Af einkavæðingu í orkugeiranum og virkjunar á vatnasviði Geitdalsár

Raforka er ein grundvallar undirstaða nútíma samfélags og er því mikilvægt að vandað sé til skipulagsvinnu og ákvarðana sem að málaflokkinum lúta þannig að þær séu trúverðugar og hafnar yfir gagnrýni. Það má færa nokkuð sterk rök gegn ágæti einkavæðingar innan orkugeirans og er helsta ástæðan fyrir því regluverkið sem er ætlað að gæta eignarhalds félaga í orkuvinnslu. Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri kveða á um að utan íslenskra ríkisborgara og lögaðila sé aðeins ríkisborgurum og lögaðilum innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) heimilt að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita til annarra nota en heimilis.

Þér er velkomið lesandi góður að hoppa yfir þennan einkavæðingarlið greinarinnar sem á köflum getur verið lýjandi og fara beint í „Hver byggir og rekur Geitdalsvirkjun?“

Af eignarhaldi HS Orku

Á þetta regluverk reyndi við sölu HS Orku 2010, en félagið, sem er þriðji stærsti orkuframleiðandi á landinu og rekur meðal annars jarðvarmavirkjunina í Svartsengi, er í dag til jafns í eigu sameignarhlutafélagsins Jarðvarma og Magma Energy Sweden A.B.

Deilt um erlent eignarhald

Árið 2010 var Magma Energy Sweden í eigu kanadísks félags, Magma Energy Corp, síðar Alterra Power, og kom salan á HS Orku á borð nefndar hérlendis um erlenda fjárfestingu þar sem einhverjir vildu meina að raunverulegur kaupandi á bréfum í HS Orku væri utan EES. Raunar var það ekki svo vitlaus ályktun þar sem yfirbygging Magma Energy Sweden var að því er virtist engin, félagið virtist aðeins til á pappír. Nokkuð hart var deilt um kaupin en nefndin féllst aftur á móti á rök Magma Energy Corp um að evrópska dótturfélagið væri staðsett og starfaði innan EES með naumum þriggja manna meirihluta og vísaði málinu frá þó tveir nefndarmenn hafi skilað séráliti og talið kaupin á gráu svæði. [1],[2],[3]

Aðkoma Edmund Truell – Frumkvöðuls í lagningu sæstrengs

Í október 2018 greindi Fréttablaðið frá fyrirhuguðum kaupum Disruptive Capital Renewable Energy á 12.7% hlut ORK í HS Orku. Viðskiptin þóttu nokkuð merkileg þar sem eigandi DC Renewable Energy er Edmund Truell, en hann á jafnframt Atlantic Superconnection, nýsköpunarfyrirtæki sem hefur yfirlýstan áhuga á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Af kaupunum varð þó ekki þar sem Truell tókst ekki að ljúka fjármögnun og leysti Jarðvarmi slhf. til sín hlut ORK fyrir 8.5 milljarða króna. [4],[5]

Fyrirhuguð kaup meints skattsvikasjóðs

Hlutir í HS Orku hafa síðan félagið var einkavætt gengið kaupum og sölum en segja má að verulega hafi dregið til tíðinda snemma árs 2019 þegar stærsti fjárfestingasjóður heims á sviði innviða, hinn ástralski Macquaire Infrastructure and Real Assets (MIRA) gerði kauptilboð í Magma Energy Sweden fyrir $304.8 milljónir, um 37 milljarða kr. á gengi þess dags. [1],[6]

Fór nokkur umræða af stað í fjölmiðlum um þau viðskipti þar sem starfshættir MIRA eru sem stendur til skoðunar af saksóknurum í Þýskalandi, en félagið er sakað um aðkomu að skattsvikamáli sem felst í fölsun endurgreiðsluhæfra arðgreiðslna og hafa kostað skattgreiðendur í Evrópu um €55 milljarða. [7]

Frændur okkar Danir hafa ákveðið að gjalda varhug í viðskiptum sínum við MIRA, en til stóð að MIRA og ATP, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, með aðkomu tveggja annarra smærri lífeyrissjóða, keyptu þarlent fjarskiptafyrirtæki, TDC fyrir $6.6 milljarða. Dönsku lífeyrissjóðirnir hafa slegið öllum fjárfestingaráformum með MIRA á frest þar til, eða öllu heldur ef félaginu tekst að hreinsa sig af ásökunum. [8]

Bjargað fyrir horn?

Til kaupa MIRA á Magma Energy kom þó ekki, en stjórn Jarðvarma slhf. sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, valdi að virkja forkaupsrétt sinn á Magma Energy (53.9%) og hafði þá eins og áður kom fram leyst til sín hlut ORK (12.7%). Jarðvarmi slhf. hafði þar af leiðandi yfirráð yfir öllum bréfum í félaginu og nýtti tækifærið til uppstokkunar á eignasamsetningu HS Orku, með því að leysa 30% hlut í Bláa Lóninu til félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Blávarma slhf. Að þessu loknu var samstarfsaðila Jarðvarma í þessum viðskiptum, sjóðum í stýringu hins breska Ancala Partners, sem sumir hverjir eru staðsettir í Lúxemborg, boðið að borðinu og fer hann með yfirráð yfir 50% hlut Magma Energy í HS Orku. [2],[9],[10]

Þessari samantekt úr sögu HS Orku er ekki beint gegn félaginu á neinn hátt enda heimilda getið fyrir þeim staðhæfingum sem í henni eru settar fram. Henni er eingöngu ætlað að vekja lesanda til umhugsunar um hversu fljótt og títt eignarhald getur skipt höndum, og hve illa regluverkið virðist í stakk búið til að taka á vafamálum og hagsmunatengslum.

Hver byggir og rekur Geitdalsvirkjun?

9,9 MW virkjunarkostur í Geitdal, með miðlun af Hraunasvæði, er nú til athugunar hjá Arctic Hydro, en félagið var skráð hjá ríkisskattstjóra síðla árs 2015. Forráðamaður og stjórnarformaður þess er Benedikt Einarsson, og eru þeir Bjarni Benediktsson, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, synir bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Þessi tengsl kunna að vekja efasemdir um aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að málinu, en því eru gerð betri skil hér að neðan. Að því er fram kemur á vefsíðu félagsins starfrækir Arctic Hydro eina virkjun, sem nær um 8,6% af væntu uppsettu afli Geitdalsvirkjunar, hina 85 kW Skarðsvirkjun III. Reynsla félagsins af byggingu jafn umfangsmikillar virkjunar og til stendur í Geitdalsá er því tæplega til staðar, en mannvirki Geitdalsvirkjunar gera ráð fyrir rúmlega 1.000 metra löngum, 18 metra háum stíflugarði til myndunar Leirudalslóns á miðhálendinu auk 32 metra hárri og 300 metra langri stíflu til myndunar inntakslóns virkjunarinnar ofarlega í Geitdal. [11],[12]

Vatnasvið Geitdalsár af Hraunum er drjúgt og gæti gefið tilefni til enn stærri vatnsaflsvirkjunar en þeirrar sem félagið fyrirhugar nú. Erfitt er að lesa í hverjar langtíma fyrirætlanir Arctic Hydro eru á Hraunasvæði, en áhugi félagsins á svæðinu virðist í það minnsta mikill, þar sem félagið er jafnframt handhafi rannsóknarleyfis á 30-70 MW virkjunarkosti á vatnasviði Hamarsár í Djúpavogshreppi, sem einnig rennur af Hraunum. Ætla mætti því að landeigendur, í samningum sínum við framkvæmdaraðila, gæti þess að leyfisveiting fyrir afnotarétt af vatnasviðinu í þeirri mynd sem virkjanaleyfi tilgreinir, áskilji framkvæmdaraðilanum ekki rétt til frekari nýtingar af svæðinu, enda skildi ætla að landeigendum hefði verið gerð grein fyrir slíkum fyrirætlunum frá upphafi.

Mannvirki innan miðhálendislínu og á svig við landskipulagsstefnu

Nú segir í Landskipulagsstefnu, kafla 1.4, að orkulindir á miðhálendinu skuli nýta með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi, sérstaklega með tilliti til verndunar víðerna. [13]

Verkefnislýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna Geitdalsvirkjunar sýnir hinsvegar að stíflugarður Leirudalslóns auk vega að miðluninni eru innan miðhálendislínu og á svæði sem skilgreint er sem víðerni sbr. kortlagningu víðerna á miðhálendinu (David C. Ostman & Þorvarður Árnason). [12],[14]

Ef yrði af Geitdalsvirkjun í þessari mynd virðist sveitastjórn Fljótsdalshéraðs því hafa tekið skipulagsákvörðun sem er á svig við landskipulagsstefnu.

Önnur áform Arctic Hydro

Auk þess að fara með rannsóknarleyfi fyrir Geitdals- og Hamarsám, hefur Arctic Hydro frá stofnun fengið úthlutað rannsóknarleyfum fyrir Fellsá og Kelduá, Djúpárvirkjun og Dimmugljúfursvirkjun, fer með virkjunarleyfi fyrir 5,5 MW Hólsvirkjun í Hólsá og Gönguskarðsá í Fnjóskadal og bíður framkvæmdarleyfis fyrir byggingu 6 MW virkjunar í Þverá í Vopnafirði. Raunar virðist umsýslan þess síðastnefnda nú vera í höndum dótturfélags Arctic Hydro, Þverárdals ehf. [15]

Af yfirbyggingu félagsins nú að dæma mun fjármögnunar vera þörf til að ráðast í þann fjölda framkvæmda sem félagið ráðgerir og því erfitt að greina hvort félagið sjálft hyggist reisa og reka þá virkjanakosti sem til rannsóknar eru, eða framselja leyfin til annarra raforkuframleiðanda þegar þau eru í húsi. Ljóst er af sögu HS Orku í það minnsta, að ærið margir kostir ættu að standa Arctic Hydro til boða í þeim efnum.

Tekjutengd leigugjöld

RÚV greindi frá því nýverið að drög að tekjumódeli sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs og íslenska ríkisins af vatnsréttindum í Geitdalsá lægju fyrir, þó enn ætti eftir að ná samningum um skiptingu teknanna. Af því má draga þá ályktun að samningaviðræður eigi sér stað milli Fljótsdalshéraðs og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þó líkast til sé málið í höndum Ríkiseigna, sem hefur það verkefni í umboði ráðuneytisins að semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins. Líkt og kemur fram í fréttinni verður téð leiga reiknuð sem prósenta af tekjum orkuframleiðandans og er sögð stigvaxandi frá 3% til 10% á 30 árum. Ekki er þó greint frá hvernig tekjur skuli upp gefnar, hvort það sé af ársreikningi eða með útreikningi sem byggir á eðlilegu heildsöluverði raforkunnar. [16],[17]

Hvers vegna ætti það að skipta máli?

Að færa til hagnað

Þekkt er hversu auðvelt er að færa til hagnað í bókhaldi. Til þess þarftu einfaldlega að vera eigandi tveggja félaga. Þörfin sprettur af einu félagi þínu, sem myndar hagnað í óhagstæðu gjaldtökuumhverfi, Félagi A, svo þú bregður á það ráð að stofna til annars félags í vinveittara skattaumhverfi, Félags B. Þegar Félag A myndar hagnað í sínu landi þarf að greiða af honum háa fyrirtækjaskatta. Til að losna undan skyldum stofnar Félag A einfaldlega til skuldar við Félag B, til að mynda í formi framkvæmdaláns eða ráðgjafagreiðslna, og í staðinn fyrir að gefa upp hagnað, skilar Félag A tapi vegna greiðslu skuldarinnar og hagnaðurinn flyst á Félag B sem innheimtir skuldina og greiðir af tekjunum lægri skatta en ella.

Aðferðir sem þessar eru einmitt viðfangsefni efnahagsbrotanefndar á vegum Evrópuþingsins sem Eva Joly gegndi varaformannsstöðu í til ársins 2019 og fóru nokkuð hátt í umræðunni hérlendis á árunum 2015-16, þar sem kastljósinu var beint að hátterni fjölda alþjóðlegra fyrirtækja með starfsemi meðal annars á Íslandi og víðar í álfunni. [18],[19]

Að gefa upp tekjur

En hér er ekki talað um gjaldtöku af hagnaði, heldur tekjum. Tekjur eru allt streymi fjármagns inn í félag en hagnaður eru tekjur að frádregnum gjöldum. Ef við ættum að setja okkur í spor raforkuframleiðanda sem greiðir leigugjöld af tekjum sínum, hvernig getum við þá lágmarkað leigugjöldin? Hvernig færum við til tekjur sem orkuframleiðandi?

Háð samþykki Orkustofnunar, er í dag svo að segja hverjum sem er sem sýnt getur fram á fullnægjandi fjárhagslegan styrkleika heimilt að stofna til félags sem stundar viðskipti með raforku. Látum sem svo að félag sem rekur virkjun, og greiðir leigugjöld af öllum tekjum raforkusölu, yrði þreytt á gjaldtökuforminu, til hvaða ráða getur það brugðið?

Hægt væri að stofna annað félag í sama eignarhaldi sem sér um smásölu á raforkunni. Raforkuframleiðandinn gerir svo óhagstæðan samning um heildsöluverð til smásölufélags síns og fyrir vikið myndast litlar sem engar tekjur í framleiðslueiningunni, hvaðan leigugjöldin skulu innheimt.

Það er fyrir þessar sakir sem vanda þarf sérstaklega samninga um afnotagjöld, einkum þeim sem byggja á prósentum af tekjum sem enn er alls óljóst hvernig verða myndaðar, og þegar fram í sækir, hverjir gefa upp. Samningsákvæði þurfa að vera geirnegld, taka mið af markaðsvirði raforkunnar og byggja á óháðri mælingu framleiddra MWst.

Málsmeðferð Óbyggðanefndar á mörkun þjóðlendna á Hraunasvæði ekki hafin

Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem gegnir meðal annars. því hlutverki að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra eignarlanda. Nefndin hefur lokið umfjöllun um rúmlega 88% af flatarmáli landsins alls en á enn eftir að taka nokkur svæði til málsmeðferðar.

Svo vill til að eitt þessara mála fjallar um afmörkun þjóðlendna á Hraunasvæði, en málið er væntanlegt á borð nefndarinnar. Fyrri úrskurðir nefndarinnar hafa í flestum tilfellum tekið mið af miðhálendislínu en eins og áður var komið inn á munu mannvirki Geitdalsvirkjunar falla innan hennar og verður því að skilgreina það svæði sem iðnaðarsvæði í breyttu aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs.

Valdsvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hagsmunatengsl

Í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 5. gr. lið 3. e., er skýrt kveðið á um að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með mál er varða eignir ríkisins þar á meðal ríkisjarðir, land í eigu ríkisins og samninga vegna nýtingar vatns- og jarðhitaréttinda, náma og jarðefna á landi utan þjóðlendna.

Það verður því að teljast tortryggilegt að Ríkiseignir í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eða ef svo ber undir, fjármála- og efnahagsráðuneytið sjálft, stendur í samningaviðræðum við Fljótsdalshérað um land sem Óbyggðanefnd hefur enn ekki kveðið á um hvort skuli talið til þjóðlendna eða ekki. Er nokkuð ljóst að ráðuneytið starfar á jaðri þess valdsviðs sem því eru sett í forsetaúrskurði og er það einkar óheppilegt í ljósi þeirra fjölskyldutengsla sem komið var inn á hér að framan. [20],[21],[22],[12],[23]

Hvernig svörum við vaxandi orkuþörf?

Á okkar eylandi eru ærið margar orkulindir, en sem stendur fæst ekki úr þeim besta mögulega nýting. Við búum mörg við nokkuð gott afhendingaröryggi, en þeim gæðum er mjög misskipt milli landshluta og svæða. Takmarkanir í flutningskerfinu gera það að verkum að enn er ekki hægt að besta raforkuframleiðslu í landinu með tilliti til eftirspurnar, vatnsbúskapar og öðrum ráðandi þáttum raforkuvinnslu sem eru breytilegir eftir svæðum og veðurfari hverju sinni.

Það gefur því auga leið að uppbygging flutningskerfisins er góður kostur til að svara aukinni orkuþörf, en fyrir vikið fengist betri stýring á vatnsbúskap uppistöðulóna, og á rekstur raforkukerfisins sem heild. Öflugra flutningskerfi styrkir jafnframt dreifða raforkuframleiðslu, hvort sem er með vatnsaflsstöðvum, jarðvarmavirkjunum eða vindorkuverum. Orkuþörf mun aukast til framtíðar, einkum með orkuskiptum bílaflotans en við ættum einnig að geta horft gagnrýnum augum á aðstæður nokkurra stórnotenda raforku nú og gera áætlanir í ljósi þeirra.

Í ljósi sögunnar mætti svo færa rök fyrir því að raforkuvinnsla ætti einungis að vera á höndum opinberra eða hálf opinberra félaga, og bendir fjölmargt til að reglur um eignarhald félaga í orkuvinnslu þarfnist brýnnar endurskoðunar.

Garðar Örn Garðarsson
Höfundur er Skriðdælingur með B.Sc. próf í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík

Heimildir

[1] Dagný Hulda Erlendsdóttir. (2019, 3. mars). Kaupir meirihluta í HS Orku fyrir 37 milljarða. RÚV. 
[2] Þórður Snær Júlíusson. (2019, 23. maí). Selja helming í HS Orku til Ancala Partners og færa hlut í Bláa lóninu út. Kjarninn. 
[3] Einar Örn Gíslason. (2010, 9. júlí). Magma Energy heimilt að fara með meirihlutaeign í HS Orku. mbl.is. 
[4] Hörður Ægisson. (2018, 6. október). Félag sem vill leggja sæstreng kaupir 13 prósent í HS Orku. Fréttablaðið.
[5] Hörður Ægisson. (2019, 8. apríl). Lífeyrissjóðir bæta við sig 13 prósenta hlut í HS Orku. Fréttablaðið. 
[6] Kaupa í HS Orku fyrir 37 milljarða. (2019, 25. mars). Viðskiptablaðið. 
[7] Zak Bentley. (2018, 23. október). Investments with Macquarie ‘difficult to imagine’ amid investigation, Danish pensions say. Infrastructure Investor. 
[8] Jacob Gronholt-Pedersen. (2018, 12. desember). Danish pension giant puts new investments with Macquarie on hold. Reuters.
[9] Jarðvarmi eykur hlut sinn í HS Orku. (2019, 23. maí). Arctica Finance. 
[10] Banco de España. (2020, 6. febrúar). List of investment funds - Luxembourg. 
[11] Ríkisskattstjóri. (2020, 6. febrúar). Fyrirtækjaskrá – Arctic Hydro ehf. 
[12] Fljótsdalshérað. (2019). Geitdalsvirkjun: Verkefnislýsing fyrir tillögu að breyttu Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028. 
[13] Skipulagsstofnun. (2016, september). Landsskipulagsstefna 2015-2026 ásamt greinargerð. 
[14] David C. Ostman og Þorvarður Árnason. (2020, janúar). Kortlagning víðerna á miðhálendinu: Framhaldsverkefni um þróun aðferðafræði. 
[15] Orkustofnun. (2020, 6. febrúar). Leyfaskrá – Arctic Hydro ehf. 
[16] Rúnar Snær Reynisson. (2020, 27. janúar). Arctic Hydro borgar 3-10% af tekjum fyrir virkjanarétt. RÚV.
[17] Ríkiseignir. (2020, 6. febrúar). Um land- og auðlindir. 
[18] Bannað að nota glufur í skattalögum. (2015, 17. febrúar). RÚV.
[19] Þorsteinn Ásgrímsson. (2016, 12. febrúar). Telur millifærslur geta verið ólöglegar. RÚV. 
[20] Óbyggðanefnd (2020, febrúar). Forsíða. 
[21] Óbyggðanefnd. (2019, 26. nóvember). Yfirlitskort um stöðu þjóðlendumála á landinu öllu.
[22] Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. (2019, desember). Hálendisþjóðgarður: Tillögur og áherslur þverpólitískrar nefndar.
[23] Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Nr. 119/2018. (2018, 7. desember) 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.