Golfklúbbur Seyðisfjarðar 30 ára

Golfklúbbur Seyðisfjarðar (GSF) var stofnaður á kaffistofu Sjúkrahúss Seyðisfjarðar 2. júní 1988. Aðalhvatamaður var Gissur Ó. Erlingsson símstöðvarstjóri en hann hafði komið að stofnun golfklúbba m.a. í Neskaupstað á sínum tíma og Siglufirði. Í fyrstu stjórn klúbbsins, sem kosin var á stofnfundinum, voru Lilja Ólafsdóttir formaður, Lárus Gunnlaugsson ritari og Jóhann Sveinbjörnsson gjaldkeri.

Stofnfélagar voru 21 talsins en aðeins 5 þeirra eru virkir félagar í dag. Klúbburinn sótti strax um land inni í Haga fyrir golfvöll og fékk Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuð til að teikna 9 holu golfvöll. Nokkrir rollubændur höfðu á leigu spildur í Haganum hjá bænum og tók tíma og allnokkuð umstang að losa um þá samninga. Svo langt gekk það að bæjarstjórn varð að nýta heimild í fundarsköpum og loka bæjarstjórnarfundi, takmarka ræðutíma og banna ítrekuð framíköll þegar leigusamningarnir voru til umræðu og afgreiðslu. Sumum fannst það lítt gáfulegt og í raun fráleitt að taka svo dýrmætt landsvæði undir golfvöll. Golf væri ekki íþrótt, einungis fyrir snobbara og gamalmenni og þá sem lítt nenntu eða gátu hreyft sig. Að berja út í loftið hvítar golfkúlur og elta þær svo ráðvilltur út og suður væri mikil og alvarleg bilun. Já, það var í þá gömlu, góðu daga.

Þegar allir samningar voru frá hófst vallargerðin skömmu fyrir síðustu aldamót og var byrjað með eina til þrjár holur. Núverandi klúbbhús var vígt 2003 og þá hófst af alvöru uppbygging golfvallarins. Flötum og brautum fjölgaði síðan einni af annarri. Í dag er Hagavöllur fallegur, eftirsóttur 9 holu golfvöllur með góðu klúbbhúsi sem prýðir innkeyrsluna í bæinn þegar komið er ofan af Fjarðarheiðinni.

Klúbburinn telur 48 félaga og er einn sá fámennasti á landinu. Skiptist hann í tvær deildir: Annars vegar Lávarða GSF sem eru félagar 60 ára og eldri og hins vegar Riddara GSF sem eru 59 ára og yngri. Allnokkur metingur og hófleg samkeppni er á milli deildanna. Á árlegum Lávarðaleikum í september, í sérstöku hófi í lok sumarvertíðar, skora Lávarðar Riddarana á hólm, bæði utan og innnadyra. Þá eru oft glæsileg, sjaldséð tilþrif viðhöfð, m.a. í tali og tónum. Eftirsóttir titlar og verðlaun eru þá í boði.

Samheldni klúbbfélaga er mikil og eftir henni tekið. Frá árinu 2004, eða í 14 ár, hafa þeir farið árlega nokkrir saman í „æfingabúðir“ erlendis. Þeir eru nú nýkomnir úr einni slíkri, 14 saman, frá Suður-Spáni og m.a. unglingurinn Jón Magnússon 88 ára spilaði þar golf, brosandi út að eyrum, alla daga. Átta GSF félagar til viðbótar fara í júní nk. til Þýskalands og Póllands. Tæplega helmingur klúbbfélaga er því á faraldsfæti í „æfingabúðum og uppherslu“ erlendis í ár. Gera einhverjir betur? Kröftugur og lifandi félagsskapur GSF gefur samfélaginu á Seyðisfirði bjartan og skemmtilegan tón sem þrífst vel á milli Bjólfs og Strandatinds. Þannig á það líka að vera og verður vonandi áfram.

Núverandi stjórn GSF skipa: Adolf Guðmundsson formaður, Þorvaldur Jóhannsson gjaldkeri og Ómar Bogason ritari. Þorsteinn Arason er varaformaður. Vallarstjóri Hagavallar er Jóhann Stefánsson.

Í tilefni tímamótanna er boðið til afmælismóts á Hagavelli á afmælidaginn, laugardaginn 2. júní nk. Mótið er opið og skráning fer fram á Golf.is.

GSF félagar á Islantilla í apríl. sl. Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.