Pósturinn – við komum því áleiðis

Posturinn nytt logoPósturinn sendi í vikunni frá sér tilkynningu um að verið væri að „samræma staðsetningu" póstkassa í dreifbýli. Eitt af markmiðum þessa átaks er að flýta fyrir póstútburði og auka hagkvæmni.

Í reglum segir að póstkassarnir eigi að vera staðsettir við eða í hús sé heimreið ekki lengri en 50 metrar. Sé hún lengri en 50 metrar eiga kassarnir að vera við vegamót, þó ekki fjær en 500 metra frá húsi. Undantekning er ef heimreiðin er lengri en 2 km að stöku heimili.

Þessar breytingar hafa mælst misvel fyrir hjá þjónustuþegum Póstsins. Vilja sveitamenn meina að verið sé að mismuna dreifbýlinu þar sem bréfunum sé troðið inn um póstlúguna í þéttbýlinu.

Undanfarið hefur Pósturinn auglýst sig undir slagorðinu „Við komum því til skila." Eftir að tilkynnt var um „samræmingu staðsetningar" bréfakassanna sendi ágætur viðskiptavinur bréf og kvartaði yfir misvísandi auglýsingum þar sem hann lagði til að slagorðinu yrði breytt í „við komum því áleiðis!"

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Pósturinn lendir í vandræðum með slagorð sín. Fyrir nokkrum árum voru þau boð látin út ganga að enginn pakki væri of stór. Nýttu menn það sér til að senda ýmsa böggla svo sem rúmdýnur og klósett.

Þannig mun einn af austfirsku landpóstunum hafa þurft að fara sérstaka ferð með stærðarinnar vinnuvéladekk sem sent var með Póstinum!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.