Skip to main content

Fjaðramál

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.18. nóvember 2009

Leiðari Austurgluggans 23. október 2009:

 

Ég vakti yfir dóttur minni veikri eina nóttina í vikunni. Um miðbik næturinnar flugu gegnum nóttina hópar af gæsum. Þær höfðu hátt og voru búnar til langflugs, væntanlega til vetrarstöðva á Bretlandseyjum.

austurglugginn.jpg

Næturkyrrðin gefur svigrúm til vangaveltna og þar sem ég sat á rúmstokknum hjá blessuðu barninu varð mér hugsað til farfuglanna sem nú þreyta erfitt og háskalegt flug frá Íslandi yfir höf og lönd til vetrarsetu. Flug mót andstreymi og hvergi hvíld að fá fyrsta kastið nema á úfnum úthafsöldum. Það verða ekki allir sem ná áfangastað. Einkum og sér í lagi ekki gæsirnir sem enduðu á  snúrustaurnum hjá mér nú í haust.

Sérstaklega hugleikin er mér krían, sem er einhver alduglegasti fugl sem hægt er að hugsa sér. Á Íslandi halda allt að þrjú hundruð þúsund pör til frá apríl fram í september. Nú er þessi fuglasvermur á leið til Suður-Afríku og Suðurskautslandsins og flýgur lengst allra fugla á jörðinni milli sumar- og vetrarstöðva. Hugsið ykkur þessi litlu, hvítfiðruðu kríli sem berjast nú einbeitt áfram í misjöfnum veðrum, knúin áfram af eðlislægri hvöt og innbyggðri ratsjá.

Ég ímynda mér þarna í nóttinni að ég sé kría á flugi yfir Atlantshafinu, kólgan þeytir mér til og frá og hrikalegir öldufaldar skvetta sjó upp undir vængina ef maður vogar sér of lágt. Einstrengingsleg von um betri tíð fær vængina til að halda áfram, áfram, áfram...

Svona dálítið eins og dugnaðurinn í barninu þar sem kroppurinn berst af þrjósku við H1N1 veiruna eða íslenska þjóðin sem veit að ekki er annað í boði en að halda áfram, þrátt fyrir svipugöngin sem við blasa.

 

Vonin gefur byr undir báða vængi.

 

Steinunn Ásmundsdóttir.