Heilræði um farsóttarkvíða

Þessa dagana glíma margir við erfiðar tilfinningar á borð við kvíða og depurð. Það er afar skiljanlegt í ljósi þess að ástandið er bæði kvíðvænlegt og dapurlegt. Slíkar tilfinningar eru því alls ekki óeðlilegar og í raun eru þær nánast óhjákvæmilegar.

Hlutverk slíkra tilfinninga er að auka líkurnar á því að við bregðumst við aðsteðjandi ógn og séum á varðbergi. Það er þó ekki hjálplegt að láta þær taka af okkur völdin, sem getur vel gerst ef við bregðumst við þeim í blindni. Tilfinningarnar geta þá farið að valda okkur stöðugri vanlíðan og svefnleysi. Hér koma því nokkur heilræði um það hvernig hægt er að umgangast þessar tilfinningar þannig að þær hafi sem minnst áhrif á getuna til að hugsa vel um okkur, hvert annað og okkar nánustu

Einbeittu þér að því sem þú hefur stjórn á

Þú getur ekki stjórnað framtíðinni. Þú getur ekki stjórnað kórónaveirunni, viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda eða efnahagslífinu. Þú getur í raun ekki heldur beinlínis stjórnað tilfinningunum sem þetta vekur, enda er kvíðinn og óttinn eðlilegur. Þú getur hins vegar haft mikið um það að segja hvað þú gerir, hér og nú og hvernig þú umgengst og túlkar tilfinningarnar. Það er lamandi og lítið gagnlegt að hafa athyglina allan daginn bundna við eitthvað sem þú getur ekki stjórnað. Þetta erum við þó mjög gjörn á að gera, til dæmis þegar við fylgjumst stöðugt með fréttum og samfélagsmiðlum. Það er sennilega alveg nóg að kíkja á fréttir einu sinni eða tvisvar á dag. Fréttirnar eru líklegar til að auka á vanlíðanina, enda fátt gott í fréttum þessa dagana.

Ekki afneita tilfinningum eða flýja þær

Við höfum ekki beina stjórn á tilfinningum, en þær geta hins vegar haft mikil áhrif á það hvernig við hegðum okkur ef við förum ekki varlega. Best er að leyfa tilfinningunum að koma, veita því athygli hvernig manni líður og nefna tilfinninguna í huganum („Mér líður ekki vel núna. Þetta er kvíði. Ótti…..“). Það getur líka verið gott að ræða tilfinninguna við einhvern sem maður treystir. Það er reyndar gott að muna að nánast allir upplifa erfiðar tilfinningar þessa dagana, sama hvað þeir bera sig vel. Ekki er vænlegt að reyna að slást við tilfinninguna heldur er best að leyfa henni að koma og fara eins og veðrinu. Tilfinningar endast ekki nema mjög stutt í einu ef þær eru látnar í friði.

Beindu athyglinni að skilningarvitunum

Það eina sem við getum verið algerlega viss um í þessu lífi er það sem skilningarvitin segja okkur: Það sem við sjáum, heyrum, snertum, brögðum eða finnum lyktina af. Strangt til tekið er líka ekkert raunverulegt nema augnablikið. Allt annað eru hugmyndir eða túlkanir, þar með talið það sem við köllum fortíð eða framtíð. Það er því góð leið til að halda sönsum að tengja við skilningarvitin og varpa þannig akkeri í hinu margumtalaða „núi“.

Líttu upp og horfðu í kringum þig. Hvað er í kringum þig? Finndu fimm hluti í kringum í þig núna og virtu þá fyrir þér. Hlustaðu. Hvað heyrir þú? Getur þú greint fleiri en þrjú hljóð? Finnur þú fyrir höndunum á þér? Eru þær heitar? Kaldar? Hvaða bragð finnur þú í munninum? Hvaða lykt finnur þú?

Í hvert sinn sem þú tengir í alvörunni við skilningarvitin hefur þú tengt við núið og veruleikann eins og hann er akkúrat hér og nú. Og oftast er ekkert að óttast akkúrat hér og nú.

Gerðu það sem skiptir máli

Í stað þess að velta þér upp úr fréttum og vanlíðan, gerðu þá það sem skiptir máli. Og hvað skiptir máli? Almennt séð er það mjög persónubundið, en hér er átt við það sem þér finnst merkingarbært og gott að eyða tíma í. Sinntu áhugamálunum eins og þú getur, spjallaðu við fólk eins og hægt er og reyndu að hjálpa og styðja það eins og þú getur með því að hlusta og sýna því athygli og umhyggju. Farðu út í náttúruna, komdu blóðinu á hreyfingu og andaðu að þér fersku lofti. Borðaðu góðan mat og njóttu, lestu góða bók eða horfðu á góða bíómynd. Búðu til þinn eigin lista yfir athafnir sem veita þér raunverulega gleði og tilgang og gerðu eitthvað á þeim lista á hverjum degi.

Svo eru auðvitað mikilvægir hlutir sem svo sannarlega skipta okkur öll máli þessa dagana og það er að fylgja öllum varúðarráðstöfunum svo að hefta megi útbreiðslu kórónaveirunnar, svo sem að þvo hendur, halda fjarlægð frá öðru fólki, láta vita ef þú telur minnstu líkur á að þú hafir umgengist einhvern smitaðan o.s.frv. Góðar leiðbeiningar er að finna á www.covid.is. Það er afar mikilvægt að við gerum öll það sem við getum til að halda þessum vágesti í skefjum.

Mundu að við höfum komist í gegnum verri hluti

Mundu að þú ert seigari en þú heldur. Þú ert kominn af órofinni blóðlínu fólks sem lifði af hungur, sjúkdóma, náttúruhamfarir, stríð og ýmiskonar harðræði sem við getum varla ímyndað okkur. Þú berð gen þessa fólks og þolir því meira en þig grunar. Og íslenskt samfélag hefur upplifað ýmiskonar erfiðleika í gegnum aldirnar sem voru miklu alvarlegri en ástandið sem við horfum upp á núna, svo sem spænsku veikina sem var mun alvarlegri farsótt en Covid19, kreppuna miklu á þriðja og fjórða áratugnum og hrunið árið 2008. Við erum á allan hátt betur í stakk búin til að takast á við farsóttir og efnahagslægðir en við vorum hér áður fyrr. Ef við stöndum saman, nálgumst verkefnin af yfirvegun og dugnaði þá finnum við út úr þessu (Þetta reddast!).

Höfundur er verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni. Hann er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Bournemouth University og er að ljúka tveggj ára framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð við Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann hefur að auki stundað hugleiðslu síðan 1993 og sótt hugleiðslukennaranámskeið. Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.