Austfirðingar rífast

Ágreiningur Austfirðinga vegna Fáskrúðsfjarðarganga - langhagkvæmasta gangakostsins - tafði veggangagerð á Íslandi um 5-10 ár. Austurland var næst í röðinni en stjórnvöld biðu eftir samstöðu heimamanna.

Enn er komið að Austfirðingum. Málið snýst nú um að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Sannkallað bráðamál! Annars vegar vilja ráðandi öfl á Seyðisfirði og Héraði að í samræmi við 50 ára kröfu heimamanna þá skuli bora 13,5 km löng göng undir Fjarðarheiði og að seinna verði kannski borað suður til Norðfjarðar.

Hins vegar vilja Fjarðabyggð, útgerðin, álverið, sjúkrahúsið, framhaldsskólarnir o.fl. að borað verði til Mjóafjarðar og þaðan í Eyvindarárdal á Héraði. Í framhaldinu verði boruð 6 km göng frá Mjóafirði til Norðfjarðar.

Í báðum tilvikum opnast Seyðfirðingunum greið leið til Egilsstaða en í seinna tilvikinu er einnig langt komin greið leið með ströndinni að Norðfjarðargöngum. Kostnaður við báða kosti er líklega sá sami því vegna lengdar Fjarðarheiðarganga kemur alls konar viðbótar öryggiskostnaður auk þess sem sprengingar eru tafsamari eftir því göngin lengri.

Í nýútkominni opinberri úttekt er með semingi mælt með fyrri kostinum, Fjarðarheiði og seinna suður. Áætlaður kostaður alls verkefnisins 62 milljarðar króna (þ.a. 34 vegna Fjarðarheiðarganga) eða 2,5 milljarðar kr. á hvern km. Málið sem sagt beina leið í ruslafötuna.

En sé hinn kosturinn valinn, þ.e. upp úr Mjóafirði, þá er allt annað dæmi. Þá má miða við kostnað Norðfjarðarganga enda álíka berg og temmilega löng göng. Verð pr. km. fer þá í ca. 1,7 illjarða. Eyvindarárdalsgöng eru líka 4 km styttri en Fjarðarheiðargöng sem lækkar kostað um 7-8 milljarða króna. Væru göngin göngin þrjú svo heilboruð í einum áfanga þá lækkar kostnaður um minnst 20% í viðbót. Þá erum við komin í 30 milljarða dæmi og höfum sparað 30 milljarða króna.

Sá sparnaður eru miklir peningar, t.d. 40 sinnum meiri en skuldir Seyðisfjarðarbæjar, tvöfaldar skuldir allra sveitarfélaga á Austurlandi, 40 millj. kr. á hvern Seyðfirðing. Sparnaðurinn væri meira að segja nægur til að gera upp allan hringveginn og eyða einbreiðum brúm.

Er þetta ekki gæfulegri kostur, eitthvað til að sameinast um í von um skjótan árangur.

samgong 2015

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.