LAust1: 10.06.20

Mörkin á milli geðheilsu og geðveiki eru að geta séð hvort vitleysan í hausnum á þér sé marktæk eða ekki. Ég er ekki með heimildir fyrir þessu en ég held að þetta sé stundum sagt. Þannig þegar þú ert farinn að taka mark á þeirri vitleysu í hausnum á þér sem venjulega væri ekki talin marktæk, þá ertu orðinn geðveikur.

Ég gríp sjálfan mig stundum við það að vera geðveikur, sem þýðir auðvitað að ég sé ekki geðveikur. En ég geri mjög oft tengingar milli hluta sem ég held að fólk myndi almennt ekki gera. Ég sé til dæmis reglulega ummerki þess að líf mitt sé sviðsett. Stundum líður mér eins og fólk sé að reyna að hrinda af stað ákveðinni atburðarás, eins og það vinni eftir handriti. En stundum líður mér eins og ég taki eftir mistökum í leikstjórn, einskonar villum í handritinu eða hlutum sem ég ætti ekki að taka eftir.

Kvikmyndin The Truman Show kom út ári áður en ég fæddist, hún fjallar um mann sem kemst að því á fullorðinsaldri að líf hans hafi verið sviðsett, tekið upp og gefið út sem raunveruleikaþáttur. Ætli ég hafi ekki verið 17 ára þegar ég fattaði að þessi mynd var gerð til þess að afvegaleiða mig í leit minni að sannleikanum. Ég þori varla að minnast á kenningar mínar um sviðsetningu lífs míns því þá segir fólk að ég sé bara að ímynda mér, að þetta gerist bara í bíómyndum. Þetta var auðvitað snilldar hugmynd hjá leikstjóranum, það er hvergi smuga fyrir mig til að koma sannleikanum upp á yfirborðið. Ég held að ef ég færi að gera eitthvað mál úr þessu eins tómhentur og ég er myndi það bara ýta undir áhorf þáttarins. Þetta er töluverð klípa sem ég er í. Ég veit ekki hverjum ég get treyst þar sem fólk er að fá borgað fyrir að leika hlutverk í lífi mínu. Hvernig sem þessu er háttað þá er mér alveg haldið í myrkrinu, ég veit ekkert.

Mér finnst leiðinlegt að fá ekki að vera partur af þessu, að geta ekki séð neinar tölur. Ég veit til dæmis ekkert um vinsældir þáttarins, það skiptir mig máli. Ég vil ekki vera á lista með skrýtnum japönskum raunveruleikaþáttum þar sem keppt er um hver getur þeytt sundlaug fulla af rjóma með því að busla í henni. Ég vil vera á lista með Kardashian fjölskyldunni eða Bachelornum. Möguleikarnir væru svo mikið meiri ef ég fengi að taka þátt í framleiðslunni. En hugmyndin er auðvitað sú að þetta sé allt náttúrulegt, að sviðsetningin sé alvöru.

Að svo stöddu virðist dagskrárgerð lífs míns frekar óhjákvæmileg svo ætli ég haldi ekki bara áfram dag frá degi að lifa mínum hversdegi, svo allir geti notið þess. En það er kannski vert að nýta tækifærið til að reyna að koma því til dagskrágerðarfólksins að mér þætti gaman að fá bita af kökunni sem bökuð er úr mér.

Austurfrétt og Austurglugginn birta næstu vikur sýnishorn úr verkum sem verða til hjá þeim sem sinna skapandi sumarstörfum á vegum Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar undir merkjum LAust. Þetta er brot úr bók sem Viktor vinnur nú að en hún er væntanleg í lok sumars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.