Þrælakaupmaðurinn í flóttamannabúðunum

Þar sem framundan er móttaka flóttamanna á Íslandi og að Fjarðabyggð er meðal þeirra sveitarfélaga sem boðið hafa fram aðstoð sína er ekki úr vegi að líta aftur í tímann og rifja upp þegar Íslendingar tóku fyrst á móti hópi flóttamanna, tæplega sextíu Ungverjum um jólin 1956.

Það var Rauði krossinn sem hafði milligöngu um komu flóttamennina og framkvæmdastjóri hans, dr. Gunnlaugur Þórðarson, fór út til Austurríkis, þar sem fólkið hafðist við í búðum og fylgdi því heim.

Ferð Gunnlaugs fær hins vegar nokkuð harða gagnrýni í fyrsta tölublaði Austurlands árið 1957en blaðið var þá í ritstjórn Bjarna Þórðarsonar. Gunnlaugur er ásakaður um að hafa haft önnur sjónarmið að leiðarljósi við vali á þeim sem hingað skyldu koma en mannúð og fær að heyra það í nafnlausri grein á fyrstu innsíðu undir yfirskriftinni: Íslendingar svívirtir í nafni mannúðar

„Hann var ekki að leita að þeim, sem þjáðastir voru og mest hjálparþurfi. Hann var að svipast um eftir þeim, sem Íslendingar þörfnuðust — og þá sérstaklega ungu kvenfólki, —eins og samvizkulaus þrælakaupmaður,“ segir í greininni..

„Sérstaklega lagði þessi sérkennilegi postuli mannúðarinnar kapp á að klófesta kornungar stúlkur til að vega ofurlítið upp á móti kvennaútflutningi til Bandaríkjanna, en þar þóttist doktorinn hafa verið svikinn.

Niðurstaðan varð svo sú, að hingað er flutt fólk með þá verkkunnáttu og á þeim aldri, að það hefði getað fengið hæli í svo til hvaða landi sem var. Læknisskoðun sýndi líka, að þetta var heilbrigt fólk — ekki einu sinni lúsugt.

Þetta er þá orðið úr mannúð Íslendinga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.