Austfirskar veitingaerjur

thrainn larusson 2006Þráinn Lárusson veitingamaður á Hallormsstað hefur farið mikinn í rekstri sínum og staldrar hvergi við. Hótel hans á Hallormsstað er orðið eitt hið glæsilegasta á svæðinu og meðal annars er þar rekinn indverskur veitingastaður.

Þá var hann ekki fyrr búinn að opna veitingastað á Egilsstöðum en hann var búinn að stækka hann líka með því að gleypa nágranna sinn og ljóst að þarna er mikið veitingastórveldi í uppsiglingu.

Það var því kannski viðbúið að næst kæmi að því að reka hornin í annað stórveldi sem er í örum vexti hinum megin á landinu annar Austfirðingur, Sigmar Vilhjálmsson, fer fyrir ásamt öðrum. Þráinn sá að minnsta kosti ástæðu til að senda kröftug skot í þá áttina á Facebook-síðu sinni um helgina:

„Á Bylgjunni er verið að ræða við tvo menn sem skráðir eru fyrir hamborgaraveitingahúsi í Reykjavík og á Akureyri. Ömurleg sjálfhverfa þeirra dembist yfir mann meðal annars þegar þeir reyna að eigna sér ferköntuð hamborgarabrauð og nú komast þeir í fjölmiðla með stórkostlega uppfinningu sem er ferkantað kjöt í brauðið.

Þetta selja þeir félögum sínum hjá fjölmiðlunum og landanum sem kokgleypir þessa vitleysu, reyndar eins og allt annað sem vellur út úr þessum drengjum. Og þetta er á öllum fjölmiðlum. Þeir virðast hafa ótakmarkaðan aðgang að fjölmiðlum með endalausu plöggi og um reyndar ekki neitt.

Skúli er klárlega klár í viðskiptum að nota þessa tvo fyrirtæki sínu til framdráttar. Málið er það að ferkantaðir hamborgarar voru löngu komnir hingað til lands enda alþekktir erlendis. Þegar ég át fyrsta ferkantaða hamborgara minn á Íslandi voru þessir drengir ekki farnir að læra fyrir samræmdu prófin.

Ooo hvað mér líður betur eftir að hafa látið þetta gossa! En þá er líka nöldrið búið fyrir þennan dag."

Þarna er fast skotið, en ekki ólíklegt að einhverjir brosi í kampinn, enda ratast kjöftugum oft satt orð á munn. Ólíklegt verður líka að telja að Þráinn muni ekki láta eitthvað nöldur gossa aftur, þó að dagskammturinn hafi verið búinn akkúrat þarna.

Skúli sá sem þarna er minnst á er Skúli Gunnar Sigfússon, fjárfestir og veitingamaður, sem meðal annars er aðaleigandi Subway á Íslandi. Verður ekki annað séð en að þarna sé ýjað að því að þeir Simmi og Jói hafi minnst með veitingareksturinn að gera en séu fyrst og fremst andlit og fjölmiðlafígúrur en Skúli sé með fjármagnið.

En hvernig svo sem það er verður fróðlegt að sjá hvort þessar skeytasendingar þróast í kalt stríð milli stórveldanna í austri og vestri.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.