Viðar Örn dró fram skóna að nýju

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari úrvalsdeildarliðs Hattar í körfuknattleik, var í leikmannahópi liðsins gegn ÍR í gærkvöldi. Það dugði þó ekki til þess að liðið ynni sinn fyrsta deildarsigur í vetur.

„Það eru tveir strákar farnir svo það hefur fækkað í æfingahópnum og mér fannst við þurfa að fá fleiri inn í hann,“ segir Viðar sem spilaði með liðinu í fyrstu deildinni í fyrra.

Hann spilaði hins vegar ekki með liðinu í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum og var í haust í leikmannahópi nýstofnaðs Körfuknattleiksfélags Fjarðabyggðar í þriðju deildinni. Viðar lék síðast í úrvalsdeild veturinn 2009-2010 þegar hann var hjá Hamri í Hveragerði.

Viðar Örn spilaði rúmar fimm mínútur í gær og reyndi tvö skot sem geiguðu. „Mér finnst þetta ógeðslega gaman og æfi alltaf með. Ég vonast til að geta hjálpað liðinu þótt mér hafi ekki fundist ég gera það í dag. Ef þjálfarabjáninn velur mig í hópinn þá spila ég fleiri leiki.“

Tilkoma Viðars gerði þó ekki gæfumuninn því liðið tapaði 74-90 fyrir ÍR á heimavelli. Höttur spilaði mjög vel fyrstu leikhlutana þrjá en þegar kom að lokasprettinum reyndist einfaldlega öll orkan búin og ÍR, sem deilir toppsæti deildarinnar með KR og Tindastóli, valtaði yfir Egilsstaðaliðið í þeim fjórða.

Höttur er því enn sigurlaust og í neðsta sæti deildarinnar eftir þrettán umferðir. Framundan er tíu daga hvíld en næst heimsækir Höttur Val en liðin fylgdust að upp úr fyrstu deildinni síðasta vor.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.