Evrópusáttmálarnir

Tilgangur sáttmálans var að „halda Bretum inni, Frökkum niðri og Rússum úti.“ Hér er ekki verið að tala um samninga sem eru forsenda Evrópusambandsins eins og við þekkjum það í dag heldur útkomu mikillar ráðstefnu sem haldin var í Vínarborg veturinn 1814-1815.

Til hennar var efnt eftir að loksins hafði tekist að senda Napóleon Bónaparte í útlegð. Tíðin var viðsjárverð í Evrópu, ríki álfunnar í sífelldum deilum, ýmist hvort við annað eða innbyrðis. Almúginn var byrjaður að rísa upp gegn konungdæmunum og krefjast réttinda. Vínarsáttmálinn var meðal annars tilraun yfirstéttarinnar til að koma sér saman um leiðir til að konungdæmin héldu velli. Þótt ef til vill hefði verið skynsamlegra að ræða hvernig beisla skyldi hið mikla vald konunganna og tryggja réttindi borgaranna varð niðurstaða ráðstefnunnar samt samningur sem tryggði frið í Evrópu um skeið .

Saga Evrópu er lituð ýmsum sáttmálum sem ætlað var að varðveita frið. Nefna má samkomulagið sem kennt er við Vestfalíu, eða Versalasamningana sem áttu að binda enda á fyrri heimsstyrjöldina en leiddu til slíkra efnahagshörmunga og niðurlægingar í Þýskalandi að þeir urðu frekar upphafið að næstu styrjöld.

Nýjasta afurðin í röð þessara sáttmála, eða bandalaga, er Evrópusambandið. Því var komið á fót eftir síðari heimsstyrjöldina og byggði á ályktunum um að eina leiðin til að tryggja frið milli stórveldanna væri að gera þau svo efnahagslega háð hvert öðru að þau gætu ekki lýst yfir stríði án þess að stórskaða eigin birgðakeðjur. Þetta hefur líka verið bandalag gegn Rússlandi, áður Sovétríkjunum, og fyrrum leppríki þess í austri voru flest boðin velkomin í nýtt skjól eftir 1990.

Í Evrópusamstarfinu í dag eru hins vegar ýmsir brestir. Í fyrsta lagi er ein forsenda Vínarráðstefnunnar, að halda Bretum inni, að bresta með úrsögn þeirra úr Evrópusambandinu. Rússar eru vissulega formlega séð enn úti en vísbendingar eru um að stjórnvöld í Moskvu hafi fundið sér nýjar leiðir til að smygla sér inn og kynda undir illdeilum í Evrópu. Frakkar hafa vissulega ekki sýnt af sér árásarhneigð síðustu áratugi en þar nýtur þó talsverðrar hylli flokkur sem boðar þjóðernisstefnu. Stjórnmálaskýrendur og félagsfræðingar reyna að rýna í dýpri merkingu hugsjóna fólksins í gulu vestunum sem hertekið hefur stræti Parísar síðustu vikur.

Brestirnir eru víðar. Grikkir telja sig grátt leikna fyrir að vera píndir til að borga til baka á fullum vöxtum til þýskra og franskra banka lánin sem þeir tóku til að fjármagna eigin gleðskap. Mikið vantraust er þar – og víðar – í garð stjórnvalda í Berlín sem aldrei þessu vant eru þau sem helst vinna að því að halda friðinn. Álfan væri leiðtogalaus án Angelu Merkel.

Saga Evrópu er lituð styrjöldum. Inn á milli eru friðarkaflar, þegar ríki koma sér saman um samvinnu og vinna markvisst að friði. Sáttmálarnir eru mikilvægir svo lengi sem þeir halda – en hvað gerist þegar brestir myndast í samstarfinu?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.