Orkumálinn 2024

Hlúum að eldri borgurum í Fjarðabyggð

Hlutfall eldri borgara á Íslandi mun hækka ört gangi mannfjöldaspár eftir. Samkvæmt miðgildi mannfjöldaspár Hagstofu Íslands mun fjölga í aldurshópnum 70- 100 ára um 43 prósent árið 2030 og ætla má að sú þróun haldi áfram. Fjölgunin er langt umfram aðra aldurshópa á sama tímabili.

Svipaða sögu má segja um fjölgun í elsta hópnum í Evrópu en þó er svo að hlutfall eldri borgara er víðast hvar hærra í dag en hér á landi. Þetta kallar á skýrari stefnumótun og aukið fjármagn.

Búsetuúrræði þarf í öllum byggðakjörnum

Mikilvægt er að Fjarðabyggð sem sveitarfélag hefji samtal og leiti leiða til að byggja fjölbýlishús fyrir eldri kynslóðir t.d. Eskifirði og Neskaupsstað, svipað því sem á Reyðarfirði, það mun auka framboð einbýlishúsa þar sem í dag búa einn eða tveir í of stóru og dýru húsnæði og vilja minnka. Þau óhagnaðardrifnu búsetuverkefni sem þegar eru í gangi á vettvangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar þurfa að horfa í auknum mæli til eldri kynslóða. Mikilvægt er að skilyrði kaupa eða leigu á íbúða óhagnaðardrifna húsnæðisfélaga séu hentug eldri borgurum og tekið sé mið af því í tekju- og eignaviðmiði.

Fjölga verður hjúkrunarrýmum

Biðlistar eftir hjúkrunarrými eru að lengjast. Forystumenn Fjarðabyggðar mega ekki sofna á verðinum í kröfu um fjölgun hjúkrunarrýma. Brýnt er að horfa til þess að hjúkrunardeildin í Neskaupstað stenst í dag ekki nútímakröfur og mikilvægt að endurnýja með fleiri rýmum. Einnig þarf að horfa til framtíðar varðandi stækkun Hulduhlíðar á Eskifirði og nýta betur húsnæði Uppsala á Fáskrúðsfirði og endurbæta gamla dvalarheimilishlutanum.

Efling heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrunar gerir eldri borgurum kleift að búa lengur á sínu heimili og njóta viðeigandi þjónustu þar. Fjarðabyggð er eftirbátur annarra samfélaga varðandi dagdvalarþjónustu og úr því verður að bæta. Af 833 dagdvalarrýmum sem voru á landinu árið 2020 voru einungis sex í Fjarðabyggð (fimm í Breiðdalsvík og eitt í Neskaupstað). Hér verður að lyfta grettistaki. En á sama sama tíma er þetta sóknarfæri fyrir samfélagið. Dagdvalarþjónusta er úrræði fyrir eldri borgara sem hefur gefið góða raun. Úrræðið er persónubundið þar sem einstaklingur getur fengið þjónustu ákveðna daga vikunnar allt eftir þörfum viðkomandi. Þjónustan gerir viðkomandi kleift að búa lengur í heimahúsi án þess að það komi niður á daglegum athöfnum og gerir bið eftir hjúkrunarrými bærilegra.

Virkjum betur mannauðinn

Öflug atvinnufyrirtæki í Fjarðabyggð kalla á vinnuafl. Uppbygging undanfarinna ára hefur eflt samfélagið sem hefur vaxið og dafnað með auknum umsvifum fyrirtækja. Íbúum fjölgar en hvergi nærri nóg til að mæta eftirspurn atvinnulífsins. Fjarðabyggð er samfélag sem þarf að hámarka framfarir og verðmætasköpun. Þar býr stór hópur 67 ára og eldri sem blessunarlega býr við góða heilsu og fulla starfsorku og löngun til að þátttöku í atvinnulífi. Þessi hópur býr yfir þekkingu, reynslu og ástríðu til samfélagsins, sem mætti miðla betur til yngri kynslóða. Hér þarf Fjarðabyggð aukinn baráttuanda fyrir fólk sem vill vinna en mætir sífellt hindrunum eftir 70 ára aldur. Eflum og stækkum vinnumarkaðinn, hjálpum fólki að vinna.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.
Árni Helgason, framkvæmdastjóri og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins.
Höfundar eru fyrrum framkvæmdastjórar hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.