Reykjavík er ömurleg – farið frekar austur!

Höfuðborgin Reykjavík fær á baukinn á lista sem breski netmiðillinn The Independent birti nýverið um óvingjarnlegustu borgir heims. Miðillinn hvetur samt sem áður til Íslandsferða en annars áfangastaðar.


„Ég elska Ísland og Íslendinga en ég verð að segja að í Reykjavík fann ég margt fólk sem mér fannst forvitnilega furðulegt,“ skrifar Nicola Trup, ritstjóri ferðadálks The Independent.

Hún segir að Reykvíkingar séu ekki beinlínis óvingjarnlegir en starfsmenn upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn hafi þar virst undrandi á að hún hafi spurt til vegar og ferðaskipuleggjendur hafi móðgast yfir að hún vildi láta athuga aftur fyrir sig hvort bókunin væri ekki rétt.

Í sviga við umsögnina ráðleggur hún lesendum annan áfangastað. „Fyrir hlýrri móttökur skuluð þið fara til Austurlands – mér fannst það mun vingjarnlegra.“

Reiðir leigubílstjórar, dónalegir þjónar, lögregluþjónar sem heimta mútur, svindl á ferðamönnum og algjört sinnuleysi koma við sögu í öðrum borgum á listanum svo sem Dallas, Miami, Prag, Hanoi, Macau, Baku og Vladikavkaz í Rússlandi.

Þá verður að minnast á stórfurðulega sögu þess sem skrifar um Varsjá í Póllandi en honum var boðið í fínan kvöldverð þar sem til borðs með honum sátu tveir grunnskólakennarar frá Gdansk.

Raunverulegt starf borðfélaganna var hins vegar vændi, einn af hvoru kyni handa gestinum til að velja úr. Þegar hann gerði athugasemdir við félagskapinn birtust varðmenn upp úr þurru og hentu honum út!

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.