Fjarðarheiðargöng – 3. grein um umhverfismatsskýrslu: Áhrif leiða Héraðsmegin á náttúrufar

Þessum þáttum verða ekki gerð skil í stuttri grein. Um helmingur skýrslunnar fjallar á mjög ítarlegan hátt um umhverfisþætti og styðst þar við rannsóknarskýrslur, sem hafa um margt verið unnar af fagmennsku.

Rannsóknirnar taka þó aðeins til þess sem varðar nýbyggingarhluta leiðanna en sleppa öllu er varðar mögulegar aðgerðir á fyrirliggjandi hlutum leiðanna þ.e. um Vallaveg milli Þórsnes- og Egilsstaðavegamóta og þaðan út að Melshornsvegamótum eða upp um Fagradalsbraut að Hálsvegamótum. Í niðurstöðu umhverfismatsins segir meðal annars: „Neikvæð áhrif valkosta koma helst fram hjá Norðurleið Héraðsmegin.“ Þetta er langt frá því að vera rétt! Skoðum einn þátt: Náttúrufar – gróðurfar, dýralíf, jarðmyndanir og ásýnd lands

Vistgerðir með hátt verndargildi eru umfangsmestar á Suðurleið og þekja 104 ha (54%). S-leiðin liggur um 34ha votlendis sem helmingi meira en fer undir N-leiðina þótt hún sé nokkuð lengri. Flatarmál birkiskógar á S-leið er nálega 50% meira en á N-leið og meðallífmasssi um 120% meiri/ha eða þrefaldur í heild. Flatarmál birkiskógar á stuttri samliggjandi M og S leið um Háls er nálega sama og á N-leiðini allri en lífmassi þó helmingi meiri. Blæösp sem er á válista vex á svæði S-leiðar. Enda segir í skýrslunni um S-leið: „Framkvæmdir myndu valda mjög miklu og óafturkræfu raski á gömlum og þéttum skógi […] Vegna Blæaspar (og sjaldgæfra flétta) hefur verið lagt til að Egilsstaðaskógur og nágrenni verði friðlýst. Framkvæmdum myndi fylgja umtalsvert og óafturkræft rask á æðplöntum á stóru svæði.“ Friðlýsingu Egilsstaðaskógar var á sínum tíma hafnað af hálfu þáverandi landeigenda.

Fleiri fuglategundir finnast á S-leið en annars staðar og þar á meðal brandugla og flórgoði, sem á sér búsvæði á tjörn í jaðri leiðarinnar. Það vekur því furðu, að „Áhrif Suðurleiðar eru talin nokkuð sambærileg áhrifum á Norðurleið…..“

Rask innan „verndarsvæða“ jarðmyndana á 10,5 km N-leið eru talin verða á um 31,3ha en 28,2ha á 4,6km M-leið um Háls og 30,2ha S-leið sem er þó aðeins 7,7 km. Í skýrslunni segir m.a.: „Miðleið sunnan þéttbýlis Egilsstaða, fer að öllu leyti um svæði nr. 611 á náttúruminjaskrá, Eyvindarárgil. Það er jarðfræðilega markvert hvað varðar berglög og brotavirkni, með misgengjum og berggöngum sem þverskera gilið.“ Þessa er ekki getið hvað S-leiðina varðar þó hún liggi þar eins og hvað þverun Rauðahrauns og Krossása sunnan austasta hluta byggðarinnar segir aðeins: „Ekkert á þessari leið er talið hafa jarðfræðilegt mikilvægi.“ Á báðum þessum hlutum S-leiðar mun verða um allverulegar skeringar að ræða. Í „Myndahefti“ vantar fyrir S-leið að sýna bæði þessi svæði frá viðeigandi myndatökustað.

Mat á ásýnd lands verður alltaf mjög einstaklingsbundið en skýrsluhöfundar hafa þó komist að því að ekki sé teljandi munur á N og S leiðum, þær hafi í báðum tilvikum „Nokkuð til talsvert neikvæð áhrif.“ Í samantekt (17.3) segir m.a.: „Norðurleið fer einnig í gegnum svæði sem teljast til verðmætra svæða og eru á náttúruminjaskrá eða náttúrumæraskrá Helga Hallgrímssonar.“ Þessa er mögulega óvart ekki getið um S-leiðina, þar sem HH tilgreinir þar ýtarlega langt um fleiri náttúrumæri í skrá sinni.

Við upphaf framkvæmda á S-leið þarf að útbúa bráðabirgðaveg og -brú yfir Eyvindará til aðkomu. Ætlað er að um 20.000 rúmmetra þurfi þar til bráðbirgðaframkvæmdar og mundi standa 6-8 ár þegar svæðið yrði lagfært á ný. Rétt þykir einnig að geta þess, að með N-leið yrði aðeins haugsettur 29.000 rúmmetra afgangur umframefnis úr jarðgöngum en 325.000 rúmmetrar í tilviki S-leiðar. Haugur sá er síðan ætlaður opinn til efnisvinnslu og afnota um einhverja framtíð, sem vart getur talist bæta ásýnd og umgengni við gangnamunnann á Dalhúsum.

Höfundur er verkfræðingur.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.