Er þetta stóra kosningamálið?

Mikil umræða hefur skapast um fráveitumál þéttbýlisins á Egilsstöðum nú í aðdraganda kosninga. Samt finnst mér ótrúlega margir tala um að þeir viti of lítið um þessi mál. Umfjöllunin hefur líka verið heldur áróðurskennd og einhliða. Það er því ástæða til að fara yfir það enn og reyna að bregða upp allri myndinni.

Forsagan

Eftir að HEF tók við öllum veitum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs hefur verið unnið markvisst að endurbótum. Auk eðlilegrar endurnýjunar á hitaveitulögnum var ný vatnsveita lögð og farið var að vinna að úrbótum í fráveitumálum sem var afar brýnt að fara í. Að undirbúningi þeirra framkvæmda hefur verið unnið í mörg ár í samráði við sérfræðinga og ráðgjafa sem unnið hafa að úrlausnum þessara mála víða um land. Það var ljóst að sú stefna sem tekin var árið 2004 var aldrei hugsuð til enda í raunhæfum lausnum. Á þeim tíma var ákveðið að sniðganga algerlega álit þeirra tveggja verkfræðistofa sem leitað hafði verið til um ráðgjöf og einn aðili valinn til að sjá um lausnina. Hún var að varða bakka Eyvindarár með hreinsivirkjum sem geta framleitt drykkjavatn úr skolpi og láta annað eiga sig. Það má t.a.m. lesa um það í gömlum fundargerðum að sumir þeir sem nú fara geyst á ritvellinum um þessi mál voru þeirrar skoðunar að gömul ófullnægjandi rotþró væri nægileg hreinsun á skolpi sem færi í Lagarfljót.

Staðan í aðdraganda kosninga

Þannig hafa þessi mál staðið allt of lengi og framan af var reynt að sussa á umræðu um að ekki væri allt í himnalagi og skýrslum þar um jafnvel stungið undir stól. Þetta var eins og leikmynd í kvikmyndaveri þar sem framhliðin er flott en ekkert á bak við. Kostnaðurinn við að hreinsa 20 – 30 % skolpsins hefur tekið svo stóran hluta þess fjármagns sem fráveitan hefur til umráða að ekki hefur verið hægt að fara í frekari framkvæmdir. Það var því stefnt að því að vera tilbúinn með raunhæfa framkvæmdaáætlun á heildarúrlausn áður en samningar um rekstur hreinsivirkjanna rennur út. Sú áætlun var kynnt með fundum og fréttabréfum sl. vetur. Þá geystust ýmsir varðhundar og sjálfskipaðir sérfræðingar fram á sviðið.

Sigurður Ragnarsson er einn af þeim sem ber ábyrgð á núverandi stöðu fráveitumála og hefur farið mikinn í skrifum um þau. Hann tók á sínum tíma trú á Bólholtsleiðina, sem hann kallar svo og hefur trúlega þá orðið sérfræðingur í fráveitumálum. Hann er hins vegar bókhaldari og ætti að vera sérfræðingur í tölum. Talnaþulan hans varðandi fráveituna stenst hins vegar ekki skoðun – þar er farið rangt með og ýmsar forsendur gefnar sem ekki eru raunhæfar. Ég ætla ekki nánar út í það hér, en allar upplýsingar og útreikningar eru tiltækir hjá HEF. Hann hefur verið með dylgjur um mína persónu og gefið í skin að ég sinni einhverju margbreytilegu hlutverki í mínum störfum fyrir sveitarfélagið. Þó hann boðaði annað í sinni þáttaröð hefur aldrei komið neitt frekar fram um þann þátt, enda er þar ekkert – ég hef ekkert að fela. Tilgangurinn hefur eflaust líka verið sá að koma af stað rógi og kjaftagangi í þessu sambandi og kannski hefur honum tekist það. Ég er ekki á þeim vettvangi.

Ummæli eins og þau að stjórn Hitaveitunnar sé að láta teyma sig eitthvað og geti ekki staðið frammi fyrir sínum mistökum eru að mínu mati ekkert annað en ærumeiðingar. Það, að gefa í skyn að þar sitji menn og sói almannafé í fávísi, vanþekkingu og þvermóðsku er mikil kokhreysti. Í stjórn HEF situr fólk sem vinnur af heiðarleka og samviskusemi að þeim verkum sem þeim hafa verið falin. Þar hafa menn hlustað á ráðgjafa, skoðað málin vandlega og vilja koma einhverju í verk til að vinna að úrbótum í þessu mikilvæga umhverfismáli. Þar hafa menn líka skoðað grannt fjárhagshliðina og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Allir stjórnarmenn HEF samþykktu þessa leið og eins hefur bæði bæjarráð og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkt þessa stefnu. Ég leyfi mér að segja að allir þeir sem skoðað hafa með opnum huga þá möguleika sem eru í stöðunni hafa séð að þetta er skynsamlegasta leiðin og sú sem er framkvæmanleg þó fulltrúar L-lista hafi kosið að taka U-beygju í aðdraganda kosninga.

Tvöföldun lagna

Það tala ýmsir sem svo að tvöföldun lagna sé lausn alls vanda og kosti bara sáralítið. Vissulega þarf að vinna markvisst að því og það er verið að gera það eftir því sem götur eru endurnýjaðar. Þá á eftir að fara inn á lóðir við hvert hús og þetta er mun kostnaðarsamara og tímafrekara en látið er líta út í áróðrinum. Þar hljóðar vel grundvölluð áætlun upp á 1,2 – 1,4 milljarða. Þetta hefur verið með í umfjölluninni hjá HEF áður en ákvörðun var tekin um verkefnið. Hjá HEF er ekki verið að flana út í neitt í villu og svima eins og ætla mætti af ýmsum þeim sem sett hafa fram slagorðakenndar fullyrðingar um þetta.

Hvað er verið að verja?

Þeir sem tóku stefnuna í fráveitumálum árið 2004 bera ákveðna ábyrgð á þeim ólestri sem þau eru enn í og kannski eiga þeir erfitt með að horfast í augu við það. Hvers vegna eru menn að berjast fyrir óbreyttu ástandi? Hver hefur hag af því að varða bakka Eyvindarár með hreinsivirkjum? Hvað er svona slæmt við það að taka allt skolp úr Eyvindaránni og setja fráveituna í eina útrás sem liggur út í straum Lagarfljóts? Það er vissulega ekki gert ráð fyrir að hreinsa skolpið eins vel og nú er gert við 20 – 30% þess, en þegar litið er til þess að 70 -80% hafa hingað til farið út svo til óhreinsað verða það að teljast miklar framfarir að ná öllu frárennslinu í gegnum hreinsistöð sem verður samkvæmt öllum kröfum og reglugerðum þar um. Hvers vegna vilja menn ekki veita skolpi sem farið hefur í gegnum slíka hreinsistöð í Lagarfljót núna þegar það hefur mátt fara svo til óhreinsað út hingað til? Síðan menn settu upp framhliðina góðu 2004 hefur ekkert gerst í þessum málum og það fjaðrafok sem þyrlað hefur verið upp undanfarið gæti leitt til þess að ekkert verði gert á næstunni.

Þetta er ekki aðalmálið

Svo mikilvægt sem það er að hafa fráveituna í lagi þá finnst mér miður að önnur enn mikilvægari mál hafa fallið í skuggann. Málefni sem eru grundvöllur þess að fráveitan og flest annað í okkar samfélagi verði í lagi.

Fjárhagur sveitarfélagsins, sem tekist hefur að snúa til betri vegar með góðum rekstri á síðustu árum þarf áfram aðhald. Aukin samvinna sveitarfélaga á svæðinu og hugsanleg sameining mun efla byggðarlagið allt með þeim samgöngubótum sem berjast þarf áfram fyrir í tengslum við það. þetta eru lang mikilvægustu málin. Það eru málin sem ég hef sett á oddinn og vil beita mér fyrir. Þar hef ég orðið talsverða reynslu og til þeirra verkefna býð ég áfram fram krafta mína á framboðslista Sjálfstæðismanna og óháðra. Ég vonast eftir stuðningi þínum kjósandi góður.

Gunnar Jónsson, stjórnarformaður Hitaveitu Egilsstaða og Fella og frambjóðandi D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar