Skip to main content

Geislaþytur

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.17. júlí 2009

Út er komin bókin Geislaþytur, Úrval sagna og ljóða eftir Gunnar Valdimarsson. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur út.

Formála að bókinni ritar Þorsteinn Gunnarsson, sonur skáldsins. Hann rekur stuttlega ævi föður síns og segi hana áhugaverðan spegil á líf íslensks alþýðufólks á tuttugustu öldinni.

geislaytur_vefur.jpg

Gunnar Valdimarsson fæddist 25. maí árið 1924 á Hróaldsstöðum í Selárdal í Vopnafirði. Foreldrar hans voru hjónin Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem birti ljóð sín undir nafninu Erla, og Valdimar Jóhannesson. Þess má geta að Félag ljóðaunnenda á Austurlandi undirbýr nú útgáfu heildarsafns ljóða Erlu. Skömmu eftir fæðingu Gunnars flutti fjölskyldan að Felli í Hofsárdal og vorið 1927 að Teigi í sama dal, þar sem Gunnar óx úr grasi með átta systkinum. Kona Gunnars er Sólveig Einarsdóttir frá Reykjavík. Þau höfðu búskap í Teigi frá 1953 til 1971, er þau fluttu til Reykjavíkur í kjölfar fimm hafísára á Norðausturlandi. Börn Gunnars og Sólveigar eru Þorsteinn, Erla, Helga og Einar. Í Reykjavík vann Gunnar m.a. við Ríkisútvarpið og Kjarvalsstaði og rak fornbókaverslunina Bókina frá 1977 til 1998 ásamt Snæ Jóhannessyni. Bækur og fróðleikur hvers konar hafa ævinlega fylgt Gunnari og hann hefur gegnum tíðin haft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, ekki síst á stjórnmálum líðandi stundar. Skriftir voru aldrei langt undan og hafði skáldskapur móður hans og Þorsteins bróður hans mikil áhrif á hann, sem og öndvegisskáld íslenskrar tungu. Smásögurnar í Geislaþyt eru frá ýmsum tímum en ljóðin flest ort á árunum 1949 til 1952.

  

Geislaþytur er 176 bls. í harðspjaldakápu. Forsíðumynd er eftir Torfa Jónsson, sem hannar kápuna og bókband. Menningarráð Austurlands, Erlusjóður, Gunnar Valdimarsson og Sólveig Einarsdóttir styrktu útgáfuna. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi lætur ekki deigan síga í útgáfu forvitnilegra fagurbókmennta sem eiga erindi við austfirðinga og landsmenn alla og á hrós skilið fyrir framtakið.