Óttast sjónmengun af lítt klæddum karlmönnum

sigrun blondal x2014Umræður í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs um væntanlegan frisbígolfvöll í Tjarnargarðinum, Lómartjarnargarðinum eða hvern fjandann sem hann heitir, eru með þeim skrautlegri sem fram hafa farið í fundarsalnum.

Fyrst var sagan um bæjarfulltrúann sem misheyrði nafn íþróttarinnar fyrst þegar málið var kynnt sem „frystigolf."

En ekki betra tók við þegar Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar sem sér yfir garðinn af heimili sínu, lýsti yfir ótta sínum af því af „sjónmengun ef þarna eru miðaldra karlmenn sem eru lítið klæddir".

Þótt hún þrætti fyrir það síðar á fundinum heyrist á upptökunni er hún talar um „miðaldra karlmenn eins og Stefán Boga."

Stefán Bogi strax upp til að bera af sér sakir um að hann væri miðaldra og sagði hart að sitja undir slíkum ásökunum. Hann minnti á þá „dapurlegu staðreynd" að hann væri yngstur í bæjarstjórninni og spurði hvað það segðu um aðra ef hann teldist miðaldra.

Hann hughreysti Sigrúnu með þeirri staðreynd að frisbígolfið væri einkum stundað af 20-30 ára karlmönnum og þeir væru „ekki slíkur voði" sem Sigrún hefði áður séð fyrir sér.

Sigrún þakkaði fyrir „að vekja hjá sér vonir um að þarna yrði eitthvert ánægjulegt útsýni."

En þá var röðin komin af Gunnhildi Ingvarsdóttur sem spurði hvort íþróttin væri ekki líka fyrir konur. Hún fylgdi því eftir með ábendingum um að það væri í tísku að konur væru fáklæddar og að í garðinum gæti verið gott að „frelsa geirvörturnar einn dag eða svo í góðu veðri. Það myndi að minnsta kosti gleðja manninn hennar Sigrúnar!"

Að svo búnu var golfvöllurinn samþykktur með átta atkvæðum gegn einu og bíða menn nú spenntir eftir hvað gerist í Tjarnargarðinum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.