughlaðs, lengingu flugbrautarinnar eða ILS aðflug á norðurenda flugbrautarinnar. Allt eru þetta brýnar framkvæmdir svo völlurinn geti sinnt sínu hlutverki sem fyrsti varaflugvöllur fyrir millilandaflug með öryggi í forgrunni.

Með tilliti til þeirrar stöðu sem upp er komin vegna jarðhræringa og hættu á eldgosi á Reykjanesi er brýnna en nokkru sinni að markviss vinna við eflingu flugvallarins hefjist sem fyrst. Í því sambandi er rétt að minna á orð Jörundar Ragnarssonar fyrrverandi umdæmisstjóra Isavia sem lagði áherslu á mikilvægi þess að akstursbraut verði komið upp við hlið flugbrautarinnar.

Í fréttum RÚV 5. desember 2019 sagði Jörundur: „Það getur til dæmis verið mikilvægt ef vél er að koma, margar vélar í röð. Einhverjar af þeim eru búnar að fljúga lengi og farið að minnka hjá þeim eldsneytið. Eins og til dæmis í eldgosum eða þegar Keflavík lokast vegna veðurs og svo framvegis þá er náttúrulega mjög mikið atriði að geta komið sem flestum vélum í stæði. Ekki að teppa endilega flugbrautina, völlinn sem slíkan heldur, koma þeim niður á jörðina og hafa þær í stæði.“ Hverju orði sannara.

Við skulum leyfa okkur að vona að bæði samfélagið og atvinnulífið fari smám saman að komast í eðlilegra horf nú þegar aðgerðir gegn kórónuverufaraldinum eru farnar að skila árangri. Áhrif faraldursins á efnahag landsins, fjárhag fjölskyldna og afkomu fyrirtækja er áþreifanlegur og ljóst að viðsnúningur verður ekki nema með aukinni verðmætasköpun og kröftugri viðspyrnu. Í þeim efnum skiptir miklu að sýna útsjónarsemi og áræði og nýta þau sóknarfæri sem felast í ástandinu.

Flugvöllurinn á Egilsstöðum, auk þess að vera mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum, býður upp á fjölbreytt tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar sem stjórnvöldum ber skylda til að grípa nú þegar þörf er á viðspyrnu sem aldrei fyrr. Völlurinn er ekki einungis mikilvægur hvað varðar innanlandsflug heldur býður upp á mikla möguleika varðandi millilandaflug og vöruflutninga til og frá landinu. Má í því sambandi sérstaklega benda á ferskan fisk, lax og fleira.

Sveitarstjórnarfólk á Austurlandi hefur gert sér grein fyrir þessu og að þeirra frumkvæði, í samvinnu við Austurbrú, hefur undanfarið verið unnið að myndun starfshóps sem hafa mun það hlutverk að vinna að þarfagreiningu og framtíðarsýn fyrir Egilsstaðaflugvöll með það fyrir augum að fullnýta þá möguleika sem hann hefur upp á að bjóða. Í starfshópnum er gert ráð fyrir að auk fulltrúa sveitarstjórnarstigsins verði fulltrúar úr ferðaþjónustu, sjávarútvegi og laxeldi, Isavia, íbúa og fulltrúar ráðuneyta sem málaflokkurinn heyrir undir.

Vonast er til að starfshópurinn skili niðurstöðum í vor. Þar með verður stigið mikilvægt fyrsta skref á þeirri vegferð að gera völlinn að alþjóðlegri fluggátt inn í landið sem hefur í för með sér ótal tækifæri fyrir íbúa og atvinnulíf en ekki síst mun það mun það gera Egilsstaðaflugvelli kleift að standa undir öryggishlutverki sínu. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er þetta fullljóst og sagði í sama fréttatíma og vitnað er í hér að framan: „…hér er þá rými til þess að gera þessa viðbótarbraut og þannig á mjög fljótlegan hátt að koma hér upp öruggu umhverfi í fluginu.”

Í ljósi aðstæðna á Reykjanesi síðustu daga er brýnna en nokkru sinni að láta verkin tala.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.