Fórnin
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 29. mars 2013
Menn áttu að vita að Kárahnjúkavirkjun hefði alvarleg óafturkræf áhrif á vistkerfið á Fljótsdalshéraði. Aðrir hagsmunir virtust meira metnir en þau. Tíminn leiðir í ljós hvort menn hafi fórnað meiri hagsmunum fyrir minni.
Allt í einu var lífríkið í Lagarfljótinu aðalfréttin. Loks þegar Gunnar Jónsson kom í fjölmiðla og lýsti því að lífríkið væri „nánast dautt.“ Hlaupið var á milli álitsgjafa til að fá viðbrögð við yfirlýsingunni. Enn hafði samt enginn séð skýrsluna sem Gunnar vísaði til – og hún er ekki enn komin.
Ég horfði á undrandi. „Vissu menn ekki að þetta myndi gerast? Við höfum fengið alls konar tölur og skýrslur síðustu ár sem hafa sagt okkur þetta. Hlustuðu menn ekki?“ Til að ég svari sjálfum mér; sennilega trúðu menn ekki að afleiðingarnar yrðu svona alvarlegar.
Fremur rýrt vatnalíf
Eftir því sem liðið hefur á hafa fleiri staðreyndir verið dregnar fram. Fiskurinn í Lagarfljótinu er að 80% dauður – og var hann þó ekki mikill fyrir.
Í þeim skýrslum sem unnar voru fyrir framkvæmdirnar segir að lífríkið í Lagarfljótinu sé „fremur rýrt“. Þetta er jú jökulá, ekki tær lindará. „Töluverð gróska“ er meðal botndýra í grunnu vatni næst landi.
Lagarfljótið er búsvæði fiska og því skaðar hnignun í fljótinu veiðimöguleika í þeim ám sem í það fjalla. Í umhverfismati virkjunarinnar segir að vöxtur fiska í fljótinu sé „fremur hægur.“ Verndargildi fljótsins er í heildina talið „í meðallagi.“ Það eykst því í því finnast allar þrjár íslensku laxfiskategundirnar.
„Aukinn svifaur getur einnig hamlað göngu fiska um vatnið, sérstaklega innarlega í því. Þó ber að hafa í huga að lífríki í Lagarfljóti er fátæklegt fyrir hvað varðar svifþörunga-, svifkrabbasamfélag og fisk þótt strandlíf sé gróskumikið,“ segir í umhverfismatinu.
Allt hefur áhrif – einkum við sjálf
En þótt fiskurinn hafi ekki verið það mikill að mannfólkið nýtti sér hann til lifibrauðs var hann samt þarna. Og þótt við veiddum hann ekki veiddu fuglarnir hann. Allt hefur þetta áhrif í vistkerfinu þar sem mannskepnan álítur sig svo oft tróna efst. „Líklegt er talið að breytingar á vatnafari Lagarfljóts muni hafa neikvæð áhrif á fæðuskilyrði fyrir fugla í ánni, einkum fiskiætur og flestar kafendur.“
Stundum finnst mér eins og Íslendingar óttist ekkert meira en atvinnuleysi. Og ótti er eitt beittasta sálfræðivopn sem til er og nýtist afar vel í pólitískum tilgangi.
Fyrir álver og virkjun var fólksflóttinn ógnvaldurinn, að unga fólkið hyrfi á braut, að fjölda atvinnuleysi yrði staðreynd. „Á hverju ætla Austfirðingar þá að lifa? - Loftinu?“ var spurt og virðingin fyrir rökum þeirra sem börðust gegn álverinu endurspeglaðist í besta falli í orðunum „Við hljótum samt öll að vera sammála um að við verðum að hafa vinnu.“
Hrakspár og hagspár rætast
Ég er á því að bæði hagspár og umhverfislegar hrakspár í tengslum við framkvæmdirnar séu að rætast. Íbúum á mið-Austurlandi hefur fjölgað um rúmlega 1000 á þeim tíu árum sem liðin eru síðan framkvæmdirnar hófust. Á móti hafa væntingar um að áhrifin næðu til jaðarbyggðanna ekki ræst.
Eins og aðrir Austfirðingar velti ég fyrir mér hvernig efnahagslífið væri ef álverið væri ekki. Það er stærsti atvinnurekandinn á svæðinu. Landsvirkjun og Fjarðaál taka virkan þátt í samfélaginu og ýmis vinnubrögð og stefnur þar eru mun fagmannlegri en við höfum áður séð.
Hér er til kjölfestufyrirtæki sem tekur þátt í ýmsum verkefnum. Sem veitir fólki atvinnu. Sem verður til þess að það vill búa á Austurlandi. Ég veit ekki hvort ég væri annars hér í dag, þótt ég vinni ekki hjá álverinu.
En hrakspárnar um umhverfisáhrifin hafa líka ræst – og sumar gott betur. Grunnvatnsstaða fljótsins er hærri en reiknað var með, landbrot er mikið og nú er víst fiskurinn dauður líka. Eiginlega vantar bara eldgosið.
Það stóð víst í skýrslunum en...
Nýr forstjóri Landsvirkjunar situr nú uppi með erfiðan málstað við að verja misgáfulegar gjörðir forvera sinna. Hann benti réttilega á að minnst hefði verið á neikvæðu áhrifin í skýrslum fyrirtækisins. Fulltrúar þess gerðu hins vegar ekki mikið úr þeim.
Í Morgunblaðsfrétt frá árinu 2006, sem gengið hefur á netinu í vikunni, er vitnað í Pétur Ingólfsson, einn æðsta mann verkefnisins og gögn frá Landsvirkjum, um að vatnsborðið eigi lítið að hækka og áhrifin á lífríkið verði lítil.
Hann hefði kannski betur lesið skýrslurnar?
Ekkert nema urð og grjót
Sem blaðamaður var ég um borð í rútu með fjölda fyrirmenna: þingmönnum, ráðherra, forstjórum fyrirtækja og fleirum (því sem ágætur maður kallaði eitt sinn „toppasett með skralli og öllu“) þegar hornsteinn var lagður að Kárahnjúkavirkjun vorið 2006.
Leiðsögumaður okkar í rútunni var Guðmundur Pétursson, yfirverkefnisstjóri hjá Landsvirkjun. (var leiðsögumaður í rútunni). Þegar við komum inn undir Hallormsstað sagði hann okkur brandara um fávisku virkjunarandstæðinga. Þeir skiptu víst sumir um skoðun þegar þeir kæmu til að skoða stíflusvæðið og sæju með eigin augum að ekki verið væri að sökkva neinum náttúruverðmætum. Þarna væri bara urð og grjót.
Ég hef alltaf alist upp við það að kindur og hreindýr sæki í svæði þar sem er gróður. Og þær lífverur – ásamt fleirum – lifðu fyrir innan Kárahnjúka.
Ég veit það Hörður að það var ekki allt fallegt sem stóð í skýrslunum. Þetta var hins vegar viðhorfið og þær upplýsingar sem haldið var að okkur.
Lækkun klapparhaftsins sem átti að bjarga lífríkinu
Það er ekki hægt að segja að við höfum ekki verið vöruð við. Opinberir hagsmunaaðilar kusu hins vegar að gera lítið úr áhrifunum.
Mat umhverfisráðuneytisins var að vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess myndu breytingar á svifaur „[...] ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins.“ Þá benti ekkert til þess að áhrif virkjunarinnar á lífsskilyrðin í fljótinu brytu alþjóðasamþykktir.
Ráðuneytið nefnir, líkt og Pétur í Morgunblaðinu, að lækkun klapparhafts við Lagarfoss eigi að bjarga málunum. Það gengur svo langt að segja að lækkun haftsins verði „til þess að draga úr áhrifum vatnsflutninganna í Lagarfljóti muni áhrif framkvæmdarinnar á líf í og við fljótið ekki verða mikil.“
Menn áttu að vita af afleiðingunum. Þeir kusu hins vegar að taka hagsmuni af atvinnu sem fékkst strax fram yfir – eða var einfaldlega sama. Fyrrnefnda viðhorfið er verjanlegt, hið síðara aldrei.
Umhverfisáhrifin voru fórnarkostnaður fyrir lífvænlegra samfélag á mið-Austurlandi Það var ekki hægt að eiga kökuna og borða hana.