Að svara kallinu

Lífið fer með okkur í ótal hringi og engin veit sína ævi fyrr en öll er. Röð tilviljana í bland við góðar ákvarðanir hafa komið mér á þann stað sem ég er í dag, einmitt þar sem mig dreymdi um að vera.

Ég hef löngum verið talskona jafnréttis og hef lagt mig fram við að taka skýra afstöðu með þeim hópum sem staðið hafa höllum fæti í samfélaginu. Þannig kom það til að ég ásamt nokkrum öðrum einstaklingum stofnuðum félagið Hinsegin Austurland og er ég formaður félagsins. Félagið hefur vakið mikla athygli og opnað umræðuna í samfélaginu fyrir málefnum hinseginfólks. Þannig verða góðar hugmyndir að veruleika til góðs fyrir samfélagið ef við höfum hugrekkið og eljuna til að fylgja málum úr garði.

Ég var spurð hvort ég vildi taka sæti á lista VG fyrir sveitastjórnarkosningarnar í nýju sameinuðu sveitarfélaga á Austurlandi sem nú ber nafnið Múlaþing. Ég sló til og endaði með því að leiða listann og upphófst ótrúlegur tími. Það sannaði sig strax að VG og þeirra áherslur áttu fullt erindi við íbúa í nýju sveitarfélagi enda hef ég fundið fyrir ómældum stuðning og hvatningu frá samfélaginu. Það er skemmst frá því að segja að ég hef fundið mína hillu. Fátt hefur veitt mér eins mikla gleði og eldmóð og starf mitt fyrir samfélagið. Í stjórnmálum hef ég fundið farveg fyrir þau málefni sem mér standa næst, umhverfismál, jafnréttismál, samgöngumál o.fl.

Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti í forvali VG í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Ég fann það í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að mikil eftirspurn er eftir nýjum og ferskum einstaklingum í pólitíkina og þó að mikið hafi verið hamrað á reynslu þá fylgir reynslunni oft ákveðin stöðnun í orðræðu og verkum.

Það sama er uppi á teningnum fyrir Alþingiskosningarnar nú, mikilvægt er að jafnvægi sé milli reynslu og nýrrar sýnar og ferskleika. Mikið hefur verið fjallað um konur í stjórnmálum og eftir því verið kallað að sterkar konur stigi fram. Ég er að svara því kalli og mun leggja mig alla fram við standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar og vera sú sterka og afgerandi rödd sem kjördæmið þarf á Alþingi Íslendinga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.