Yfirheyrslan: „Rafíþróttir reyna á hugann, bara eins og skák“

Um helgina verður haldið mót í tölvuleiknum FIFA á Djúpavogi. Fyrir því stendur Natan Leó Arnarsson en hann er í yfirheyrslu vikunnar. FIFA er knattspyrnuleikur og meðal vinsælustu tölvuleikja í heimi.

Natan segir hugmyndina upphaflega hafa verið að tengja mótið Hammond-hátíðinni, sem fram fer á Djúpavogi eftir tvær vikur, en dagskráin í kringum hátíðina hafi verið orðin það þétt að ákveðið hafi verið að drífa mótið af „Það var svona mót fyrir nokkrum árum utandagskrár á Hammond-hátíðinni og var vel mætt en þar sem að utandagskráin er þétt setin í ár ákváðum við að drífa þetta mót af.“

Natan segist ekki alveg viss við hversu mörgum þátttakendum megi búast en þegar séu yfir 10 mans skráðir. Sjálfur er Natan mikill áhugamaður um fótbolta en hefur ekki verið virkur í tölvuleiknum í langan tíma. „Ég hafði varla spilað FIFA síðan í Playstation 1 eða 2. Konan mín gaf mér Playstation 4 í jólagjöf og hef ég reynt að spila hann þegar ég hef tíma. Þar sem ég elska fótbolta og góðan félagsskap ákvað ég að prófa hugmyndina og kanna áhugann á því að halda FIFA mót. Við fáum að halda mótið á flottu breiðtjaldi í Löngubúð og þökkum við kærlega fyrir það.“

Rafíþróttum hefur verið að vaxa fiskur um hrygg hér á landi sem erlendis, meðal annars eru til umræðu stofnanir rafíþróttadeilda hjá mörgum íþróttafélögum. Natan segir að það sé góð spurning hvort rafíþróttir séu íþróttir „mér finnst raftónlist reyndar ekki vera tónlist heldur gervi tónlist. En jú kannski að vissu leiti því þetta reynir á hugann bara eins og skák sem er íþrótt.“

 

Yfirheyrslan:

Fullt nafn: Natan Leó Arnarsson.

Aldur: 30 ára.

Starf: Stuðningsfulltrúi í Grunnskóla Djúpavogs.

Maki: Anna Czeczko.

Börn: 1

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Borgarfjörður eystri, svo er alltaf gaman að heimsækja Brekkuna á Stöðvarfirði hjá henni Ástu vinkonu minni.

Hver er þinn helsti kostur? Er alveg rosalega stundvís en það getur líka verið ókostur stundum.

Hver er þinn helsti ókostur? Veit það ekki ætli þeir séu ekki af skornum skammti.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Pæli nú ekki mikið í því. Borða bara allt sem hægt er að láta ofan í sig.

Hver er uppáhalds íþróttamaðurinn þinn? Hugsa að það sé engin núverandi, en mínir uppáhalds hafa alltaf verið Tony Adams og Michael Jordan.

Áhugamál? Það er svo rosalega margt. En helst íþróttir auðvitað, Hundar og vera með fjölskyldu og vinum.

Kaffi eða te? Kaffi allan daginn kolsvart og sykurlaust.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Tony Adams og kannski bara ég sjálfur.

Duldir hæfileikar? Niiii.

Mesta afrek? Úff erfið spurning. En mér dettur fyrst í hug úrslitaleikur Launaflsbikarsins 2010 þegar ég tryggði Hrafnkeli Freysgoða titilinn eftir vítaspyrnukeppni þar sem ég varði loka spyrnuna sem tryggði sigurinn.

Ertu nammigrís? Myndi nú ekki segja það en það kemur fyrir.

Besta bíómynd allra tíma? Þær eru nokkrar. Er oftast hrifin af stríðsmyndum. Saving Private Ryan. Braveheart. En  svo er The Shawshank Redemption alltaf góð.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? 1. Fara til Færeyja. 2. Spila allavega eitt sumar með UMFB. 3. Fara í Bermúda þríhyrninginn til að athuga hvað verður um mig.

Eitthvað að lokum? Langar að þakka fyrir undirtektirnar á Fifa mótinu og Rán Freysdóttur fyrir að lána okkur Löngubúðina. Ég elska alla. Áfram Arsenal !

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.