Orkumálinn 2024

Hei! Zú! Ég er að tala við þig*

Undanfarna daga hafa hundruð Íslendinga skráð sig í félag zúista á Íslandi. Þegar ég sá fyrst fréttir af þessu býst ég við að mér hafi fyrst orðið á að spyrja, eins og flestum Íslendingum, hvað í ósköpunum eru zúistar?

Manni er nokkur vorkunn því ég leyfi mér að fullyrða að langflestir þeir sem skráð hafa sig í félagið hafa ekki hugmynd um það heldur.

Leit á netinu segir mér að um sé að ræða form af fjölgyðistrúarbrögðum Súmera. Fram kom í gögnum félagsins að það hefði tengsl við trúfélag zúista í Delawere í Bandaríkjunum. Leitin segir mér líka að félagið fékk skráningu sem trúfélag 2013. Síðan sór skráður stofnandi þess það af sér og Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra skoraði á meðlimi þess að gefa sig fram.

Síðan þá hefur félagið eignast nýja meðlimi og nýja stjórn. Þetta er svo sem ekki flókið. Einhverjir sáu tækifæri til að taka yfir skráð trúfélag í eigin tilgangi og gerðu það.

Samkvæmt heimasíðu félagsins er höfuðmarkmið zúista að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög og að núverandi gagnagrunnur yfir trúfélagaaðild landsmanna verði lagður af. Þeir hyggjast líka gefa meðlimum tækifæri á að fá þá fjármuni sem ríkið greiðir félaginu í þeirra nafni endurgreidda, eða láta þá renna til góðgerðarmála.

Ég ætla að ganga svo langt að gefa mér að enginn hafi skráð sig í félagið til að iðka zúisma og að tilgangur þeirra sem nú hafa gengið í félagið sé annað af tvennu. Að fá peninginn í vasann, eða að mótmæla núverandi löggjöf um trú- og lífsskoðunarfélög.

Ég ætla ekki að fjölyrða um fyrri liðinn. Það að skrá sig í trúfélag, án þess að trúa kennisetningum þess, til þess eins að hagnast persónulega er ekki á tiltakanlega háu plani siðferðislega. Ef þú ert tiltekinnar trúar skaltu skrá þig í viðkomandi trúfélag. Ef þú ert trúlaus en hefur sterkar skoðanir á lífinu og tilverunni sem rúmast innan þess sem kallast lífsskoðunarfélag, skráðu þig þá í það félag. Ef þú ert trúlaus og hefur ekki lífskoðanir sem jafnast til trúarbragða, nú stattu þá utan trúfélaga. Það er hið heiðarlega.

En flestir zúistar eru væntanlega að mótmæla núverandi löggjöf um trú- og lífskoðunarfélög. Ég get skilið það sjónarmið. Sem slíkur gjörningur þá er framganga forsvarsmanna zúista með best heppnuðu mótmælum sem sést hafa lengi.

Löggjafinn hefur lengi tryggt trúfélögum ýmsa vernd og stuðning. Árið 2013 var lögum um trúfélög breytt á þann veg að lífsskoðunarfélög töldust jafngild trúfélögum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að mínu viti hlýtur tvennt að ráða því að löggjafinn hefur haft þá afstöðu að styðja og vernda starfsemi trúfélaga og ákveðinna lífsskoðunarfélaga. Í fyrsta lagi er iðkun trúarbragða skýlaus réttur allra manna. Það er hluti af mannréttindum hvers og eins og mega eiga sér trú og iðka hana. En í öðru lagi verður að líta svo á að í núverandi löggjöf felist líka sú afstaða löggjafans að það sé beinlínis æskilegt að fólk rækti trú sína eða lífsskoðanir.

Gagnstætt því sem margir vilja halda fram eru trúarbrögð afl til góðs. Að rækta samband við æðri mátt getur breytt lífi hvers manns til hins betra. Fyrir þá sem ekki trúa á æðri mátt hefur löggjafinn komið því þannig fyrir að ýta undir virka ástundun lífskoðana sem miða við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Það er líka jákvætt.

Sýslumanninum á Norðurlandi eystra er með reglugerð falið að sjá um skráningu og eftirlit með skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum. Starfsemi þeirra verður að standast skilyrði sem fram koma í 3. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að ef félag uppfyllir ekki þessi skilyrði lengur geti sýslumaður ákveðið að afskrá trúfélag að undangengnu ákveðnu ferli.

Félag zúista er ekki trúfélag. Það er heldur ekki lífsskoðunarfélag í skilningi laganna. Það er í besta falli áhugafélag um að breyta löggjöf. Það er réttur hvers og eins að hafa skoðun og berjast fyrir henni. Það geta forsvarsmenn og aðrir zúistar gert áfram sem þrýstihópur eða jafnvel stjórnmálaafl. En þau geta ekki ætlast til að halda skráningu sinni sem trúfélag. Með eigin orðum og yfirlýsingum hafa þau tekið skýrt fram að markmið þeirra er ekki ástundun trúarbragða.

Þau ættu með réttu lagi að afskrá félagið sjálf.

*Aðrir titlar sem komu til greina voru: „Hver er að fara á svig við löggjöf um trúfélög? Esa Zú?“ og svo „Zú höndlar ekki sannleikann!“ (Sagt með bestu Jack Nicholson eftirhermu sem völ er á.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.