Framtíð í skapandi hugsun

Hæ. Ég heiti Hildur Vaka og er formaður leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum. Ég er á sviðslistalínu á listabraut. Mér finnst það svolítið skondið en jafnframt sorglegt að vera hálfnuð með skólagöngu mína við ME þar sem ég var fyrir nokkrum vikum að klára minn fyrsta sviðslistaráfanga.

Þessi sviðslistaráfangi var frá kl 17-22 eftir skóla og stóð í eina viku. Hann veitti tvær einingar. Þessum áfanga þurfti ég sjálf að redda og þrýsta á að fá en ég er mjög þakklát Árna Ólasyni skólameistara fyrir að hafa hlustað á mig og hjálpað mér að gera áfangann að veruleika.

Eftir að hafa klárað þennan áfanga fór ég að hugsa. Ég held að ég hafi lært miklu meira á þessum eina sviðslistaráfanga sem stóð í aðeins eina viku heldur en meirihluta þeirra bóklegu áfanga sem ég hef setið á allri minni skólagöngu. Sviðslistir gefa manni nefnilega svo ótrúlega margt. Þær bæta andlega heilsu og maður þroskast sem persóna. Þær opna hugann og ýtir manni út fyrir þægindarammann. Ég veit ekki með ykkur en ég held ég hafi ekki mikið þroskast sem manneskja í náttúrufræði fyrir utan að vita aðeins meira um greinina. Sviðslistir eru sorglega vanmetnar, bæði í skólakerfinu og út í samfélaginu. Að mínu mati eru sviðslistir alveg jafn mikilvægar og hver annar áfangi og væri því draumur að fá þær inn í blokk, ekki bara í eina viku utan skóla. Megin þættir sviðslista er t.d fá þjálfun í að koma fram, eiga samskipti, efla samvinnu og setja sig í spor annarra. Allt eru þetta þættir sem gera okkur að sterkari og betri manneskjum. Þessa þætti er mikilvægt að þjálfa og viðhalda strax frá unga aldri. Krakkar þurfa tækifæri til að tjá sig. Í sviðslistum vinnum við svo marga persónulega sigra sem ekki mælist á PISA-prófi en við munum þessa sigra. Lokaeinkunn í líffræði er ekki eitthvað sem situr með mér og gefur mér lífsfyllingu. Það eru hins vegar litlu persónulegu sigrarnir sem ég veita mér vellíðan við það að fara út fyrir þægindarammann og takast á við sjálfa mig. Það eru sviðslistir.

Okkur er bent á frá barnsaldri að fá okkur vinnu sem okkur þykir áhugaverð og höfðar til okkar. Persónulega finnst mér allavega ekkert sérstaklega skemmtilegt að bera út póst eða afgreiða í Bónus og hef ég ekki hugsað mér að gera það að framtíðarstarfi. Jú, jú - vissulega eru þetta mikilvæg störf en þar sem við eyðum meirihluta ævinnar við vinnu væri það mikill kostur og mannbætandi að þykja skemmtilegt í vinnunni sinni. Það er fátt um fína drætti hvað varðar skapandi sumarvinnu fyrir ungmenni á Austurlandi. Á sama tíma kvarta ferðamenn yfir því að lítið sé um menningarviðburði á svæðinu. Tækifærin eru svo víða en þau eru ekki nýtt.

Ég hef hugsað mér að verða eitthvað skapandi eins og leikkona þegar ég verð stór. Af hverju er ekkert sumarstarf í boði fyrir unga leikara og listamenn á Egilsstöðum? Okkur vantar skapandi og skemmtileg sumarstörf. Það vantar miklu meiri listamenningu í bæinn, við gætum séð um að lífga upp á hana.

Þar sem mig langar að verða leikkona langaði mig ekkert í ME. Mig langaði að flytja suður, því þar eru tækifærin. Ég veit um marga krakka í ME sem hugsuðu eins. Svo veit ég um enn fleiri krakka sem gerðu þetta. Fluttu burt. Það eru því miður alltof fáir möguleikar fyrir leikara á Austurlandi, og ekki er hægt að búast við því að ungmenni búi hérna ef ekkert er í boði.

Ég gleðst yfir að menningu barna og ungmenna skuli vera veitt athygli með því að haldin sé barnamenningarhátíð en það er bara ekki nóg. Það þarf að virkja sköpun barna og ungmenna svo mikla meira og stöðugt. Tækifæri og framtíð svæðisins felast í sköpun og skapandi hugsun.

Elsku Austurland, ef ykkur langar að halda í flest ungmennin ykkar - veitið þeim þá skapandi og skemmtileg tækifæri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.