Austfirskur fréttaannáll 2013

Article Index

mordmal adalmedferd egs webSegja má að skin og skýrir, eða öllu heldur glaðasólskin og snjókoma hafi skipst á í fréttum af Austurlandi árið 2013. Sumarið var einstaklega gott en inn á milli komu miklir ófærðarkaflar.

Friðrik Brynjar Friðriksson var á haustmánuðum dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að myrða Karl Jónsson á Egilsstöðum í maí. Hann þótti ekki eiga sér neinar málsbætur.

Húsbyggjendur og fleiri tóku á sig ábyrgð við viðgerð á nýlegum húsum sem skemmd voru af myglusveppi. Myglan birtist á stöðum þar sem menn höfðu áður talið að hún væri ekki.

Alvarlegar fréttir bárust af lífríkinu í Lagarfljóti sem hafði hnignað mjög eftir virkjunarframkvæmdir en mannlífið í fjórðungnum þótti hafa eflst.

Menningarstarf fjórðungsins þótti skara fram úr og Austfirðingar eignuðust heimsmeistara- og ólympíufara á íþróttasviðinu.

Austurfrétt skoðaði það helsta sem bar fyrir í fréttum af Austurlandi á árinu.


nesk 29012013 4Janúar:

Lesendur Austurfréttar kusu Árna Þorsteinsson Austfirðing ársins 2012. Frásögn hans af því hvernig hann komst lífs af úr snjóflóðunum sem féllu á Neskaupstað árið 1974 hreyfðu við mörgum.

Gróðrarstöðin Barri var úrskurðuð gjaldþrota eftir að hafa farið í greiðslustöðvun í árslok 2012. Fjárhagsleg endurskipulagning bar þar ekki árangur. Nýtt félag var stofnað á grunni þess gamla og hélt áfram rekstri.

Nær öllum umsóknum var hafnað í Vaxtarsamning Austurlands. Margir umsækjendur voru sárir en úthlutunarnefndin sagði að til stæði að fylgja betur eftir umsóknarkröfum.

Breyting varð á úthlutun hreindýraveiðileyfa. Fleiri leyfi voru gefin út sunnar í fjórðungnum en þangað virðast dýrin hafa fært sig.

Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við þrjú frávik á starfsleyfi Alcoa Fjarðáls í kjölfar flúormengunar sumarið áður. Fyrirtækið lofaði úrbótum.

Aftakaveður gerði í lok mánaðarins og lokaði flestum fjallvegum í nokkra daga. Þorrablótsgestir urðu veðurtepptir á Seyðisfirði, brauð kláraðist úr hillum verslana í Neskaupstað, talning tafðist í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi og bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs varð veðurtepptur á Vopnafirði.

Tómar brauðhillur í Neskaupstað. Mynd: Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir


rolla brekkugerdi webFebrúar:


Málefni íbúa í húsum sem myglusveppur hefur grasserað í voru rædd á opnum fundi á Egilsstöðum. Nýleg hús voru skemmd bæði þar og á Reyðarfirði. Þar var fullyrt að leikskólinn á Egilsstöðum væri ekki með myglusvepp en þó ákveðið að leita betur. Það var mönnum því áfall þegar sveppur fannst í skólabyggingunni.

Tilkynnt var að Gísli Jónatansson myndi hætta sem kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði eftir fjörutíu ára starf. Hann var kvaddur um haustið um leið og haldið var upp á 80 ára afmæli kaupfélagsins.

Forsvarsmenn austfirsku sveitarfélaganna sömdu um almenningssamgöngukerfi sem átti að teygja sig yfir allan fjórðunginn. Í Fjarðabyggð var deilt um gjaldskrá innan sveitarfélagsins og hvort rétt væri að þeir sem þyrftu að fara um lengri leið greiddu hærra fargjald.

Borgfirðingum gramdist að Síminn ætlaði að leggja ljósnet á alla aðra þéttbýlisstaði á Austurlandi en þangað. Farsímasamband var eflt í staðinn

Fyrsta skóflustungan var tekin að nýju hjúkrunarheimili á Egilsstöðum sem er framkvæmd upp á rúman milljarð. Enn var þó ósamið um bygginguna sjálfa en það var gert um vorið.

Kind sem fannst eftir 80 daga veru í snjóskafli í Fljótsdal vakti mikla athygli fyrir að hafa þraukað. Reyðfirðingar urðu fimmfaldir Íslandsmeistarar í glímu og platan með Kjuregej fékk sérstök verðlaun á íslensku tónlistarverðlaununum.

Bar sig vel eftir 80 daga í skaflinum. Mynd: Jóhann F. Þórhallsson

fjardarheidi crash 18032013 il snyrtMars:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, var kýldur í andlitið á Góublóti í Brúarási. Árásarmaðurinn sá fljótt að sér og baðst afsökunar. Kjaftshöggið virtist lítið fá á Sigmund sem flutti lögheimili sitt að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð. Leikkonan Saga Garðarsdóttir reyndi síðar að fara heim til hans til að afhenda honum bréf en mun ekki hafa komist lengra en í Fáskrúðsfjörð.

Ófært var á Fjarðarheiði. Ungmennum á leið í Egilsstaði var illa brugðið þegar bíllinn sem þau voru í snérist í hálfhring þegar snjóplógurinn keyrði aftan á þau.

Menningarmiðstöðin Skaftfell fékk Eyrarrósina, sem er viðurkenning afhent framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni. Austfirðingar tóku sig saman og stofnuðu samtök fólks í skapandi greinum.

Einar Rafn Haraldsson tilkynnti um að hann myndi hætta sem framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Kristín Albertsdóttir kom í hans stað.

Höttur komst í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik.

Í blindbyl á Fjarðarheiði. Mynd: Ingibjörg Lárusdóttir

blak throttur hk meistarar 06042013 0307 webApríl:

Sá sogaratburður átti sér stað að þriggja ára stúlka, Lilja Rán Björnsdóttir, lést í fjórhjólaslysi í Breiðdal. Safnað var fyrir fjölskyldu hennar. Minningarsjóður var stofnaður í hennar nafni og úthlutað úr honum í fyrsta sinn skömmu fyrir jól.

Þróttur Neskaupstað fagnaði Íslandsmeistaratitli í blaki kvenna eftir oddaleik um titilinn við HK. Síðasti leikurinn fór fram fyrir fullu húsi í Neskaupstað. Liðið varð einnig deildarmeistari en tapaði bikarúrslitaleiknum í vor.

Fréttir bárust af því að Lagarfljótið væri „dautt." Rannsóknir sýndu fram á mikla fækkun fiska og fugla við fljótið í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar.

Eftir langa baráttu tóku Vopnfirðingar við rekstri hjúkrunarheimilisins Sundabúðar. Austfirsku lögregluembættin kvörtuðu undan fjárskorti og að varla væri hægt að sinna almennilegri löggæslu í fjórðungnum.

Mánuðurinn var annars undirlagður af kosningabaráttunni. Heilbrigðis- og samgöngumál voru ofarlega í umræðunni. Skuldaleiðréttingar, líkt og annars staðar, en Framsóknarflokkurinn fékk fjóra þingmenn í Norðausturkjördæmi.

Framboðsfundur Sjálfstæðismanna á Egilsstöðum vakti mikla athygli fyrir harða vörn oddvitans í kjördæminu, Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrir formanninn Bjarna Benediktsson. Kristján sagði þar meðal annars að hvar sem fundað væri vildu menn ræða Bjarna og hans stöðu. Því yrði flokkurinn að breyta.

Þróttarstúlkur fagna Íslandsmeistaratitlinum. Mynd: GG

bonusblokk 06052013 0052 webMaí:

Lið Fjarðabyggðar fagnaði sigri í spurningakeppninni Útsvari í sjónvarpinu en Reykvíkingar voru mótherjarnir í úrslitakeppninni.

Aðalverktaka við nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði var vikið frá verkinu eftir langan vandræðagang og skuldir við undirverktaka. Verkið var orðið vel á eftir áætlun.

Vandræði voru með vatnabúskap við Kárahnjúkavirkjun og í álverinu á Reyðarfirði voru undirbúnar aðgerðir ef draga þyrfti úr framleiðslu vegna skorts á rafmagni.

Elvar Jónsson var skipaður skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Þórður Júlíusson, sem var settur skólastjóri um veturinn, vakti mikla lukku með að taka að sér hlutverk í uppfærslu leikfélags nemenda á leikverkinu Grease.

Austfirðingar voru slegnir þegar fréttir bárust af því að karlmaður hefði látist með voveiflegum hætti í íbúð sinni í fjölbýlishúsi á Egilsstöðum. Um leið var það staðfest að lögreglan væri með í haldi karlmann á þrítugsaldri grunaðan um verknaðinn. Sá látni var Karl Jónsson, frá Galtastöðum fram en Friðrik Brynjar Friðriksson sat í haldi grunaður um verknaðinn.

Hallveig Guðjónsdóttir frá Heiðarseli gaf út sínu þriðju ljóðabók, 90 ára að aldri. Sögur og ljóð sem endurspegluðu uppvöxt hennar í Jökuldalsheiði voru áberandi í bókinni.

Frá morðrannsókinni á Egilsstöðum. Mynd: GG


heradssandur vatnvextir 05062013Júní:

Eftir harðan vetur komu mikil hlýindi. Ár margfölduðust að stærð og á Vopnafirði var björgunarsveitin meðal annars send í að bjarga skít. Lagarfljótið flæddu um allt í Héraðsbúa og óttast var að jökulvatni myndi drepa fiska í ferskvatnsám.

Fleiri afleiðingar vetrarins komu í ljós. Kalskemmdir ollu milljóna tjóni á túnum bænda.

Seyðfirðingar héldu mikla hátíð í tilefni 100 ára afmælis íþróttafélagsins Hugins. Þeir stóðu fyrir atburði í hverjum mánuði ársins af því tilefni. Í Neskaupstað var haldið upp á 90 ára afmæli Þróttar.

Austfirðingum var boðið að skoða skip. Annars vegar kom skólaskúta franska sjóhersins til Fáskrúðsfjarðar, hins vegar bauð skipstjórinn heim í Norrænu á Seyðisfirði.

Í ferð forseta Íslands til Þýskalands var hulunni svipt af samstarfi Bremenports við sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp um mögulega stórskipahöfn í Finnafirði.

Ný rafvædd fiskimjölsverksmiðja Eskju var gangsett á Eskifirði.

Lagarfljótið flæðir við Héraðsflóa. Mynd: GG


tjaldsvaedi egs 100713 0005 webJúlí:

Ferðamannaflaumur skall á Austurlandi. Öll tjaldsvæði fylltust af sólarþyrstum Íslendingum og flæðilínur samskiptamiðla af sólarmyndum úr forritinu InstaWeater.

Borgfirðingar stofnuðu Framfarafélag en áhugi er meðal ungs fólks að flytja heim til staðarins og skapa sér þar framtíð

Verktaki við byggingu bryggju á Djúpavogi sveik erlenda starfsmenn um bæði aðstöðu og laun. Þrýstingur frá sveitarfélaginu varð meðal annars til þess að gengið var í málið og verktakinn sviptur verkinu.

Eysteinn Hauksson var leystur undan störfum sem þjálfari knattspyrnuliðs Hattar. Um mitt mót hafði liðið ekki unnið leik og var neðst í annarri deild. Fyrirliðinn Birkir Pálsson tók við liðinu út leiktíðina.

Bandaríski tónlistamaðurinn John Grant var aðalnúmerið á Bræðslunni, fjöldi gesta mætti á Eistnaflug sem var nefnd sem ein besta tónlistarhátíð landsins og listahátíðin LungA vakti alþjóðlega athygli.

Sjómenn voru áberandi á tekjulistum Austurfréttar. Einn úr þeirra hópi, skipstjórinn Sturla Þórðarson, var skattakóngur.

Fullt tjaldsvæðið á Egilsstöðum í júlí. Mynd: GG

mygluhus vidgerd 0002 webÁgúst:

Íbúi á Seyðisfirði réðist inn á heimili lögreglumanns og hótaði heimilisfólki þar lífláti. Á Egilsstöðum var leitað að brennuvargi sem kveikt hafði í þremur bílum.

Verktakar við gerð Norðfjarðarganga fóru að koma sér fyrir á Eskifirði og byrjað var að gera vegslóða að væntanlegum göngum Norðfjarðarmegin.

Þórunn Anna María Sigurðardóttir, frá Skipalæk í Fellum, lét ekki aldurinn á sig fá heldur klifraði á hæsta tind Dyrfjalla, ríflega áttræð að aldri.

Viðgerðir hófust á mygluhúsum sem ÍAV reisti á Egilsstöðum og Reyðarfirði en samkomulag um skiptingu ábyrgðarinnar milli hönnuða, verktaka, tryggingarfélaga og þeirra sem lögðu til efnið náðist um vorið. Illa gekk að fá austfirska iðnaðarmenn í verkið.

Aðalmeðferð fór fram í morðmálinu fyrir héraðsdómi Austurlands. Friðrik Brynjar Friðriksson hélt fram sakleysi sínu en sérfræðingar lögreglu hröktu flest sem fram kom í hans framburði. Fresta varð aðalmeðferðinni eftir tungumálaörðugleika við skýrslugjöf þýsks meinafræðings í gegnum síma.

Frá viðgerð í Votahvammi. Mynd: GG


djupi 16092013 4September:

Sláturfélag Austurlands var úrskurðað gjaldþrota. Félagið hafði opnað kjöt- og fiskbúð á Egilsstöðum í maí.

Ferðamenn leituðu skjóls með tárin í augunum á Djúpavogi eftir krappa lægð. Miklar tafir urðu á flugi og fjárskaði hjá bændum þar sem mikil ofankoma fylgdi hvassviðrinu og náði heim að húsum. Dæmi munu hafa verið um að kindur hafi hreinlega fokið fyrir björg.

Á Eiðum var 100 ára afmæli Eiðaskóla fagnað og í Fjarðabyggð undirbúnar tökur á breskum sjónvarpsþáttum.

Austfirskir íþróttamenn uppskáru vel. Fjarðabyggð sigraði í þriðju deild karla í knattspyrnu og Huginn fylgdi með upp í aðra deild. Einherji vann þriðju deildina og Ólafur Bragi Jónsson varð heimsmeistari í torfæru. Þjálfaraskipti Hattar skiluðu litlu og liðið féll.

Malbik flagnaði af veginum í Hamarsfirði í aftakaveðri. Mynd: Ólafur Björnsson


forseti faskrudsfjordur 0036 webOktóber:


Héraðsdómur Austurlands dæmdi unga konu á Egilsstöðum fyrir meiðyrði á Facebook gegn Agli Einarssyni, Gillzenegger. Sólarhring tók að safna fyrir 900.000 króna refsingu og sakarkostnaði sem hún var dæmd til að greiða. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi síðar ummæli annarrar stúlku af svipuðum toga ómerk en gerði henni ekki refsingu. Lagasérfræðingar sem Austurfrétt ræddi við bentu á að ekki væri nýtt að dómstólar túlkuðu lögin á ólíkan hátt.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti Fjarðabyggð. Hann heimsótti skóla, gaf sér góðan tíma til að ræða við nemendur, veitti efnilegu fólki viðurkenningar og talaði um málefni Norðurslóða.

Tuttugu stiga hiti mældist þann 10. október. Annan dag í mánuðinum ferjuðu björgunarsveitir 300 manns úr rútum af Fjarðarheiði.

Barkabólgan sem greindist haustið 2012 á Egilsstaðabúinu var talin upprætt án þess að slátra þyrfti öllum gripum. Ekki er enn ljóst hvernig veikin barst þangað.

Nýr vegur var formlega opnaður til Vopnafjarðar og 100 milljóna viðsnúningur á rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar vakti mikla athygli.

Fljótsdalshérað keypti reiðhöllina á Iðavöllum á uppboði. Meirihluti bæjarstjórnar sat hjá þegar samningurinn var staðfestur.

Gamla frystihúsinu á Reyðarfirði var breytt í veislusal fyrir fjölsótt karlakvöld. Hreyfivika á Fljótsdalshéraði hlaut alþjóðlega viðurkenningu og menningarsamningur Austurlands þótti skara fram úr öðrum.

Friðrik Brynjar Friðriksson var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar fyrir morðið á Karli Jónssyni. Hann taldist ekki eiga sér neinar málsbætur.

Forsetinn í heimsókn í skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði. Mynd: GG


nordfjardargong bomba hanna birna webNóvember:

Tveir sjómenn á leið heim til Hafnar úr róðri frá Breiðdalsvík drýgðu hetjudáð þegar þeir vöktu og björguðu sjö manna fjölskyldu úr brennandi húsi í Berufirði.

Austurbrú stóð fyrir stórri ráðstefnu um atvinnumál í fjórðungnum. Þar var meðal annars rædd hugmynd um hálendisveg norðan vatnajökuls, fiskeldi og tækifæri á Norðurslóðum.

Það féll þó í skuggann af ósk forsvarsmanna Smyril-Line um að ræða við Fjarðabyggð um möguleikann á að hafnir þar yrðu framvegis viðkomustaður ferjunnar Norrænu, að minnsta kosti yfir vetrarmánuðina.

Bátaverksmiðjan Rán á Djúpavogi afhenti fyrsta bátinn til kaupanda. Haldið var íbúaþing um framtíð byggðar á Breiðdalsvík en gleðin snérist fljótt upp í vonbrigði þegar ljóst var að enginn auka byggðakvóti kæmi í byggðarlagði.

Mikil gleði var í Fjarðabyggð þegar byrjað var að sprengja fyrir nýjum Norðfjarðargöngum frá Eskifirði. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að sprengja Norðfjarðarmegin í janúar. Göngin eiga að vera tilbúin árið 2017.

Á Djúpavogi hefur skólabörnum fjölgað svo að grunnskólinn er sprunginn. Á Dalatanga mældist 20 stiga hiti þann 20. nóvember.

Rostungar voru meðal þeirra ferðalanga sem heimsóttu Austurland í sumar og sáust í Reyðarfirði, Seyðisfirði, á Borgarfirði og loks í Mjóafirði.

Erna Friðriksdóttir, skíðakona, hélt utan til Bandaríkjanna til æfinga fyrir vetrarólympíuleika fatlaðra og jólatréð við Kaupfélagið á Egilsstöðum hefur aldrei verið stærra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sprengdi fyrstu sprenginguna fyrir nýjum Norðfjarðargöngum og varð þar með fyrsta konan til að vinna slíkt verk hérlendis. Mynd: GG


rutubjorgun 09102013 nikkibraga 2 webDesember:

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms Austurlands um að hafna lögbanni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á akstur Sternu með farþega milli Hafnar og Egilsstaða. SSA taldi aksturinn brjóta gegn einkaleyfi sambandsins um almenningssamgöngur. Því höfnuðu dómstólarnir. Framkvæmdastjóri Sternu sakaði SSA um stjórnsýsluklúður en forsvarsmenn sambandsins sögðu grunninn fyrir almenningssamöngum sveitarfélaganna brostinn.

Skólamál voru umdeild við gerð fjárhagsáætlana. Í Neskaupstað var hart deilt um hvort færa ætti Nesgötu niður fyrir væntanlega leikskólabyggingu á Neseyri. Á Héraði var ákveðið að fækka bekkjum í Hallormsstaðarskóla.

Síldarvinnslan seldi Beiti og fékk til sín togara frá grænlensku dótturfélagi sem mun fá nafnið Beitir. Nýja skipið kom til hafnar á Þorláksmessu.

Eldur kom upp í mannlausum enda íbúðarhúss í Neskaupstað. Að mestu tókst að bjarga annarri íbúð í húsinu. Slökkvistarf var erfitt í mikilli hálku.

Leitað var að skipverja af erlendu flutningaskipi sem kom til Reyðarfjarðar. Leitin hefur ekki enn borið árangur.

Árið var gott fyrir austfirska ferðamennsku þótt að hluta væri það litað af miklum deilum um framtíðarstaðsetningu flugvallarins í Reykjavík. Hugmyndir um nýja gönguleið á milli Lóns og Fljótsdals, Austurstræti, vöktu mikla athygli og austfirsk ferðaþjónustuverkefni fengu háa styrki til uppbyggingar. Hjá Tanna Travel urðu kynslóðaskipti þegar Díana Mjöll Sveinsdóttir tók við forstjórahlutverkinu af föður sínum.

Þrátt fyrir aðgerðir Fjarðaáls mældust flúorgildi í grasi í Reyðarfirði enn há. Talsmenn fyrirtækisins sögðu gott sumar stærstu skýringuna. Kastljós fjallaði um málið og þótti sumum sem myndavalið í sjónvarpinu vera til þess fallið að sverta álverið.

Fjármunum var heitið til rannsóknaborana fyrir göng undir Fjarðarheiðagöng. Vegurinn yfir heiðina lokaðist eina ferðina enn í óveðri um jólin. Björgunarsveitarmenn fóru í átta tíma útkall til að koma lækni frá Norðfirði til móts við sjúkling frá Djúpavogi sem var á leið í sjúkraflug á Egilsstöðum á jólanótt.

Austfirskir björgunarsveitarmenn þurftu oft að aðstoða ferðalanga á árinu. Fjórar björgunarsveitir tóku þátt í átta tíma útkalli á aðfangadagskvöldi. Mynd: Nikulás Bragason.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.