Vopnfirðingar sameinast um sitt sögufræga lið

Mikill áhugi Vopnfirðinga á knattspyrnu, sem virðast mæta jafnt á leiki meistaraflokks sem yngri liða, kemur mörgum mótherjum sem þangað koma á óvart. Landfræðilegar aðstæður gera það að verkum að mikla þrautseigju þarf í að halda úti liðinu.

„Auðvitað hefur komið upp umræða, þá frekar í seinni tíð, að sameinast. Við erum hins vegar einangruð, knattspyrnulega séð höfum við lítið að sækja í norður og það er 1,5 tímar í Egilsstaði,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði karlaliðs Einherja en fjallað er um knattspyrnuhefðina á Vopnafirði í nýjasta þætti Að Austan á N4.

Bjartur segir knattspyrnuhefðina hafa byggst upp á áttunda og níunda áratugnum þegar liðið náði feikigóðum árangri á landsvísu.

„Hér er sterk knattspyrnuhefð. Menn klæða sig stoltir í Einherjatreyjuna. Það er mikil saga sem fylgir henni.

Heimavöllurinn okkar er þekktur fyrir að vera gryfja. Það gefur Vopnfirðingum mikið að stilla saman strengi sína í kringum liðið. Hér er alltaf vel mætt á leiki, sama hvort meistaraflokkur eða yngri flokkar eru að spila og foreldrar barna sem koma hingað furða sig oft á því.“

Bjartur neitar því þó ekki að það sé stundum hark í fámennu byggðarlagi að manna knattspyrnulið með ellefu leikmönnum í Íslandsmótið bæði í karla- og kvennaflokki.

„Það er alltaf sama umræðan á hverju hausti, hvernig er staðan, hverjir ætla að vera með næsta sumar og hverjir ætla að breyta til.

Það er blóðtaka fyrir okkur þegar leikmenn sem vilja spila í betri deild fara. Við erum með nokkra uppalda leikmenn sem við vildum gjarnan hafa hér heima. Við bíðum alltaf eftir að þeir komi til okkar sem förum aldrei neitt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar