„Og svo kom bara ísbjörn“

Elín Petra Guðbrandsdóttir heldur tvöfalt heimili, býr og starfar á Reyðarfirði á veturna en fer í Skagafjörðinn á Hvalnes þar sem sonur hans og fjölskylda tók við búskapnum fyrir nokkrum árum. Elín Petra var komin norður í Skagafjörðinn þegar ísbjörn gekk á land í fjörunni við bæinn um miðjan júlí.


Í samtali við héraðsfréttablaðið Feyki segir hún að vinnufélagar sínir á Reyðarfirði hafi lengi grínast við hana hvað hún væri að fara norður á Skaga á sumrin, þar væri svo mikið af ísbjörnum. „Og svo kom bara ísbjörn,“ segir hún.

„Börnin voru að bjóða heimalingunum góða nótt og ég var úti að taka myndir af fallegum regnboga sem sást í sólarlaginu. Ég skyldi ekkert hvað gekk á þegar Karítas og Egill kom á harðastökki heim og sögðu mér að koma börnunum inn.“

Sonur hennar vildi nefna birnuna sem féll eftir henni þar sem hefð sé fyrir því á Hvalnesi, líkt og fleiri bæjum á Skaganum að segja „það veiðist eða reki vel undan Elínu.“

Segja verður að lýsingar heimilisfólksins á Hvalnesi í Feyki séu með kostulegra móti. „Við vorum í reiðtúr hérna á veginum þegar við sáum eitthvað hvítt þarna niður frá og héldum að það væri túnrolla sem hefði orðið eftir þegar við rákum úr túninu fyrr um daginn.

Við vorum að rökræða hvort hún væri með eitt eða tvö lömb þar sem okkur sýndist þetta nokkuð stórt. Svo fannst okkur hún hreyfa sig svo undarlega og loks fór hún upp á afturlappirnar og reist sig alveg upp. Þá það ljóst fyrir að þetta var engin kind!“ segir Karitas Guðrúnardóttir, tengdadóttir Elínar Petru.

Og dóttir Karitasar, Guðrún Elín, bætir loks við: „Þetta var stærsti bangsi sem ég hef séð. Hann var stærri en mamma mín og þú!“

Mynd: Feykir/Kristín

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.