Endurreisn Seyðisfjarðar

Eins og alþjóð veit líklega núna þá féllu stærstu skriður sem fallið hafa í byggð á Íslandi á Seyðisfirði síðastliðinn desember. Síðan þá hafa íbúar, verktakar og sveitarfélagið lyft grettistaki í hreinsun og uppbyggingu varna og satt best að segja er ótrúlegt hversu miklu hefur verið áorkað á eins stuttum tíma og raun ber vitni.

Nú þegar hreinsunarstarf er komið vel á veg komið virðist bærinn vera að taka við sér og Seyðfirðingar horfa fram á veginn.

Þá berast þær fréttir að óvíst sé hvort Ofanflóðasjóður kaupi upp fasteignir Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, en athafnasvæði fyrirtækisins stendur að hluta á hættusvæði skv. bráðabirgðahættumati. Ástæðan mun vera orðalag reglugerðar umhverfisráðherra nr. 637/1997 en þar er kveðið á um skyldu sjóðsins til að greiða allt að 90% af kostnaði við „kaup á lóðum vegna varnarvirkja og húseignum (íbúðarhúsum) og kostnaði við flutning húseigna“. Þess má geta að í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, sem reglugerðin hvílir á, er gefið grænt ljós á að greidd séu allt að „90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum, lóðum eða öðrum fasteignum“.

Hér eru íbúðarhús ekki nefnd sérstaklega. Það skýtur skökku við ef atvinnuhúsnæði er undan skilið - jafnt í þessu tilfelli sem öðrum - þar sem eigendum alls brunatryggðs húsnæðis, þ.m.t. atvinnuhúsnæðis, er gert að greiða 0,3 prómill (0,03%) af vátryggingaverðmæti til ríkissjóðs (Náttúruhamfartryggingar Íslands). Það getur tæplega staðist lög að eigendum atvinnuhúsnæðis sé haldið utan við þessa tryggingavernd á sama tíma og þeim er gert að leggja til hennar fé.

Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar hafa vilja til að halda starfsemi áfram á Seyðisfirði og því þarf að bregðast skjótt við til að samfélag sem nú þegar er í sárum missi ekki einn af sínum stærstu atvinnuveitendum. Því verður umhverfisráðherra að standa í lappirnar og breyta þessari reglugerð þannig að hún nái einnig yfir atvinnuhúsnæði, þó með því skilyrði að endurbyggt verði í sama byggðarkjarna, óháð því hver niðurstaða endanlegs hættumats fyrir Seyðisfjörð verður.

Með því verður stuðlað að blómlegu atvinnu-, menningar- og mannlífi á stað sem á í vök að verjast í baráttunni við náttúruöflin.

Höfundar skipa 1. og 3. sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.