Enn um skólpmál á Egilsstöðum

Leikaragenunum í mér hafa altaf dreymt um að semja efni sem síðan yrði flutt opinberlega. Þessi draumur rættist núna 1. febrúar þegar Guðmundur Davíðsson, framkvæmdarstjóri HEF leiklas, eftir því mér skilst, síðustu grein mína um fráveitumál á Fljótsdalshéraði. Þar sem ég þekki aðeins til leiklistarhæfileika framkvæmdarstjórans veit ég að honum hefur farist það vel úr hendi. Því miður gat ég ekki verið á þessum fundi þar sem ég vinn þannig vinnu að erfitt er að hliðra til vegna funda eða annars sem fram fer á vinnutíma.

Talað var um að meira að segja væri búið að framleiða heilu sjónvarpsseríurnar um þessi mál og þar vísað til frétta RÚV um málið. Í fréttatíma RÚV kl. 10 þann 4 .febrúar var síðan viðtal við þennan fráveitusérfræðing sem hefur verið að vinna með HEF að verkefninu síðustu misseri þar sem hann var þráspurður hvort honum fyndist í lagi að leggja til lausn sem ekki stæðist lög og reglur. Ekki var hægt að skilja annað af svörum hans en hann sæi ekkert athugavert við það. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað yrði sagt við t.d. byggingarverkfræðing eða rafmagnsverkfræðing sem hagaði sér svona.

Eins þreps hreinsun er ekki nóg

Þessi afstaða er enn undarlegri í ljósi þess að í desember 2016 barst HAUST, HEF og fleiri aðilum tölvupóstur frá Tryggva Þórðarsyni sérfræðingi hjá UST vegna fyrirspurnar varðandi þessi mál. Þar segir orðrétt í síðustu málsgrein: Vegna orðalags í tölvupósti þínum um „seinna verði svo bætt við annarsstigs hreinsun ef talin verður þörf á því“ er undirstrikað að skv. ákvæðum reglugerðar um fráveitur og skólp telur Umhverfisstofnun engan vafa leika á að það þurfi tveggja þrepa hreinsun í þessu tilviki. Í því sambandi er einnig minnt á að frestur til að koma á tveggja þrepa hreinsun fyrir þéttbýli af þeirri stærðargráðu sem um ræðir rann út 2005. Tilvitnun lýkur.

Það er því ljóst að ekki dugar að ráðast í framkvæmd upp á 550 miljónir heldur verður að bæta við framkvæmd upp á 300 miljónir til að ná tveggja þrepa hreinsun (ekki 250 miljónir eins og ég sagði í fyrri greininni) það gera 850 miljónir fyrir þessa tvo áfanga og sennilega án virðisaukaskatts þó að það virðist hafa verið töluvert á reyki og ekki hægt að svara því með vissu á fundinum. Það gerir tæpan 1,1 miljarð og þá er eftir kostnaður við eftirlit , aukaverk, hugsanlega hönun og ýmislegt annað ófyrirséð. Það er með ólíkindum ef menn ætla ekki að kanna hvaða aðrar lausnir eru í stöðunni.

Samkvæmt mínum heimildum hefur ekkert verið skoðað annað en þessi lausn og ekki verið leitað ráða hjá öðrum verkfræðisofum en Eflu um lausnir. Maður fær óneitanlega á tilfinninguna að menn hafi ákveðið niðurstöðuna og reiknað sig svo að henni. Ef maður spyr hvers vegna menn reyni ekki að bæta þá lausn sem fyrir er fær maður þau svör að þau virki ekki. Ef svo er hvers vegna valdi þá Alcoa fjarðarál , Mjóeyrarhöfn og vatnsverksmiðja Jóns Ólafssonar þessa aðferð svo einhverjir séu nefndir? Hvers vegna er hönnun skólphreinsistöðva fyrir þéttbýlið á Fljótsdalshéraði ekki boðin út ef menn ætla að byggja upp frá grunni?

Það er ljóst að sú lausn sem við erum með núna er enganveginn fullnægjandi. Þar verður ekki við neinn sakast aðra en okkur sem hafa farið með þessi mál undanfarin ár. Sennilega er ástæðan sú að þessi mál eru ekki þau mál sem eru mest áberandi í umræðunni að öllu jöfnu og koma ekki upp á yfirborðið fyrr en eitthvað kemur uppá og í óefni er komið.

Áætlanir gengu ekki eftir

Það er síðan rétt að geta þess að í raun voru þessi mál aldrei kláruð á sínum tíma. Það hefur verið gagnrýnt, með réttu, að óhreinsað skólp af suðursvæði rennur í Egilsstaðavíkina. Þær áætlanir sem voru uppi á árunum 2005 og 2006 ef að ég man rétt gerðu ráð fyrir að þar kæmi hreinsivirki eða að farið yrði með það skólp í hreinsivirki sem kæmi út á Egilsstaðanesi á móts við flugvallarafleggjarann. Það hreinsivirki átti líka að taka hluta þess skólps sem nú fer um hreinsivirkið á melshorninu. Þessar áætlanir gengu ekki eftir þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur.

Hreinsivirkið í Einbúablá var hannað og sett niður miðað við íbúafjölda í Einbúablánni. Síðan er búið að bæta við Kelduskógum, Litluskógum og öllu Selbrekkuhverfinu án þess að stækka það nokkuð eða gera aðrar ráðstafanir. Það þarf engan verkfræðing til að gera sér grein fyrir því að það kemur meiri úrgangur frá 400 manns heldur en 200. Þetta er svona eins og að reyna að hella úr tveggja lítra fernu í líters könnu og vona að það sleppi. Síðan er algerlega óskiljanleg skólplögn sem liggur niður Norðurtúnið og beint út í Eyvindará án þess að þar sé nokkur hreinsun. Þar rennur hráskólp beint í ána. Ekki að undra þó mengun mælist í ánni neðan við þá útrás.

Verðum að velja lausn sem stenst lög

Bent hefur verið á að sú aðferð sem við notum sé of dýr og að holræsagjöld standi ekki undir kostnaðinum. Ef það er raunin er mér til efs að holræsagjöldin standi frekar undir rekstrarkosnaði þeirra hugmynda sem uppi eru ásamt afborgunum af láni upp á rúman miljarð, því að ekki á ég von á því að HEF eða bæjarsjóður eigi þvílíkar upphæðir handbærar. Sagan kennir okkur að þó að veitufyrirtæki séu á ábyrgð sveitarstjórna hafa þau haft tilhneigingu til að hegða sér nokkuð frjálslega með tilheyrandi kostnaði fyrir almenning. Nægir þar að nefna HS Veitur og OR.

Eitt af því sem hefur komið upp í umræðunni er tortryggni manna vegna þess að einkaaðili sé eigandi núverandi hreinsunarmannvirkja, leigi þau bænum og að sá samningur sé bænum óhagstæður. Það er nú einusinni eðli samninga manna á milli að báðir aðilar telja sig hafa einhvern hag af þeim. Þeim sem þetta ritar hefði fundist eðlilegra að bærinn hefði átt hreinsivirkin rétt eins og vatnsveituna, hitaveituna og lagnir í götum. Hver nákvæmlega ástæðan var fyrir því að þessi leið var farin á sínum tíma veit ég ekki og verða aðrir mér fróðari að svara því en þessi ákvörðun var tekin og því verður ekki breytt héðan af.

Til að svara þeim röddum að ég sé málpípa Bolholts í þessu máli vil ég taka fram að við Óskar Bjarnason, eigandi Bolholts, þekkjumst vel og erum ágætis kunningjar, rétt eins og margir aðrir íbúar sveitarfélagsins. Það breytir því ekki að í fráveitumáum sveitarfélagsins eigum við að veja þá lausn sem uppfyllir lög og reglur, stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum og á sem ódýrastan hátt fyrir samfélagið. Að skoða ekki alla möguleika sem eru í stöðunni er einfaldlega ekki boðlegt.

Höfundur situr í framkvæmda og þjónustunefnd Fljótsdalshéraðs

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar