Heimastjórnir í sameinuðu sveitarfélagi

Gengið verður til kosninga 19. september næstkomandi sem munu marka tímamót á Austurlandi þegar fjögur sveitarfélög renna saman í eitt. Hvert og eitt þessara sveitarfélaga hafa sterka sérstöðu og munu halda henni áfram. Sameining sveitarfélaga snýst fyrst og fremst um samþættingu stjórnsýslunnar og hagsmunabaráttunnar gagnvart ríkisvaldinu sem mun verða öflugri með sterkara sveitarstjórnarstigi. Hvað með smærri sveitarfélögin kunna einhverjir að spyrja? Munu þau halda áhrifum sínum og rödd?

Eða mun stærsta sveitarfélagið gleypa allt og stjórna með miðstýringu? Sporin hræða í þeim efnum en það er ábyrgð okkar sem munum leiða sameininguna næstu 20 mánuði að tryggja raddir smærri samfélaganna. Hlutverk heimastjórna var kynnt fyrir íbúum í aðdraganda kosninga um sameiningu og var raunar einn af lyklunum í þeirri vegferð að íbúar samþykktu sameininguna. Hlutverk og ábyrgð heimastjórna verður með hætti sem ekki hefur verið reyndur áður í íslenskri stjórnsýslu. Raunar er þetta verulega spennandi viðfangsefni sem horft er til af löggjafarvaldinu.

Í mínum huga eru heimastjórnirnar lykill að því að sameiningin verði farsæl og íbúar muni upplifa að þeirra samfélög hafi ennþá áhrif. Við verðum að tryggja gott fólk í heimastjórnir sem þekkir vel til og sem íbúar bera traust til að vera tengiliður milli íbúa og stjórnkerfisins. Heimastjórnir tengja saman íbúa og sveitarstjórn meðal annars með því að halda reglulega íbúafundi þar sem íbúum gefst kostur á að koma að forgangsröðun verkefna hjá sveitarfélaginu og spyrja út í rekstur og ákvarðanir.

Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan og mörg tækifæri sem munu fylgja nýju sveitarfélagi. Nýtum tækifærið núna til að skapa framúrskarandi sveitarfélag sem verður í fararbroddi þegar kemur að lífsgæðum íbúa. Tryggjum að heimastjórnirnar verði með alvöru verkefni og geti haft raunveruleg áhrif á úrlausnarefni nærsamfélagsins. Veljum fólk til áhrifa sem við treystum og sem hafa hugrekki og þor til að láta verkin tala. Sterkar heimastjórnir tryggja góða nærþjónustu sem skiptir íbúa miklu máli. Austurlistinn vill að heimastjórnir fái vel skilgreint hlutverk, vald til að taka ákvarðanir í nærumhverfinu og fjármagn til að vinna verkefni í sínu byggðarlagi.

Nýtum tækifærið til að skapa sveitarfélag sem horft er til.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði og skipar 1. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.