Af fiskeldi og einhverju öðru

Er fiskeldi eitthvað annað? Mér verður oft hugsað til þess þegar ég fylgist með uppbyggingu á fiskeldi á Íslandi. Fyrir ekki svo löngu síðan var talað um að styrkja þyrfti byggð á landsbyggðinni með atvinnusköpun og þá var stóriðja helst fyrir valinu.

En þegar leið og beið, þá var stóriðja ekki nægilega góð og hentaði ekki öllum landsvæðum. Þá átti að finna eitthvað annað, eitthvað sem myndi styrkja atvinnu á landsbyggðinni, ekki stóriðju, bara eitthvað annað. Sjálfur var ég hrifinn af einhverju öðru, vandamálið var bara að enginn gat sagt til um, hvorki ég né aðrir, hvað þetta annað var.

Lítið fer fyrir opinberum störfum á landsbyggðinni og sömuleiðis hefur dregið úr bakvinnslu ýmissa stórfyrirtækja. Hvað situr þá eftir? Ferðamennskan hefur vissulega hjálpað mikið til en hún er að nokkru leiti bundin við ákveðin svæði á landinu, jaðarsvæðin sitja samt sem áður jafn mikið eftir. Meira að segja sjávarútvegurinn getur brugðist byggðum landsins þrátt fyrir tilraunir með byggðakvóta og strandveiðar. Það þarf að hafa fleiri stoðir, eitthvað annað, eitthvað annað sem er ásættanlegt. En hvað er það? Hvað er ásættanlegt?

Fiskeldi er og verður umdeild atvinnugrein en þetta er eitthvað annað sem kemur mörgum byggðum til góða, sérstaklega þeim sem eru í námunda við eldissvæðin, hvort sem þau eru í sjó eða á landi. Virðiskeðjan er löng í fiskeldi, frá fóðurframleiðslu, seiðaræktun, eldi í sjó, afurðavinnslu og markaðssetningu. Það eru mörg handverk bakvið hvert framleitt kíló og það skilur eftir sig spor í samfélaginu.

Hvað varðar umhverfisáhrif, þá fellur frá úrgangur frá fiskirækt sem og annari dýrarækt. Því miður er hann ekki nýttur sem áburður beint, en hann getur virkað sem slíkur á nærliggjandi svæði á hafsbotninum. Áhrifin eru þar af leiðandi lítil og ekki þarf meira en nokkra mánuði til að hvíla svæði þangað til hægt sé að taka þau í notkun aftur.

Hvað varðar slysasleppingar, þá er næstum óhjákvæmilegt að þær gerist, því miður. Áhrif erfðarblöndunar á eldisfiski eru hins vegar mun minni en talað er um í fjölmiðlum.

Það eru fylgikvillar á fiskeldi eins og með alla aðra dýrarækt og framleiðslu, það þarf því að velja og hafna. Það eru kostir og það eru gallar. Engu að síður hef ég þá skoðun að fiskeldi hafi meira jákvætt fram að bera en neikvætt. Ég þekki það af eigin raun hvernig samfélög njóta góðs af fiskeldi. Ég er ekki hlutlægur þar sem ég starfa innan geirans og þekki hann vel, frá ígulkerjarækt, sjókvíaeldi og seiðaeldi. Ég sé það jákvæða sem fylgir fiskeldi; Þetta er ansi gott eitthvað annað.

Höfundur er stöðvarstjóri seiðaeldis í Noregi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.