Ástin og lífið á tímum „kófsins“

Síðustu mánuðir hafa verið mjög streituvaldandi. Ýmsar raskanir hafa orðið á daglegu lífi og fyrirætlunum fólks og talsverð óvissa er framundan. Við þessar aðstæður reynir meira á náin sambönd fólks en áður og var álagið þó talsvert fyrir. Um 40% hjónabanda á Íslandi enda með skilnaði, sem segir meira en mörg orð um það hversu snúið getur reynst að láta hjónabönd ganga upp. Hugmyndir samtímans um hjónabandið eru hluti af vandanum, sem (með smá slettu af kaldhæðni) eru sirka þessar:

Jafnræði á að ríkja í heimilsstörfum og helst líka hvað starfsframa varðar. Heimilið á að vera tandurhreint og flott og það á helst að elda allar máltíðir frá grunni úr lífrænt ræktuðum hráefnum. Makinn á að vera blíður og góður, besti vinur og sálufélagi, en líka spennandi, sexý og til í tuskið í svefnherberginu. Það eiga helst allir að eiga blómlegt tómstunda- og félagslíf, birta reglulega sjálfsmellur af fjallatoppum og halda sér í toppformi. Börnin eiga að brillera í skólanum og í að minnsta kosti þremur áhugamálum.

Veruleiki okkar flestra er talsvert ólíkur þessari staðalmynd. Það getur valið áhyggjum af því að við séum ekki nógu góð, ekki að standa okkur og líf allra annarra sé miklu betra. Þetta er hugsanaskekkja sem getur verið varasöm. Við berum innri veruleika og daglegt líf okkar oft saman við glansmyndir sem aðrir sýna heiminum af sínu lífi, svo ekki sé talað um fréttir af þeim eru ríkir og frægir og hafa sko virkilega meikað það. Þetta hefur áhrif á okkur, jafnvel þótt við vitum að glansmyndirnar segi ekki allan sannleikann.

Hætt er við því að þessi ranghugmynd um að líf allra annarra sé betra en okkar eigið, ágerist á tímum kófsins. Viðkvæmt jafnvægi í samböndum og í heimilislífi raskast og fólk eyðir í mörgum tilvikum meiri tíma heima við en áður og þarf jafnvel allan daginn að horfa á ósambrotna þvottinn í stofusófanum, gólfið sem á eftir að ryksuga og makann sem er órakaður og á náttbuxunum sjöunda daginn í röð. Við mörgum blasir óvissa og sumir þurfa að endurskoða fjárhaginn verulega. Á sama tíma höfum við enn meiri tíma til að skoða glansmyndir annarra á Facebook og Instagram, sem nú virka jafnvel enn óraunhæfari og meira úr takti við daglegan veruleika okkar en áður. Er nokkuð skrítið að við þessar aðstæður læðist að fólki vonleysi eða sú hugsun að grasið sé grænna hinumegin við lækinn?

En hvað er til ráða? Hér eru nokkrar hugmyndir:

• Takmarkaðu tímann sem þú eyðir í að horfa á glansmyndirnar sem aðrir draga upp af lífi sínu og mundu að á bak við glansmyndina er ekkert endilega betra líf en þitt eigið. Skammtaðu þér nauman tíma í að skoða samfélagsmiðla og fréttir.

• Sestu niður með makanum og ræddu hvar þið eruð stödd, hvað er gott í lífinu og hvað mætti hugsanlega bæta. Reyndu að gera þetta með fullri athygli og án þess að grípa fram í, dæma, alhæfa eða draga upp leiðindi úr fortíðinni. Horfið fram á við og reynið að sjá einföld og raunhæf skref til að bæta og auðga daglegt líf og gera meira að því sem er skemmtilegt og gefandi. Reynið að taka frá tíma til að gera eitthvað saman sem par, jafnvel þótt það sé bara labbitúr, ísrúntur eða að horfa saman að þátt í sjónvarpinu.

• Vertu duglegri að snerta maka þinn blíðlega. Knús, létt stroka yfir bakið, koss á kinnina, haldast í hendur þegar þið horfið á sjónvarpið....öll snerting getur skipt máli (athugaðu samt að snertingin verður að vera velkomin og viðeigandi!) Við snertingu eykst framleiðsla á hormóninu oxýtósín, sem veldur vellíðan, lækkar streitustigið og stuðlar að styrkingu tengsla, en örugg tengsl eru undirstaða góðra sambanda. Veittu makanum þínum oftar fulla athygli og verið í alvörunni saman þegar þið eruð saman en ekki með annað augað á snjallsímanum.

• Reyndu að muna og upplifa þá staðreynd að lífið er NÚNA. Það sem þú skynjar með beinum hætti með skilningavitunum er veruleiki þinn, ekki það sem þú hugsar. Hugsanamaskínan í hausnum á okkur þróaðist til að halda í okkur lífinu, læra af fortíðinni og spá fyrir um framtíðina. Þetta er gagnlegur eiginleiki, en honum fylgir sá galli að við tökum oft túlkanir heilans á fortíð og framtíð allt of bókstaflega, sem svo getur gert okkur döpur og kvíðin. En hversu oft er eitthvað dapurlegt eða kvíðvænlegt að gerast NÚNA? Í raun mjög sjaldan. Við getum æft okkur í að skilja og skynja þetta betur og oftar.

Svona mætti lengi telja, en lykilatriðið er að oftast má finna leiðir til að bæta sambönd, jafnvel þótt staðan virðist erfið. Ef viljinn er fyrir hendi og fólk hefur eitthvað til að byggja á, er oft hægt að gera stórar breytingar til batnaðar á skömmum tíma. Ef staðan er alvarleg og samskipti eru komin í hnút getur þó verið skynsamlegt að leita aðstoðar fagaðila sem getur hjálpað til við að finna leiðir úr úr vandanum.

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur (www.lifdubetur.is/radgjof)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.