VG - kosningar - sept 2021

Fljúgum hærra

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í Múlaþingi á síðasta ári lagði Sjálfstæðisflokkurinn mikla áherslu á tækifærin sem fælust í fullnýtingu Egilsstaðaflugvallar hvort tveggja til farþegaflutninga og útflutnings á ferskvöru svo sem fiski og landbúnaðarvöru.

Í tilefni af nýlegum fréttum þar sem meðal annars hefur verið bent á virðisaukann sem í því er fólginn að koma upp reglulegu vöruflugi með laxaafurðir um Egilsstaðaflugvöll m.a. til Asíu og austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna er vert að rifja upp að Egilsstaðaflugvöllur er einn af fjórum millilandaflugvöllum á Íslandi. Völlurinn er opinn allan sólarhringinn, allt árið og er því einnig mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum enda er veðurfar flugi hagstætt og áreiðanleiki áætlunarflugs nær 99%.

Í aðdraganda kórónuveirufaraldursins var unnið að því að Isavia tæki alfarið yfir rekstur, viðhald og framkvæmdir á vellinum með það fyrir augum að hann yrði fyrsti varaflugvöllur fyrir millilandaflug.

Gert var ráð fyrir að tekjur frá Keflavíkurflugvelli fjármögnuðu uppbygginguna. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur orðið dráttur á þessum fyrirætlunum.

Sveitarstjórnarfólk á Austurlandi hafði frumkvæði að því við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í ársbyrjun að myndaður yrði starfshópur með það hlutverk að vinna að þarfagreiningu og framtíðarsýn fyrir Egilsstaðaflugvöll með það fyrir augum að fullnýta þá möguleika sem hann hefur upp á að bjóða.

Í starfshópnum var gert ráð fyrir að auk fulltrúa sveitarstjórnarstigsins yrðu fulltrúar úr ferðaþjónustu, sjávarútvegi og laxeldi, Isavia, íbúa og fulltrúar ráðuneyta sem málaflokkurinn heyrir undir. Viðbrögð ráðuneytisins létu á sér standa og ekki kom til þess að starfshópurinn tæki til starfa – sem er miður.

Í ljósi þess að útflutningsgreinar eru beinlínis farnar að kalla eftir aukinni þjónustu og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli er brýnna en nokkru sinni að ríkisvaldið taki af skarið og stigi nauðsynleg skref til að Egilsstaðaflugvöllur standi undir nafni sem alþjóðleg fluggátt inn í landið.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.