Orkumálinn 2024

Eirík Björn á þing

Eitt af því ánægjulega eftir langan tíma í pólitík er að kynnast öflugu fólki um allt land. Sumir eru eftirminnilegri en aðrir. Það á við um Eirík Björn Björgvinsson oddvita Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.

Ég kynntist Eiríki Birni fyrst þegar hann var bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. Ég var þá mennta- og menningarmálaráðherra og man vel að eftir því var tekið hversu ákveðinn og staðfastur Eiríkur var í því að berjast fyrir hagsmunum bæjarfélagsins og Austurlands alls. Glaðsinna en einbeittur fyrir hönd íbúa svæðisins og umbjóðenda sinna.

Reynsla af störfum á sveitarstjórnarstigi er ómetanleg fyrir þingmenn landsbyggðarinnar en fáir hafa jafn umfangsmikla þekkingu og góða reynslu af sveitarstjórnum víðs vegar um Norðausturland en Eiríkur Björn. Það er því gott veganesti fyrir hann þegar hann sest á þing fyrir íbúa Austurlands.

Eiríkur Björn er þeim kostum gæddur að vera allt í senn sanngjarn, ástríðufullur, ýtinn og jafnvel þrjóskur þegar kemur að því að fylgja málum eftir. Hann skilur þær áskoranir sem íbúar Austurlands standa frammi fyrir og veit hvaða mál þarf að setja á oddinn, til dæmis er varða samgöngur og heilbrigðisþjónustu.

Það eru risavaxin verkefni sem þarf að fara í á Austurlandi, eins og ljúka tengingu milli þéttbýlisstaða á Miðausturlandi með veggöngum. Þannig getum við eflt enn betur heilbrigðis- og velferðarþjónustu í Fjarðabyggð og í Múlaþingi og horft meðal annars til aukinnar geðheilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða. Svo ekki sé rætt um tækifærin sem við slíka tengingu skapast í mennta- og menningarmálum og fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.

Eiríkur Björn hefur einnig ítrekað mikilvægi Egilsstaðar sem flughafnar fyrir millilanda- og innanlandsflug og styrkingar ferðaþjónustu. Það mun meðal annars hafa það í för með sér að hafnirnar í Múlaþingi og Fjarðabyggð styrkjast fyrir vinnslu sjávarafurða, farþegaflutninga og þjónustu við Norðurslóðir og skapa aukin tækifæri í atvinnulífi Austurlands.

Ég er sannfærð um að íbúar Austurlands fá ekki öflugri málsvara á Alþingi en Eirík Björn. Það þarf manneskju eins og hann inn á þing. Hann hefur þá reynslu, þekkingu og innsýn sem er nauðsynleg til að berjast fyrir hagsmunum landshlutans. Því hvet ég ykkur öll til þess að gefa framtíðinni tækifæri í komandi kosningum og kjósa Viðreisn með því að setja X við C.

Höfundur er formaður Viðreisnar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.