Eyjólfshakkið

Örlagasaga. Jólin 2019

Þegar ég var við nám í Reykjavík, fyrir mörgum árum síðan, bárust mér reglulega litlir glærir pokar fullir af hakki. Þeir voru látlausir, ómerktir og varð ekki ráðið af þeim hver sendandi var. Það var rækilega hnýtt fyrir enda pokanna til að fyrirbyggja skemmdir hakksins. Öll handbrögð voru til marks um vandvirkni og einlæga virðingu fyrir hakkinu. Ég vissi fyrir víst að faðir minn stóð að baki þessum sendingum. Að öðru leyti var mér ekki kunnugt um uppruna, tilurð eða framleiðslu hakksins. Var hakkið nefnt Eyjólfshakkið eða Örlagahakkið.

Í áraraðir nutu ég og sambýlingar mínir þessara sendinga. Og varlega áætlað var hakkið borið á borð vikulega, þriðja hvern dag þegar mest lét. Það fór ekki milli mála þegar heimilsmenn höfðu lagt sér hakkið til munns. Þeir voru rjóðir í kinnum, sældarlegir og murraði í þeim hvar þeir lágu flatir með tannstöngul í munnviki. Að afloknu óhóflegu áti voru þeir aftur á móti ákaflega viðbragðsseinir og latir fram eftir kvöldi.

Það leið ekki á löngu uns frægðarsól hakksins reis og urðu tíðari fyrirspurnir um hakkið. Skyndilega áttu ólíklegustu menn erindi á heimili mitt á matmálstímum og létu sig hakkið varða. Uppi varð fótur og fit þegar orðrómur komst á kreik að ný sending af hakkinu væri komin í hús. Menn voru sólgnir í hakkið. Þeir gráðugustu slefuðu og góluðu eins og hungraðir úlfar þegar hakkið barst til tals.

Angan af hakkinu var leiðarvísir að dyrastaf íbúðar minnar. Auk heldur lagði auðþekkjanlegan reykstrók úr íbúðinni við matreiðslu þess. Þegar reykur hakksins liðaðist upp húsvegg og bar við sólrauðan eða fagurbláann himinn, var tilfinning sögð áþekk því, þegar beðið er litbrigði reyks upp úr þaki sixtínsku kappellu. Að öðru leyti var um margt sammerkt vali páfa og matreiðslu hakksins. Þannig giltu mjög strangar reglur um hvernig staðið var að matreiðslu þess. Með sama móti og aðgangur að kardínálum er bannaður þegar val páfa stendur yfir, var aðgangur óviðkomandi í eldhúsi óheimill þegar hakkið var matreitt.

Ég var drifinn áfram af hakkinu hvort heldur í námi og íþróttum. Hakkið var sverð mitt og skjöldur. Tilhugsun um líf án hakksins var óhugnaleg. Án hakksins var ég einfættur klyfjaður sherpi í snarbröttum hlíðum Himalajafjalla. Ég var hvort tveggja í senn tilvistarástæða hakksins og leiksoppur þess. Úr þessu varð að bæta ef ég hygðist lifa sem frjáls maður.

Ég fluttist búferlum til Kaupmannahafnar. Og fennti þá þegar yfir slóð mína. Langur hrammur hakksins laut í lægra haldið; hann náði ekki til mín lengur. Ég var laus undan oki hakksins. Óræð tilfinning frelsis og söknuðar greip mig.

Árin liðu.

Það er hríð úti og húmar að kvöldi Þorláksmessu. Í bílskúr eru ég og faðir minn sameinaðir í undirbúningi hátíðar ljóss og friðar. Það er gul- og rauðleitur bjarmi í bílskúrnum og notalegur ómur stafar frá viðtæki. Ró og friður svífur yfir vötnum. Í óðaönn er verið að leggja lokahönd á undirbúning fyrir rjúpnareitingu og skötuveislu venju samkvæmt.

Við tilfærslu spýtnabraks kemur í ljós tíguleg maskína úr ryðfríu stáli; stærðarinnar hakkavél. Andrúmsloftið tekur stakkaskiptum eins og hendi sé veifað. Faðir minn þagnar og horfir kaldranalegu og tómu augnaráði á maskínuna. Jólaandi er skyndilega víðsfjarri. Það er drungi í lofti. Á svipstundu fjarlægjast sálir okkar og samband okkar kollvarpast; úr föður og syni, í framleiðanda og neytanda.

Við stöndum andspænis hvor öðrum, neytandinn sem ánetjaðist hakkinu og framleiðandinn sem lagði álög á herðar neytandans. Það hlakkar í honum þegar hann verður þess áskynja hvers ég hef orðið vísari. Framleiðandinn snýr sér að vélinni, strýkur varfærnislega yfir hana og talar til hennar blíðum rómi. Með yfirbragð dáleidds manns framkallar hann urg úr hrossabresti í hrynjanda og þylur upp heiti þeirra hrossa sem hann hefur troðið ofan í hakkavélina. Í heyranda hljóði umbreytir hann hrossum í mergð plastpoka með fimlegum reikningi.

Þetta er víst stóð hrossa að fjölda; nemur ríflega tveimur hundraðshlutum stofnins í Norður-Múlasýslu, eins og hann stendur nú. Hrossin voru hlutuð niður og troðin ofan í vélina, bein, sinar, brjósk, augu, innyfli, hreðjar, allt áþreifanlegt, hverju nafni sem nefnist, engu var kastað fyrir róða. Því næst var hakkið sett í litla glæra poka. Neytandinn er orðlaus. Í dágóða stund ríkir grafarþögn í bílskúrnum; loft er lævi blandið.

Eftir vænan sopa af gambra nær neytandinn áttum, rífur þögnin með ræskingu og segir: „Takk fyrir mig að ég hygg“. „Verði þér að góðu,“ svarar framleiðandinn og heldur áfram undirbúningi jóla.

Ég óska ykkur lesendum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs. Með þökk fyrir ánægjuleg kynni og samverustundir á árinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.