(D)rekinn af míkrófóninum

karfa hottur fsu 0128 webKeppnismenn í íþróttum hljóta oft verðskuldaðar brottvísanir frá vellinum þegar skapið hleypur með þá í gönur og þeir taka bræði sína út á dómurum, andstæðingum eða í versta falli samherjum.

Fátíðara er að dómarar þurfi að taka á hegðun starfsmanna leiksins en sá fáheyrði atburður átti sér hins vegar stað hins vegar í leik Hattar og FSu í fyrstu deild karla í körfuknattleik í síðustu viku.

Þegar örfáar mínútur voru til leiksloka og spennan í algleymingi, enda Höttur á barmi úrvalsdeildarsætis, bar rafmagnað andrúmsloftið vallarþulinn ofurliði. Hann hafði kveikt á hljóðnemanum, tilbúinn að kalla nafn Tobin Carberrys sem var á hraðri leið í áttina að körfunni til að auka forskot heimaleiðsins.

Varnarmaður gestanna hafði hins vegar aðrar hugmyndir en var heldur seinn til þannig að hann braut fólskulega á Tobin. Þulurinn lá ekki á skoðun sinni á atvikinu, frekar en aðrir stuðningsmenn Hattar, og rak upp ákaft, hátt og einkar reiðilegt „HEY!" sem glumdi í öllu hátalarakerfinu.

Svo augljóst var öskrið – og reyndar brotið líka – að dómararnir gátu ekki annað en tekið eftir því. Eftir að hafa dæmt villuna gengu þeir rakleiðis að ritaraborðinu og gerðu þulnum ljóst, án nokkurs tiltals eða áminningar, að leikurinn hæfist ekki að nýju fyrr en hann hefði látið hljóðnemann frá sér og komið sér í það tryggja fjarlægð að hann myndi ekki snerta hann það sem eftir lifði leiks.

Og í stað þess að láta alla vallarþuli eða Egilsstaðabúa, liggja undir grun er rétt að taka það fram að vallarþulurinn hávaðasami var Stefán Bogi Sveinsson, markaðsstjóri Austurfréttar, ljóðskáld, stórleikari og oddviti framsóknarmanna í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs ...

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.