Vonast til að Mallory verði ekki lengi frá

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari körfuknattleiksliðs Hattar, vonast til að Bandaríkjamaðurinn Michael Mallory verði ekki lengi frá vegna meiðsla sem hann hlaut í leik liðsins við Stjörnuna í gær. Hattarliðið lék þó vel án Bandaríkjamannsins og var óheppið að tapa leiknum.

Mallory skoraði sex af fyrstu níu stigum Hattar í gærkvöldi. Eftir að hafa skorað sína þriðju körfu í leiknum á þriðju mínútu lenti hann illa og var ekki meira með.

„Hann byrjaði af miklu krafti og kveikti í okkur. Hann snéri sig á ökkla og við vonum að það sé ekki alvarlegt,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Mallory hefur að undanförnu glímt við bakmeiðsli og missti af leiknum gegn Keflavík fyrir viku en átti góðan dag og spilaði 30 mínútur þegar Höttur vann Grindavík á fimmtudag.

„Við vorum óvissir um hvort hann gæti spilað í kvöld. Honum leið ágætlega eftir upphitunina og var til í leikinn.“

Viðar Örn var þó ánægður með hvernig Hattarliðið brást við brotthvarfi Mallory. Aðrir leikmenn stigu upp, til að mynda Matej Karlovic sem skoraði 27 stig. Honum brást því miður bogalistin á síðustu sekúndunni þegar hann fékk ágætt skotfæri til að tryggja Hetti sigur eftir frábæran leik. Það gekk ekki og Stjarnan vann 93-94.

„Leikurinn réðist bara á allra síðustu sóknunum, Frammistaðan var góð en dugði ekki gegn besta liðið landsins. Ég vil hrósa mínum mönnum, þeir kláruðu sóknirnar vel. Við erum flottir og góðir og vitum það en höldum áfram að læra og bæta okkur fyrir næstu leiki,“ sagði Viðar Örn að lokum.

Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.