Orkumálinn 2024

32 Hvers vegna borðar fólkið ekki kökur?

Traust samgöngunet er forsenda þess að þjóðir blómgist og dafni.  
Ný tækni í fjarskiptum bætir nýjum streng í þetta hljóðfæri en saman eru góðar samgöngur og  traust boðskipti forsendur framfara.  
Austfirðingar hafa þurft að búa við lakari samgöngur en aðrir landsmenn.   Afleiðingarnar hafa ekki látið standa á sér, þrátt fyrir að öll skilyrði séu fyrir hendi til að á Austurlandi fjölgi fólki þá er því öfugt farið.

 

Mér þykir líklegt að eftir nokkra áratugi verði það ráðgáta í hugum þess fólks sem þá býr á Austurlandi og getur ekið greiðar leiðir af Héraði um jarðgöng til Vopnafjarðar eða til Seyðisfjarðar og síðan hina fögru fjarðaleið um Mjóafjörð, Norðfjörð, Eskifjörð, Reyðarfjörð til Fáskrúðsfjarðar, hvers vegna lagt var  í allan þennan kostnað við að leggja vegi upp á fjöll, þegar önnur og miklu skynsamlegri úrræði voru til.
Þegar íbúar Parísar báðu konung sinn um brauð spurði drottningin franska undrandi, hvers vegna borðar fólkið ekki kökur?   Á sama máta gerist það á Íslandi árið 2002, þegar austfirskt fólk spyr:- Hvers vegna er okkur  ekki skapað  öruggara og betra samfélag með því að leggja vegina í gegnum fjöllin?.  Þá svara hinar íslensku drottningar steinhissa: -Hvers vegna farið þið ekki  yfir fjöllin?, þar eru svaka flottir vegir.
Því miður virðast sumir íslenskir stjórnmálamenn vera jafn veruleikafirrtir og franska drottningin. Þeir skilja ekki ákall almennings um öryggi, um réttlæti, um virðingu.


Þetta er svo dýrt þetta kostar marga miljarða segja menn og dæsa. Það er gert sömu dagana og menn sem framleiddu rússneskt ropvatn bjóðast til að að kaupa þjóðbankana, annan eða báða eftir atvikum fyrir vasapeningana sína, og strákurinn hans Jóhannesar í Bónus  selur nokkrar tuskubúðir í Bretlandi og fær fyrir þær í hagnað sem svarar verði jarðgangna milli Vopnafjarðar og Héraðs og Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.


Því verður ekki á móti mælt að óöryggi í samgöngum er ein megin orsök byggðaröskunar.  Þegar arðsemi samgöngubóta er metin þá gleymist oftast að leggja mat á óbeinan kostnað sem verður vegna byggðaröskunar.  
Þegar metinn er kostnaður við gerð jarðganga til austfirsku byggðanna verður að reikna á móti hvað gerist ef fólki verður áfram vísað til Heiðar.


Hvað kostar að leggja af byggð í einu plássi?


Hvað kostar að leggja af mannvirki eins og skóla, sjúkrahús, gatna-og veitukerfi og hafnarmannvirki svo nokkuð sé nefnt af opinberum eignum. Hvað kostar það samfélagið að afskrifa íbúðarhús, atvinnuhúsnæði og aðrar eignir sem falla úr notkun við eyðingu byggðar.  
En vegurinn er góður segja menn. Vissulega hafa verið byggðir góðir vegir yfir fjallvegi á Austurlandi en þeir eru á nokkrum stöðum í yfir 500 metra hæð yfir sjávarmál. 


Meinið er að fólkið sem býr við samgöngur sem þessar finnur sig ekki öruggt þar sem þessar aðstæður hefta þá þrá sem Austfirðingar rétt eins og annað fólk hafa til að bera sig um, eftir því sem hugur stendur til og þegar hentar. Það vill sækja menningarviðburði og vera þátttakendur í leik og starfi í því samfélagi sem það kýs að búa í án þess að þurfa hálft árið að vera að stilla þá löngun eftir veðurlagi í 500 metra hæð yfir sjávarmáli.


Það vill svo vel til að hægt er að benda á dæmi þess hvað velheppnað samgöngumannvirki getur gert til að brjóta niður þröskulda oft ósýnilega og huglæga.


Fyrir nokkrum árum vöktu nokkrir framsýnir Vestlendingar máls á því að gera mætti göng undir Hvalfjörð, öllum landsmönnum til hagsbóta en ekki síst byggðum vestan Hvalfjarðar.   Segja má að hugmyndin hafi fengið misgóðar undirtektir og margir sögðu "undrandi" hvað meina þessir menn, það er fínn vegur fyrir Hvalfjörð, hvað vilja menn hafa það betra?   


Hvað sem leið úrtölu röddum þá voru gerð göng undir Hvalfjörð með þeim afleiðingum að byggðir vestanlands hafa fengið nýjan kraft.  -Eru til þeir menn í dag sem telja að Hvalfjarðargöngin hafi verið óraunhæf?   -Ég trúi því varla.
Hugmyndir þær sem Austfirðingar hafa á nýjan leik ýtt á flot um tengingu byggða á Austurlandi með jarðgöngum eru af sama toga og Hvalfjarðargöngin voru fyrir svo sem áratug.


Þetta er draumsýn, sem byggir á því að við viljum efla byggð á Austurlandi, við erum sannfærð um að þetta er leiðin, að tengja byggðirnar með samgönguneti sem skapar samhent samfélag þar sem verður enn betra og eftirsóknarverðara að búa í heldur en er í dag.
Við stefnum okkar hugmyndum ekki gegn neinum þeim jarðgangaáætlunum sem uppi eru í dag. Við styðjum af alefli þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar.   En við erum framsýn og viljum taka þátt í að móta okkar nánasta samfélag til lengri framtíðar.
Ég heiti á Austfirðinga að fylkja sér á bak við þessa hugmynd og ég trúi því og treysti að allir framfarasinnaðir  stjórnmálamenn   komi til liðs við okkur og sýni með því  framsýni og djörfung og skrifi með því kafla í söguna sem verður þeim til vegsauka.
 
Fellabæ 9. september 2002. 
Hrafnkell A. Jónsson, áhugamaður um velferð Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.