Glappaskot Félags íslenskra bókaútgefenda

Í þrjátíu ár eða meira hefur Félag íslenskra bókaútgefenda gefið út Bókatíðindi, þar sem bækur útgefnar á árinu eru kynntar, með mynd af kápum og stuttri lýsingu á efni þeirra. Útgefendur líta á þetta sem auglýsingu, og kosta birtingu í þessu riti fyrir bækur sínar. Ritið mun vera einstakt á heimsmælikvarða, og sýnir að Íslendingar eru bókaþjóð.

Bókatíðindin hafa komið út í nóvember og verið borin inn á hvert heimili landsins af Póstinum sem nú heitir Íslandspóstur. Menn hafa beðið þess með eftirvæntingu og tilhlökkun, að sjá hvaða bækur eru í boði fyrir jólin, enda hyggja þá flestir á bókakaup til eignar eða gjafa. Jólin eru stærsti „bókamarkaður“ þjóðarinnar, sem kunnugt er.

Fyrir mig hafa Bókatíðindin verið gleðigjafi á dimmasta tíma ársins, sem mætti vel kalla „litlu jólin“. Varla get ég hugsað mér betri jólagjöf. Snemma í nóvember frétti ég að þau væru komin í hús á Höfuðborgarsvæðinu og stuttu síðar á Akureyri. Auk þess voru þau á Netinu. Þá getur ekki liðið á löngu áður en þau koma í Egilsstaði, hugsaði ég, og spennan magnaðist dag frá degi. Svo liðu vikur án þess að þau kæmu í póstkassann. Þetta gat ekki verið einleikið.

Loks kom að því að ég leitaði skýringa í Pósthúsinu, og frétti þá að Íslandspóstur sæi nú ekki um dreifingu Bókatíðinda, en okkur dreifbýlisfólki væri gefinn kostur á að sækja þau á bensínstöð N1, þar væru þau stundum til en stundum ekki. Þótt kominn sé á níræðisaldur var ég tindilfættur þangað, og hafði heppnina með mér. Þá rámaði mig í að hafa heyrt það auglýst í útvarpi að N1 afgreiddi þau, en ég hélt að það væri bara aukalega.

Nú blasti skýringin við, á bls. 2 í Bókatíðindum stendur: Dreifing: Póstdreifing og N1. Við eftirgrennslan á Netinu kom í ljós að „Póstdreifing“ er fyrirtæki, sem ber út Fréttablaðið, Moggann og sitthvað fleira á Reykjavíkursvæði og Akureyri, en ekki annarsstaðar. Það sama hlaut að gilda um Bókatíðindin. Ég varð að bíta í það súra epli, að vera annars flokks borgari þessa lands, að áliti stjórnar F.Í.B., ekki þess verður að fá bókaskrána.

Þannig var landsbyggðarfólki hróplega mismunað af bókaútgefendum, því að N1 „dreifir“ engu, og hefur aldrei gert. Það er bensínstöð, víðast með sjálfsala, aðeins með þjónustu á fáeinum stöðum utan höfuðborgarsvæðis. Þó margir eigi leið þangað eru það fyrst og fremst bíleigendur. Gamalt fólk kemur þar sjaldan, allra síst nú í „Kóvítinu“, einmitt það fólk sem mest kaupir af bókum, og margir vita ekki að Bókatíðindin fáist þar. Bókabúðir eru orðnar mjög fáar á dreifbýlinu, t.d. er engin hér austanlands, því erum við háðari Bókatíðindum en þéttbýlingar með bókakaup.

Ég sendi F.Í.B. tölvupóst og bað um skýringar á þessari mismunun. Svarið var eintak af Bóktíðindum sent með Íslandspósti!! Ég hef reynt að vekja athygli blaða- og fréttamanna í mínu umhverfi á þessu makalausa misrétti, sem fjórðungur þjóðarinnar verður að búa við, en hlotið misjafnar undirtektir. Það er eins og margir sætti sig við að dreifbýlið sitji ekki við sama borð og stærsta þéttbýli landsins, enda svo sem ekki óvanalegt. Sjálfum finnst mér það eitt mesta kjaftshögg sem ég hef orðið fyrir á ævinni.

Furðulegt er að útgáfufyrirtæki á „landsbyggðinni“ sem eiga bækur í Bókatíðindum, skuli sætta sig við þetta, því þeirra markaðssvæði eru að miklu leyti utan þéttbýlis. Í þeirra sporum myndi ég neita að greiða uppsett birtingargjald. Ég hef kynnst mörgum bókaútgefendum, reynt þá að góðu einu, og átt við suma þeirra farsælt samstarf. Í síðustu lög mun ég trúa því að þeir séu allir sáttir við þá „dreifingaraðferð“ F.Í.B, sem hér var lýst.

Það er einlæg von mín að þeir grípi í taumana og fái stjórn félagsins til að snúa af villu síns vegar, og taka aftur upp almenna dreifingu á þessari jólagjöf, jafnvel þó að það kosti eitthvað meira. Í þeirri von hlakka ég til jólanna 2021.

– Helgi Hallgrímsson, Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.