Orkumálinn 2024

Dýrasta aðgerðin er að gera ekkert

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hérna í dag, ekki vegna málefnisins, manngerðar röskunar á loftslagi jarðarinnar, sem er mjög alvarleg. En það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig umræðan um loftslagsbreytingar hefur færst frá því að vera eingöngu meðal vísindamanna til þess að vera meðal almennings og ekki síst fyrir þá miklu bylgju ungs fólks sem nú krefst þess um allan heim að þessi krísa verði tekin alvarlega og að brugðist verði við með markvissum aðgerðum til þess að lágmarka skaðann af henni.


Ég hef unnið við rannsóknir tengdum orkuskiptum núna í næstum 15 ár og það hefur átt sér gríðarlega mikil breyting á vitneskju á þessum tíma, bæði meðal almennings og vísindamanna almennt á því hversu brýnt það er að draga út losunum á gróðurhúsalofttegundum.

Þegar ég var að byrja í Háskólanum árið 2004 voru helstu rökin fyrir því að fjárfest væri í endurnýjanlegum orkugjöfum fyrst og fremst þau að við þyrftum að minnka loftmengun vegna bruna jarðefnaeldsneyta og þau að framleiðsla á olíu yrði takmarkandi og gæti ekki haldið í við eftirspurn á komandi árum.

Loftslagasbreytingar voru þekktar en voru ennþá ekki nógu samþykktar í almennri umræðu til þess að þær væru notaðar sem helstu rök fyrir aðgerðum.

Það er auðvitað ennþá brýnt að draga úr loftmengun en það er að verða æ ljósara að stærsta verkefni mannkyns á 21. öldinni er að stemma stigum við þeirri röskun sem er að eiga sér stað á veðrakerfi jarðarinnar. Ef við ætluðum t.d. að bregðast fyrst við þegar olíubirgðir heimsins fara að þrjóta þá værum við orðin of sein.

Það urðu mikil tímamót árið 2016 við undirritun Parísarsamkomulagsins þar sem ríki heims skuldbinda sig til þess að halda meðal hlýnun jarðar í það minnsta innan við 2°C og helst innan við 1.5°C frá því sem var við upphaf iðnbyltingar. Tímamótin voru að stórum hluta vegna þess að við undirritunina færðist umræðan um loftslagsbreytingar mikið nær almenningi og fréttir af þeim hafa orðið að daglegur brauði.

Smá hlýnun er ekkert svo slæm – eða hvað?

Þekking almennings á málefninu hefur því aukist mikið á síðustu 2-3 árum og það er alltaf sjaldgæfara og sjaldgæfara að maður heyri vangaveltur um það hvort það sé nú ekki bara ágætt að það myndi hlýna aðeins hérna á Íslandi?

En kannski er sú hugsun skiljanleg ef fólk þekki lítið til málsins. 2°C hlýnun hljómar jú kannski ekkert svo slæm eða hvað?

Það er ágætt að stoppa aðeins við hérna og rifja upp smá grunnskóla eðlisfræði.

Hvað erum við að mæla þegar við mælum hitastig?

Hitastig er mælieining á meðalhreyfiorku sameinda í því rými þar sem hitastigið er mælt.
Hærra hitastig þýðir sem sagt meiri hreyfingu agnanna.

Meðal hitastig á jörðinni er því einmitt bara það! Mæling á hreyfiorku loftslagasins.
Hærra hitastig þýðir meir orku til þess að mynda:
- Ofsafengna storma
- Hamfararigningar
- Þurka og flóð

Hækkun á meðalhitastigi jarðar þýðir ekki endilega hlýnun allstaðar heldur þýðir hún röskun á þeim veðrakerfum sem við höfum átt að venjast og mannkynið byggir sína matvælaframleiðslu á stórum hluta á. Gott dæmi um þetta eru t.d. jöklar Himalæjafjalla sem sjá þéttbýlustu svæðum jarðarinnar eins og í Indlandi og Kína fyrir árstíðarbundnum flóðum sem flytja með sér næringu og raka sem eru undirstaða ræktunar á svæðunum.

Hvað getum við gert?

En hvað þarf að gerast til þess að við getum takmarkað hlýnunina við 1.5-2°C?

Við, mannkynið þurfum að hefja mjög öran samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum.

Við þurfum að verða kolefnishlutlaus, það er við megum ekki losa meira en við bindum í kringum miðja öldina.

Á seinni hluta aldarinnar gæti verið að við þurfum að vera kolefnisneikvæð. Það er við þurfum að binda töluvert meira en við losum allt eftir því hversu fljót við verðum að draga úr losuninni í dag.

Dýrasta aðgerðin er að gera ekkert í dag!

Á heimsvísu kemur stærsti hluti losunarinnar frá bruna jarðefnaeldsneyta en þar er brýnast að hætta bruna sérstaklega kola í raforku og varmaframleiðslu. Sömuleiðis er mikilvægt að stöðva eyðingu skóga og annarra vistkerfa sem binda gífurlegt magn af koltvísýring á hverju ári. Og svo er mikilvægt að hætta að nota olíu í samgöngum.

Á Íslandi er losun á hvern einstakling há á flestum sviðum nema þegar kemur að raforkuframleiðslu. Þáttur landnotkunar er sérstaklega hár á Íslandi að stórum hluta vegna þess að við erum nokkuð fá í stóru landi en einnig vegna þess að á seinnihluta síðustu aldar voru stór votlendissvæði þurkuð upp í því skyni að þar skildi búa til ræktarland. Við það að þurka upp votlendi kemst súrefni í þykk lög af lífrænum efnum sem safnast hafa upp í votlendinu yfir langan tíma og við það hefst niðurbrot á efnunum og losun koltvísýrings.

Það sorglegasta er að í dag fer fram ræktun á ekki nema um 15% af þeim votlendissvæðum sem hafa verið þurkuð upp.

Á Íslandi þurfum við því að horfa til margra þátta. Við þurfum að endurheimta votlendi og við þurfum að stuðla að uppgræðslu landsins og takmarka ofbeit. Við þurfum að horfa til þess að verða kolefnishlutlaus í orkunotkun, þar á meðal í samgöngum hvort sem það eru bílar, skip eða flugvélar.

Við þurfum að vera skynsamir neytendur!

Það er margt sem við getum gert sjálf og það er mikilvægt!

Hvetjum til góðra verka

En á endanum er mikilvægt að við setjum ábyrðina ekki bara á herðar hversdagssamviskusemi okkar. Það er ólíklegt að allir neytendur velji loftslagsvænni kostinn ef hann er dýrari og sömuleiðis er erfitt fyrir fyrirtæki að velja umhverfisvænni framleiðsluaðferðir ef þau geta ekki treyst á að samkeppnisaðilar þeirra þurfi að gera það líka!

Það er því gífurlega mikilvægt að við hvetjum og styðjum stjórnmálafólkið okkar í því að setja kvóta á losun gróðurhúsalofttegunda, svipað og stóriðjan á Íslandi hefur nú þegar undirgengist í gegnum viðskiptakerfi Evrópusambandsins og Alþjóðaflugið er að ganga inn í á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Krafan þarf að vera sú að sá sem losar greyði fyrir þá losun og að þegar fram í sækir verði ekki leyfilegt að losa gróðurhúsalofttegundir án þess að binda sama magn á móti annars staðar!

Það jákvæða er að í dag er tæknilega mögulegt að draga út stærstum hluta þeirra gróðurhúsalofttegunda sem við losum í dag og það sem meira er er að á lengri tíma litið mun það ekki bara skila okkur heilnæmara umhverfi heldur líka hagstæðari orkuframleiðslu, iðnaðar og matvælaframleiðslu.

Verkefnið er stórt og kannski oft á tíðum yfirþyrfmandi en það er mikilvægt að muna að lausnirnar eru að stærstum hluta til og þess vegna er það svo mikilvægt að við gefum stjórnmálafólkinu okkar kjark til þess að taka hugrakkar ákvarðanir í dag sem færa okkur betri framtíð á komandi árum.

Ræða flutt við loftslagsmótmæli í Menntaskólanum á Egilsstöðum 10. apríl 2019
Höfundur er verkefnastjóri orkuskipta hjá Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.