Atlaga að öflugu fjölskyldusamfélagi á Reyðarfirði

Skólasund hefur farið fram til fjölda ára í innisundlaug á Reyðarfirði en sundlaugin er staðsett í íþróttahúsinu sem stendur við grunnskólann. Skipulagi sundkennslu hefur verið raðað á 8 vikur á haustin og vorin. Yfir veturinn er sett gólf yfir laugina og þar stundaðar skólaíþróttir sem og íþróttir utan skóla.

Þannig er mál með vexti nú að sundlaugin hefur verið biluð í tæpt ár. Um leið og ljóst varð að bilunin væri stór var beðið um úttekt á viðgerð og kostnaði. Nemendur náðu ekki að klára sundkennslu þá vorönn. Síðasta haust, þegar ráð og nefndir bæjarins fóru að funda á ný, kom í ljós að ekkert hafði verið aðhafst í málinu og enn engin úttekt verið gerð. Misstu því nemendur af sundkennslu það haustið. Ljóst er að sundkennsla fer ekki fram vorið 2020 í lauginni og ekki er búið að skipuleggja akstur í aðra bæjarkjarna.

Sjá má söguna rakta ágætlega í minnisblöðum í fundargerð bæjarráðs 17.febrúar 2020.

Sérstaklega er áhugavert að lesa lokaútgáfu minnisblaðs bæjarstjóra þar sem hann útskýrir sína ályktun um málið. Þar telur hann vænlegast að keyra börnum á milli bæjarkjarna í skólasund. Hann virðist taka þessa stefnu þrátt fyrir að útreikningar fræðslustjóra og verkefnastjóra á framkvæmdasviði bendi til að kostnaðurinn muni aukast umtalsvert og tekið fram að mikil andstaða sé við hugmyndina þar sem skóladagurinn muni lengjast og að laugin sé hentug til kennslu.

Hann vísar í 2. mgr. 1.gr barnalaga nr. 76/2003 að við ákvarðanatöku skal huga ávallt að því sem barni er fyrir bestu. Þegar þessi grein barnalaga er skoðuð er verið að vísa í grunnþarfir barns um að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Ef bæjarstjóra finnst við hæfi að vísa til þessara laga í minnisblaði um ákvörðun um íþróttamiðstöð er allt eins hægt að segja að það sé barni fyrir bestu að ferðast minna í bíl öryggisins og loftlagsins vegna, hafa skóladaginn hæfilega langan og hljóta sundkennslu í góðri kennslulaug. Þess má get að nýlega hefur komið út tímamótaskýrsla UNICEF, WHO og The Lancet sem ber heitið „A Future for the World’s Children?“ Þar kemur fram að börn á Íslandi búi við mjög góðar aðstæður til að verja heilsu, umhverfi og framtíð en fá falleinkunn fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Þess má einnig geta að Fjarðabyggð er þátttakandi í verkefninu heilsueflandi samfélag. Í slíku samfélagi skal meðal annars leggja áherslu á margskonar forvarnar-og heilsueflingarstarf og tryggja gott framboð og aðgengi að skipulagðri hreyfingu fyrir íbúa á öllum aldri.

Þá vísar bæjarstjóri í lög um grunnskóla nr. 91/2008 3.mgr. 20. gr. þar sem allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks. Í sömu grein er tekið fram að sveitarfélag skuli annast og kosta viðhald skólahúsnæðis og endurnýjun og viðhald búnaðar þess. Ljóst er að viðhald og endurnýjun búnaðar við sundlaugina og íþróttahúsið hefur setið á hakanum hjá sveitarfélaginu. Bæta má við að í sömu grein þessara laga er tekið fram að sveitarfélag skuli gera ráð fyrir rými fyrir skólaþjónustu við börn með sérþarfir. Aðgengi fatlaðra við íþróttahúsið og sundlaugina er með öllu óásættanlegt. Ennfremur skal sveitarfélag hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis. Slíkt samráð hefur ekki farið fram. Hagsmunaaðilar skólasamfélagsins eru starfsfólk skólans, nemendur skólans og foreldrar nemenda.

Útreikningar á viðgerð laugarinnar eru gefnir upp í minnisblaði, stór viðgerð kostar tæpar tuttugu milljónir króna. Kostnaður við akstur er áætlaður þrettán milljónir á ári og starfsmannakostnaður 1,7 milljónir á ári. Sparnaður af lokun laugar 2,7 milljónir á ári. Nokkuð þægilegt að reikna út að það borgar sig peningalega séð að gera við laugina og spara aksturspeninginn til framtíðar. Ekki er búið að reikna fyllilega hvaða kostnaður fylgir þeim starfsmannabreytingum sem akstur í sundkennslu veldur.

Hugmyndir eru settar fram um lengingu sundtíma í 60 mínútur og allt upp í 80 mínútur. Er það barni fyrir bestu? Fjöldi barna grunnskólans á Reyðarfirði er slíkur að sundhóparnir yrðu 17. Það er þó nokkur akstur.

Því er svo kastað fram að ekki er gerð tilraun til að reikna ávinning eða kostnað þess að hafa íþróttahúsið sem einungis íþróttahús allt árið um kring. Íþróttahúsið sjálft er fyrir þó nokkru síðan orðið of lítið fyrir þennan fjölda nemenda og ennfremur fyrir þann fjölda fólks sem stundar íþróttir á staðnum. Ungmennafélagið Valur fór af stað með starfshóp um nýtt íþróttahús vorið 2018 og hefur nokkrum sinnum óskað eftir aðgerðum og áætlunum um að byggja nýtt og stærra íþróttahús á Reyðarfirði en engin skref verið tekin. Við þetta má bæta að aðstaða til frístunda fyrir alla aldurshópa er léleg og húsnæði og búnaður félagsmiðstöðvarinnar til skammar.

Þá má velta fyrir sér hvort sveitarfélagið hugsi sér að kaupa sessur/bílstóla fyrir yngstu nemendurna þar sem reglugerð um notkun öryggis-og verndarbúnaðar í ökutækjum segir að börn undir 135 sm. á hæð skuli nota barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis-og verndarbúnað sem hæfir stærð þess. Þess má geta að Fjallabyggð gerir þær kröfur á skólaakstursbifreiðar að þær séu búnar viðeigandi öryggisbúnaði fyrir hvern farþega.

Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að missa þessa dásamlegu og einstöku aðstöðu sem Reyðfirðingar eiga og hafa byggt upp. Allar skólabyggingar á sama reitnum. Þannig er hægt að taka út fyrir dæmið umferðaslys, tímahrak, veðravesen og fleira.

Með akstri til Eskifjarðar eða Fáskrúðsfjarðar lengist skóladagurinn um minnst eina klukkustund þá daga sem barn fer í sund. Tímatafla tónskóla og íþrótta-og tómstundastarfs riðlast og er líklegt til að lengja vinnudag barnanna, sem oft er nógu langur fyrir. Þetta bitnar á frítíma þeirra til að leika sér og lesa. Þá eru ónefndar allar þær breytingar á starfsmannamálum sem gera þarf vegna eftirlits og lengingu skóladagsins.

Sveitarfélag ætti að byggja upp þá þætti sem hafa forvarnargildi fyrir framtíðina. Sveitarfélag ætti að hlusta á sérfræðinga sína sem eru skólastjórnendur, starfsfólk skóla, foreldrar og börn. Sveitarfélag ætti að velja valkostinn sem skapar minni/enga mengun.

Er bæjarstjóri hæfasti aðili til að meta upplýsingar frá þeim fagaðilum sem senda inn sitt mat á aðstæðum? Er það ekki hlutverk fræðslunefndar með ráðgefandi sérfræðingum?

Foreldrafélagið stendur nú fyrir undirskriftasöfnun til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum. Fyrirhugað er að taka erindið fyrir á bæjarstjórnarfundi í dag klukkan 16.

Höfundur er fyrrverandi formaður foreldrafélags grunnskólans á Reyðarfirði. Á þrjú börn við skólann auk þess að eiga eitt í leikskólanum. Er hjúkrunarfræðingur og starfar við heilsugæslu HSA í Fjarðabyggð.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.