Orkumálinn 2024

Egilsstaðir – Skömm eða skemmtun?

Ég hélt ég hefði skrifað nóg um fráveitu til að menn stöldruðu við, en það virðist ekki hafa tekist. Ég er viss um að stjórn Hitaveitunnar lét teyma sig út í þessa leið og getur ekki staðið frammi fyrir mistökum sínum.

Ég vona að eftir 4-5 ár þegar menn standa frammi fyrir hunduðum milljóna króna förnum í súginn, og fráveitan fjarri því að standast lög reglur, að bæjarbúar minnist þess að þeir hefðu getað valið framsæknustu umhverfisleið sem farin hefur verið á Íslandi í langan tíma og verið stolt af.

Ég fæ óbragð í munninn af þessarri skynheilögu umhyggju sem menn bera allt í einu fyrir Eyvindará, samt hefur saurgerlamengun í henni nánast ALDREI á Bólholtstímanum farið yfir þau mörk sem finna má í óhreinni borðtusku. Það að mælist 1000 saurgerlar í Eyvindará við mesta yfirfall á móti 12.000.000 sem á að sleppa LINNULAUST í Lagarfljót nokkrum metrum norðar, og það með hundruða milljóna aukakostnaði, er auðvitað galið.

Misskilningur Stefáns Boga um lyktarmengun er auðvitað jafn dapurlegur, hvort er líklegra að verði lyktarmengun af skólpstöð sem safnar öllu jukkinu saman í risavaxinni síunarstöð eða í lokuðum hreinsivirkjum sem grafin eru neðanjarðar? Eða gæti kannski verið að lyktarmengunin hafi orðið til við bilun í dælubrunni fyrir norðan Bónus og skólpið látið fara útí skurð meðan gert var við, eða vegna bilunar í brunni í Norðurtúni þar sem skólpið var leitt framhjá hreinsivirkinu og beint í Eyvindará?

Það þarf auðvitað ekki annað en kynna sér mælingar Heilbrigðiseftirlits Austurlands til að sjá sannleikann, en sannleikurinn er aukaatriði í málinu hjá sumum. Síðasta hálmstráið sem notað var sem rök gegn hreinsivirkjum Bólholts var að tannþráður hefði einu sinni á þessum fimmtán árum skemmt geislunarperu svo skipta þurfti um hana - HRÆÐILEGT !

Gaman og gosbrunnar

Það er svo ótalmargt sem við getum gert til framþróunar fyrir sveitarfélagið okkar, og VÖK er dæmi um það, aðkomu HEF að því ber að þakka. HEF gæti verið með eitt skemmtilegt gosbrunnaverkefni í gangi á ári og svo mætti gera eitthvað skemmtilegt upp í Selskógi. Talandi um Selskóg þá getum við bæði búið til fallegasta tjaldsvæði landsins og einn skemmtilegasta afþreyingargarð landsins ef ekki væri fyrir lítinn sérviskuhóp sem bannar allt sem viðkemur skóginum, því það getur ekki hugsað sér að heyra hlátrasköll í börnum á göngutúrnum.

Fáum Walt Disney fyrirtækið til að markaðssetja orminn fyrir okkur, þeir eru að leita að svona verkefnum um allan heim, byggjum göngubrú yfir Eyvindarárgilið þar sem leikmyndahönnuðir hanna sprungur, tröll og skrýmsli undir brúnni og aðrar áskoranir sem allir verða að upplifa sem koma á staðinn, svo dæmi séu tekin.

Umhverfi og atvinna

Skverum bæinn okkar upp með því að ráða garðyrjufræðing sem skipuleggur gróðursetningar og umhirðu í samvinnu við verktaka, fyrirtæki og vinnuskólann. Við sem eldri erum munum hve bærinn okkar var fallegur og krakkarnir í vinnuskólanum unnu markviss umhverfisverkefni sem þau gátu bent á og verið stolt af. Hættum að agnúast útí iðnaðarsvæðin og notum einfaldlega gróður til að fela þau, erum við ekki í mesta skógræktarhéraði landsins.

Ráðum atvinnu- og markaðsfulltrúa sem alltaf væri úti á örkinni til að aðstoða fyrirtæki og líka stofnanir sveitarfélagins við þróun vöru sinnar og þjónustu og ekki síst kynningarmál. Það er fullt sem sveitarfélagið getur gert án þess að vera í atvinnurekstri sjálft. Það getur safnað saman upplýsingum hvað varðar samskipti við opinbera aðila og leyfisveitingar og slíkt og lagst á árarnar í markaðsmálum, verkefni fá oft meiri vigt þegar sveitarfélag stendur á bak við þau. Það er vont að sjá á eftir fyrirtækjum eins og Barra og Herði og mörgum öðrum án þess að heyrist hósti né stuna frá sveitarfélaginu, nema kannski smá bókun einhverstaðar í óskiljanlegum fundargerðum.

Það skapast ævinlega sú umræða hvar eigi að taka peninga til ráðninga a nýjum starfsmönnum eða í dægurmál, og svo er skorið niður. Það þarf sundum að eyða til að græða, þessi lögmál gilda einnig hjá sveitarfélögum. Það er hægt að spara sig í hel. Ég held að einkenni góðrar stjórnunar sé einmitt að geta lesið á milli línanna, það er svo auðvelt að detta í þann pytt að starblína á útgjöldin en sjá ekki hvað það gefur í tekjur á móti. Ein fjögra manna fjölskylda sem flytur í sveitarfélagið greiðir að meðaltali 2,5 milljón í útsvar og fasteignagjöld á ári svo dæmi séu tekin, fyrir utan öll önnur óbein áhrif. Það þarf ekki margar fjölskyldur til að borga garðyrkjufræðinginn eða uppbyggingu í atvinnulífinu til að skila atvinnufulltrúanum margfalt til baka.

Fólkið heim

Þjóðfélagið hefur breyst og fólk er mun færanlegra en áður var og nú er lag, fólk er byrjað að átta sig á að það sé líf utan suðvesturhornsins, við eigum að keyra á þessa staðreynd. Við þurfum einfaldlega að hafa ákveðna grunnþætti í lagi, skóla, leikskóla, ásýnd og afþreyingu til að mynda, og í Guðs bænum ekki hallærislegar frímerkjalausnir sem alltaf eru dýrari þegar upp er staðið, skúrbyggingar eða kjallaraholur fyrir börnin okkar, hugsum aðeins stærra, það skilar sér

Ég hef komið aðeins að starfi Miðflokksins, en þar er hópur fólks sem vill einfaldlega reyna að ná bestu og hagstæðustu niðurstöðu í öll mál með því að beita aðferðafræði sem þekkt er og byggir í einföldu máli á að draga ÖLL sjónarmið og ALLA þekkingu að borðinu strax og taka ákvörðun útfrá því.

Þannig mætti taka upplýstar skynsamar ákvarðanir strax í stað þess að velta málum endalaust áfram með nýrri skýrslugerð, meiri nefndarvinnu, og meiri sérhagsmunagæslu. Það eru til færustu sérfræðingar á Austurlandi á þessu sviði, fáum þá til aðstoðar.

Byggjum ákvarðanir á skynsemi, framsýni og gerum daglegt líf skemmtilegra. Leyfum okkar að fá góðar byltingarkenndar hugmyndir, og nýtum allar góðar hugmyndir hvaðan sem þær koma.

Setjum X við M á kjördag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.