Sjáið seinna myndband Hjartar af Lagarfljótsorminum

sannleiksnefnd 23082014 0145 webSannleiksnefnd Fljótsdalshéraðs ákvað um helgina að greiða bæri Hirti Kjerúlf, bónda á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, út hálfa milljón króna í verðlaunafé þar sem meirihluti nefndarinnar taldi sannað að myndband sem hann tók út um eldhúsgluggann heima hjá sér í byrjun febrúar 2012 sýndi í raun Lagarfljótsorminn. Það sem færri vita er að Hjörtur tók annað myndband af orminum skömmu síðar.

Fyrra myndbandið var tekið þann 2. febrúar 2012 en það seinna 8. mars, rúmum mánuði síðar.

Þar heyrist Hjörtur einnig tala við tvo smiði sem eru í heimsókn hjá honum og harðbannar þeim að kjafta frá því að ormurinn hafi látið sjá sig. Hjörtur sé búinn að selja myndbandið til kvikmyndagerðar og vilji alls ekki að „allt fyllist af liði" í hlaðinu á Hrafnkelsstöðum.

Smiðirnir svara hins vegar fyrir með orðunum „Hringdu nú bara í frænda þinn," og eiga þar við Rúnar Snæ Reynisson, fréttamann RÚV á Austurlandi og bróðurson Hjartar.

Á laugardag fylltist síðan allt af liði í hlaðinu á Hrafnkelsstöðum þegar Sannleiksnefndin kom þar í vettvangsferð og var þar mikið mannval á ferð. Hjörtur lét hins vegar ekki Sannleiksnefndina eiga neitt inni hjá sér frekar en hann er vanur. Magnús Skarphéðinsson, skólastjóri Álfaskólans, gekk við komuna vasklega til Hjartar og tilkynnti honum að komin væri „Sannleiksnefndin að sunnan" sem Hjörtur svaraði einfaldlega: „Já, hér er sannleikurinn sjálfur."

Magnús er vanur því að eiga síðasta orðið og hélt áfram: „Já, en við erum Sannleikurinn með stóru S-i."

En að þessu sinni hitti hann fyrir ofjarl sinn því Hjörtur svaraði: „Ja, hér í Fljótsdalnum skrifum við sannleikann með öllum bókstöfunum!"

Hjörtur viðurkenndi fyrir nefndarmönnum að hann hefði átt von á að ormurinn væri stærri en ekkert væri að marka gamlar sögur því sögurnar hefðu verið svo fljótar að magnast á milli bæja. Þá var einnig velt upp þeim möguleika að Hjörtur hefði myndað sæðisfrumu úr orminum!

Hann sagði einnig frá viðskiptum sínum við bandarísk sjónvarpsgengi en einu þeirra fylgdi fyrrum sérfræðingur frá alríkislögreglunni FBI.

„Þeir spurðu mig hvort þetta hefði bara verið hreint kaffi sem ég hefði verið að blanda mér um morguninn. Ég sagði þeim að það hefði alla veganna ekki verið LSD og þótt svo hefði verið þá hefði það ekki átt að hafa nein áhrif á kameruna," sagði Hjörtur sem fékk kaffikönnu og friðarkerti í skilnaðargjöf frá FBI-manninum.

En mest sagði Hjörtur að myndbandið hefði breytt kveðjum þeirra sem hann heilsaði dags daglega. „Áður var kveðjan: „Já, komdu sæll Hjörtur minn" eða „Nú ert þetta þú væni". Núna væri hún „Ert þetta þú helvítis bölvaður ormurinn þinn!"Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.