Orkumálinn 2024

Gangamál Austfirðinga

Auðvelt er að fullyrða að algjör samstaða er um að næstu samgöngubætur á Austurlandi verði til þess að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Hér fyrr í vikunni birtist grein um gangamál Seyðfirðinga þar sem haldið var fram að umræðan væri orðin ruglingsleg og að ýmsu væri fleygt fram sem hvorki stenst skoðun né rök og þá sérstaklega beint spjótum sínum að andspyrnu fólks úr Fjarðabyggð. Þakka ég höfundi fyrir að vekja athygli á því sem fram kemur í grein hans og vekja Austfirðinga til umræðu um þetta veigamikla mál: Hvers vegna eru Fjarðarheiðargöng ekki einkamál Seyðfirðinga?

Áttundu lengstu göng í heimi

Fjarðarheiðargöng yrðu áttundu lengstu umferðarjarðgöng í heimi og hefur því verið haldið fram að kostnaður við gerð þeirra gæti orðið um eða yfir 25 milljarðar kr. Til samanburðar var kostnaður við Fáskrúðsfjarðargöng á bilinu 8-9 milljarðar kr. á verðlagi þessa árs og kostnaður við Norðfjarðargöng 14,3 milljarðar kr. Samtals voru þessar helstu samgöngubætur Austurlands því um 22-23 milljarðar kr. Það er því ljóst að Fjarðarheiðargöng eru dýr og flókin framkvæmd á heimsmælikvarða og því eðlilegt að slík framkvæmd sé rædd af íbúum landsins, hvort sem þeir búa í Fjarðabyggð eða Árneshreppi.

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi

Í umræddri grein er því fleygt fram að Fjarðabyggð geti ekki stutt við bakið á Seyðfirðingum. Nú er rétt að minna á að mikil samvinna er nú þegar á milli Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðar, ekki einungis á sviði sveitarstjórnarmála heldur einnig á sviði atvinnumála. Til að átta sig á veigamiklu samstarfi atvinnulífs Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðar má áætla að 40-45% af hreinum útsvarstekjum Seyðisfjarðarkaupstaðar komi til vegna starfa fyrirtækja í Fjarðabyggð. Það er því ljóst að þessi sveitarfélög eru nátengd og ekki einungis nágrannar í landfræðilegum skilningi.

Hin margrómaða skýrsla Eflu

Það virðist vera samnefnari þeirra sem gagnrýna þá sem vilja opna umræðuna og kanna aðra möguleika en gerð Fjarðarheiðarganga að nefna skýrslu Eflu frá árinu 2011 máli sínu til stuðnings. Ekki er auðvelt að komast yfir þessa skýrslu en þegar slegið er inn í leitarsíður „Skýrsla Eflu um Fjarðarheiðargöng“ kemur í ljós að hún er hvergi aðgengileg en aðeins er vitnað í hana í ályktunum bæjarráðs Seyðisfjarðar og á heimasíðunni fjardarheidargong.is. Skýrslan virðist hvorki aðgengileg á heimasíðu Eflu né Vegagerðarinnar.

Þegar undirritaður loksins komst yfir skýrslu Eflu sem ber nafnið „Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum“ kemur ýmislegt í ljós. Í fyrsta lagi að skýrslan er unnin í þeim tilgangi að kanna munnasvæði fyrir göng undir Fjarðarheiði. Í inngangi skýrslunnar segir enn fremur „lauslega er fjallað um aðra jarðgangakosti en göng undir Fjarðarheiði, sem allir miða að því að tengja saman og rjúfa vetrareinangrun byggðarlaga á Austfjörðum. Lauslega er fjallað um þessa kosti í skýrslunni til samanburðar hvað varðar vegalengdir milli byggðarlaga og lengdir jarðganga.“

Að þessu sögðu kemur það ekki á óvart að göng undir Fjarðarheiði séu talin álitlegasti kosturinn ef forsendurnar fyrir samanburðinum liggja aðeins í „hvað varðar vegalengdir milli byggðarlaga“. En snúast svona framkvæmdir ekki um eitthvað meira en vegalengdir og ber að taka skýrslu sem fjallar lauslega um aðra möguleika sem hið heilaga orð?

Fagleg vinnubrögð til að komast á rétta leið

Vegabætur fela ekki sjálfkrafa í sér áhrif á viðkomandi samfélag heldur aðeins möguleika til breytinga. Rétta leiðin hlýtur að vera sú að koma verkinu í hendur sérfræðinga sem metið geta hvaða ákvörðun mun vera samfélaginu í heild hvað mest til bóta.

Í 227 blaðsíðna skýrslu RHA (Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri) frá október 2005 er ekki einungis horft til vegalengda heldur samfélagslegra áhrifa og arðsemi samgönguframkvæmda á Austurlandi. Ólíkt Eflu skýrslunni umræddu er þessi skýrsla aðgengilegt á netinu. . Í stuttu máli eru jarðgangakostir bornir saman ásamt öðrum mögulegum samgöngubótum á Austurlandi. Í þessari skýrslu, sem komin er til ára sinni og mætti vel uppfæra, er unnið útfrá fjórum flokkum: Arðsemi, umferðaröryggi, tengingu byggða- og atvinnusvæða og byggðaþróun. Í þessari skýrslu fær því miður fyrrnefnd Fjarðarheiðargöng ekki bestu einkunn þrátt fyrir þá yfirlýsingu í fyrrnefndri grein að allt bendi til að göng undir Fjarðarheiði væri eini rétti kosturinn í stöðunni.

Nú þegar er í gangi vinna til þessa að skera úr hvort æskilegra sé að tengja Seyðisfjörð í gegnum Fjarðarheiði eða fara Fjarðaleiðina svokölluðu. Leyfum þeirri vinnu að klárast og verði það niðurstaða faglegra vinnubragða að hagkvæmnast sé að fara undir Fjarðarheiði þá munu Austfirðingar standa saman um þá ákvörðun.

Það er ljóst að mikill þrýstingur verður á komandi árum á samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi og er því nauðsynlegt að hafa haldbær rök fyrir því hvers vegna ætti að ráðast í svo kostnaðarsama framkvæmd á Austfjörðum. Vangaveltur um Fjarðarheiðargöng munu færast í aukana á næstu árum og því þurfa allir sem hallast að gerð Fjarðarheiðarganga að vera klárir að taka á móti gagnrýni í stað þess að bregðast illa við henni.

Bíðum eftir skýrslum sérfræðinga og fáum fagaðila að borðinu, framkvæmdir eins og þessar verða ekki keyrðar í gegn á tilfinningum einum. Tími slíks kjördæmapots er nefnilega liðinn.

Sigurður Steinn Einarsson, ungur Austfirðingur.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.