„Slagsmál, ríðingar, fyllerí“

gunnarg april1306Þeir voru eflaust margir sem skemmtu sér yfir heilastoppi Mikaels Torfasonar, ritstjóra 365 miðla, í morgun þegar hann skrifaði í leiðara Fréttablaðsins að tónlistarhátíðin Bræðslan væri haldin á Egilsstöðum. Einhver kann að segja að þar hafi komið vel á vondan því blaðið hefur ekki verið þekkt fyrir að þjónusta landsbyggðina. Þvert á móti þurfa áhugasamir lesendur hér að kaupa blaðið á „kostnaðarverði.“ (Að því er virðist hlýst enginn kostnaður af því að vera með blaðburðarfólk í næturvinnu á Höfuðborgarsvæðinu).

Þó hljóta forsvarsmenn Bræðslunnar að hafa áhyggjur af því að þrátt fyrir níu ára vinnu í markaðssetningu skuli ekki hafa tekist að skapa betri hugrenningatengsl á milli „Bræðslunnar“ og „Borgarfjarðar eystri“ en svo að ritstjórinn geri þessa villu og prófarkalesaranum yfirsjáist hún.

Annað og mögulega verra er það viðhorf ritstjórans að bæjarhátíðir séu Íslands böl sem best birtist í setningunni um að á „íslenskum bæjarhátíðum sé ölvun mikil og fullt fólk áberandi“ og rökfræðin þar í kring.

Við höfum séð þetta áður. Í fyrra var það ritstjóri vefritsins Spegilsins sem lagði út af fréttum af áflogum heimamanna á Eistnaflugi í pistli sem komst eiginlega að sömu niðurstöðu og Mikael: að best sé að halda sig heima um verslunarmannahelgina með börnunum.

Lesi maður nógu marga svona pistla fer maður kannski að trúa því að íslenskar útihátíðir einkennist af fyllerí, slagsmálum, nauðgunum og öðrum ömurlegheitum.

En miðað við frásagnir vina minna og myndir á samfélagsmiðlum er ekki annað að sjá en það hafi verið mjög gaman á öllum þessum hátíðum að undanförnu – meira að segja á Mærudögum. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er til fólk sem finnst svo gaman á bæjarhátíðum að það sækir þær aftur og aftur og aftur.

Það er kannski ágætt að glöggva sig aðeins á því hvernig fréttir sem þessar fara af stað. Slagsmál og ofbeldisverk eru fréttaefni. Við vitum það upp á okkur – ef að slagsmál byrja á staðnum sem við erum stödd þá förum við aðeins nær til þess að geta fylgst með hver sé að berja hvern og þegar búið er að skakka leikinn viljum við vita hvernig þeim gekk og af hverju þeir byrjuðu.

Og við vitum að fólk sem verður heldur fullt hagar sér heimskulega.

Á sunnudags- eða mánudagsmorgnum hringja fréttamenn gjarnan í lögregluna (kallast „löggutékk“) og spyrja hvað hafi gerst um helgina. Þegar hátíð er haldin á ákveðnum stað er honum bætt í hringilistann og þá kemur upp úr dúrnum að þar hafi verið slegist. Útkoman er fyrirsögnin „Slagsmál á Eistnaflugi,“ hvort sem þau voru fleiri eða færri en um venjulegri helgi.

Í sjálfu sér eru þetta ekki óeðlileg vinnubrögð. Það er margt fólk á hátíðinni, menn vilja spyrja frétta, þetta er annar og mögulega hlutlausari mælikvarði heldur en að hringja í ofurplöggarann sem gegnir starfi framkvæmdastjóra hátíðarinnar og hellir út úr sér lýsingarorðum í efsta stigi um hvað allt gangi frábærlega.

Og þetta er ódýrara og einfaldara en að senda blaðamann og ljósmyndara á staðinn til að kanna stemminguna af eigin raun. Fyrir utan að lesturinn verður sennilega meiri.

Vandamálið byrjar hins vegar með ofureinföldunum og ályktunum sem hljótast af þeim eins og ritstjórarnir tveir virðast gera.

Það er kannski rétt að upplýsa Mikael um að það er fyllerí á Bræðslunni. Alveg töluvert. Það er líka fullt af fjölskyldum þar á svæðinu. Börn og ungmenni umgangast þar drukkið fólk. Þar eru meira að segja líka slagsmál. Hingað til hafa það þó ekki verið mikið meira en pústrar og eftir flís af harðfiski eru allir orðnir vinir.

En þar, sem og að því er virðist á Eistnaflugi og ábyggilega víðar, hefur tekist að hamra þau skilaboð inn í gestina að skemmta sér fallega.

Það er líka rétt að upplýsa Mikael um að það dæmi sem hann tekur um ferðir með börn í miðbæ Reykjavíkur er ekki tiltakanlega vel valið. Bæjarhátíðir eru nefnilega langflestar byggðar upp með svipuðum hætti og bæjarhátíð Reykjavíkur, Menningarnótt. Það er fjölskyldudagskrá um daginn en á kvöldin tekur skemmtanalífið við.

Það er gott að fá áminningar að fara varlega í drykkjunni og að skemmta sér siðsamlega. Það er líka mikilvægt að vera ekki meðvirkur með fólki sem er á öskrandi fylleríi með börn sín meðferðis. Slíkt á auðvitað ekki að líðast. En að dæma bæjarhátíðir sem fyllerísfestivöl og leiðindi út frá óásættanlegri hegðun nokkurra heimskra einstaklinga er rökleysa.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.