Hátíðarávarp á fullveldishátíð

Árið 1918 varð eldgos á Íslandi. Því fylgdu jarðskjálftar, jökulhlaup og gjóskufall. Í marga daga rigndi þurri eldfjallaösku úr gráum skýum, og þakti hálft Ísland. Agnirnar spýttust upp, sveimuðu um í loftinu, dreifðu úr sér og settust á landið. Það er sagnorðið sem er notað til að lýsa hvernig eldfjallaaska hegðar sér – hún sest. Alveg eins og ryk sest á bókahillur, eða einhver sem kemur þreyttur heim úr vinnunni sest niður í hægindastól, nema askan og rykið kunna ekki að standa upp. Aska sest, hraun rennur og jöklar hlaupa. Þetta þekkjum við, enda er Ísland köld eyja sem fæddist í eldgosi upp úr hafinu.

Í kristni má finna hugmyndir um helvíti sem eru nátengdar eldgosum. Það er í iðrum jarðarinnar, þar sem finna má fljótandi hraun, óstöðvandi eld og ösku, og fólk brennur upp og springur eins og pylsur á grillinu á sautjánda júní. Þetta er helvíti. Og að lenda í þessu væri helvíti leiðinlegt. Íslendingar elska að komast til heitari landa, en sólarþráin sem rekur okkur út breytist gjarnan í sólargræðgi og endar í brenndri húð og tanviskubiti. Það er vel hægt að taka inn of stóran skammt af sól. En helvíti er líka kalt. Helvíti er ekki eingöngu sprungnar, heldur líka frosnar pylsur sem hafa gleymst í kælinum, fjölskyldupakki þar sem allir eru saman í gaddfreðnu faðmlagi. Í norrænni goðafræði er Niflhel, neðsta hæð Heljar, ísköld frystikista. Þar þekja ískristallar yfirborðið eins og hvítur feldur. Eldfjallaaskan er eins og svartur feldur. Þetta eru tvær skepnur: Ísbjörn og skógarbjörn, og báðir eru að fara úr hárum.

Þessar tvær andstæðu hugmyndir um helvíti, önnur að þar sé ótrúlega heitt, hin að þar sé ótrúlega kalt, hafa með tímanum orðið að markaðssetningu fyrir Ísland. Ísland er kallað land of ice and fire. Það er farið into the glacier og meira að segja into ice and lava. Hraunið er sem betur fer kólnað, þetta er ekki pílagrímsferð inn í eilífðina. Ferða- og leiðsögufólkið snýr aftur, fær sér heitt kakó og iljar sér við miðstöðina í rútunni. Það er hvorki að frjósa í hel, né að brenna.

Árið 1918 hugsuðu Íslendingar eflaust oft um helvíti, ekki endilega í tengslum við trúarbrögð eða markaðssetningu, heldur raunveruleikann. Þeir hafa hugsað um sjúkdóma, fjöldagrafir, sjálfstæði, stríð, fjölskyldu, vináttu, hungur, framtíðina, fortíðina, steikjandi hita, frost, mat og börnin sín. Íslendingar hafa horft á eldfjallaöskuna setjast á landið sitt og ímyndað sér að flytja í burtu. Þeir hafa hugsað: Askan er ekki bara að setjast, heldur að setjast að. Hún er að flytja búferlum. Hana langar ekki lengur að búa neðanjarðar, heldur flytja á efri hæðina og eiga þar góða ævi, þar til hún sekkur aftur ofan í jörðina og verður að gjóskulagi. Íslendingarnir hafa ímyndað sér að flytja sjálfir á betri stað, þar sem hitastigið er einhvers staðar á milli hins kristna vítis og Niflhel, en ekki hvort tveggja í einu.

Að verða fullvalda

Árið 1918 var ég ekki fæddur. Ekki heldur mamma eða pabbi, eða afar mínir og ömmur. En langömmur mínar voru þarna: Friðgerður, Vilborg, Elísabet og Þóra. Og langafar mínir: Brynjólfur, Þórður, Jón og Þórhallur. Íslendingar voru tæplega 92 þúsund talsins þetta ár, og þessir átta forfeður mínir voru því 0,00007 prósent af allri íslensku þjóðinni. Þau urðu sjálf fullvalda, á sama tíma og Ísland. Þau urðu fullorðin. Ísland heimtaði að fá að taka ábyrgð á sjálfu sér, forfeður mínir fengu þessa sjálfsábyrgð hvort sem þau vildu hana eða ekki, eins og allir sem lenda í því að verða fullorðnir. Þess konar fullveldi fylgja auðvitað líka hörmungar, hörmungar á persónulegum skala, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að þroskast. Persónulegir frostavetur, öskuföll og jökulhlaup, umbreytingar, dauði sambanda, sálarstríð, sálarheimsstyrjaldir og svo framvegis. En það sem er sérstakt við Íslendingana sem fæddust í kringum aldamótin 1900 var að þau hlutu sína eigin eldskírn á sama tíma og landið sitt. Þau voru þjáningarsystkini, Ísland og Íslendingarnir.

Sjálfur hlaut ég persónulegt fullveldi árið 2005. Þá varð ég átján ára. Þá var hvorki of heitt né of kalt, það var alveg mátulegt. Stóllinn hvorki of harður né mjúkur, grauturinn hvorki of heitur né kaldur, rúmið tilvalið til að sofna í. Íslendingar voru hvorki sprungnar sé frosnar pylsur, heldur pylsur við stofuhita. Það var ekkert eldgos, engin spánsk veiki, ekki einu sinni fuglaflensa. Engir stórviðburðir þannig séð, Davíð Oddsson hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins, Liverpool vann Meistaradeildina, Bobby Fischer flutti til Íslands, og ég missti sveindóminn. Þessir síðustu tveir atburðir tengjast þó ekki. En Íslendingar árið 2005 voru ekki lengur í helvíti, hitinn og kuldinn voru orðin að markaðssetningu og brandara. Landið var löngu orðið fullvalda, ég þroskaðist ekki samhliða því eins og langömmur mínar og langafar. Tengingin á milli mín og landsins er ekki jafnsterk. Ísland er eins og systkini sem er of langt frá mér í aldri til að við getum tengst á jafningjagrundvelli. Og Íslendingar eru miklu, miklu fleiri. Íslendingar eru 338.349. Ég er því tæplega 0.000003 prósent af allri þjóðinni. Af þessum sjö tölustöfum, sem segja til um tengsl mín við íslensku þjóðina, eru allir nema einn þeirra tölustafurinn núll. Ég tilheyri því ekki íslensku þjóðinni, nema maður telji sex aukastafi, og það gerir enginn heilvita manneskja í sínu daglega lífi. Verð í matvöruverslunum eru ekki gefin upp með sex aukastöfum, ekki heldur einkunnir í skóla, eða bankavextir. Við erum 0% af þjóðinni, hvert og eitt okkar. Hrunið var 0% mér að kenna. Það er 0% mér að þakka hvernig Íslandi gengur á stórmótum í fótbolta. Ísland mengar mest allra Evrópuþjóða en ég ber 0% ábyrgð á því, hvorki sem Íslendingur, né jarðarbúi, því ef ég er 0% af allri íslensku þjóðinni er ég miklu, miklu minna en 0% af öllu mannkyninu. Við erum öll 0% af öllu sem við erum. Í rauninni erum við bara fínt grátt duft, undir tveimur millimetrum í þvermál, og höfum dreift úr okkur út um allt. Við höfum sest að ofan á jörðinni og með tímanum sökkvum við ofan í hana og sameinumst henni, verðum að gjóskulagi í jarðveginum, myndum punktalínu ofan í jörðinni sem geymir allskonar vísbendingar um liðinn tíma, hver kynslóð eins og árhringur í tré. Við erum til, en samt ekki, við erum ekki Íslendingar, en samt ekki neitt annað, myndum stóra heild, en skiptum í hlutfalli við aðra engu máli. Við erum þess vegna ekkert eitt, en heldur ekki neitt annað.

Fullveldi og framtíðin

1918 var fyrir hundrað árum. Síðan þá hefur allt breyst. Hversdagsleg tilvera okkar er það ólík tilveru forfeðra okkar, að við gætum allt eins verið á annarri plánetu. Það er kominn nýr veruleiki. En samt er fólk ennþá að verða átján ára. Fólk er ennþá að verða fullvalda. Það hugsar ennþá um hvernig hitastigið verður í framtíðinni. Það hugsar ennþá um sjúkdóma, fjöldagrafir, sjálfstæði, stríð, fjölskyldu, vináttu, hungur, framtíðina, fortíðina, steikjandi hita, frost, mat og börnin sín. Í dag hugsa Íslendingar líka um Eurovision, Evrópumótið í fótbolta og WOW-air. Þeim finnst að 1918 hafi verið ótrúlegt ár, en ennþá ótrúlegra að vera uppi 100 árum síðar. Þeim finnst ótrúlegt að vera uppi á tímum þar sem allt mannkynið varð fullvalda. Og þetta nýja fullveldi er ekki fullveldi sem neinn hefur barist fyrir, heldur fengið upp í hendurnar, hvort sem manni líkar það betur eða verr. Og ábyrgðin sem fylgir því að fá fullveldi er að vissu leyti óhugnanleg og fráhrindandi, rétt eins og að verða átján ára. Hún er kannski algjört helvíti. En hún er líka helvíti fín. Hún er líka hlý tilfinning. Ekki of köld og ekki of heit. Hún er eins og jarðvarmi inni í manneskjum, eitthvað sem dregur þær áfram og heldur þeim á lífi í gegnum kalda vetur, eldgos og áhyggjur af framtíðinni.

Ávarpið var flutt á hátíðarhöldum í Menntaskólanum á Egilsstöðum þann 1. desember

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar