Viðar Jónsson ráðinn þjálfari Hattar

Viðar Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Hattar í knattspyrnu karla. Viðar hefur undanfarin ár þjálfað Leikni Fáskrúðsfirði en lét af þeim störfum í lok nýliðnnar leiktíðar.

„Ég varð mjög spenntur þegar forsvarsmenn Hattar höfðu samband og sögðu mér frá sinni sýn,“ segir Viðar sem skrifaði undir samning í kvöld.

Hann hefur undanfarin fjögur ár þjálfað lið Leiknis með góðum árangri en undir hans stjórn fór liðið úr þriðju deild upp í fyrstu deild og spilaði þar tvö sumur. Leiknir var í fallbaráttu í annarri deild í sumar en bjargaði sér í síðustu umferðinni á kostnað Hattar.

Eftir leikinn tilkynnti Viðar að hann væri hættur með Leiknisliðið en hefði áhuga á að halda áfram þjálfun annars staðar. „Ég fékk nokkrar fyrirspurnir en ég fann að hér var einhugur um að ræða við mig.

Ég hef átt frábær ár þar sem ég var en taldi vera komið gott þar. Ég var ekki tilbúinn að taka mér frí. Ég lifi fyrir þetta og sá ekki fyrir mér að hætta eða fara að gera eitthvað annað.“

Viðar er ekki ókunnur Hetti því hann hóf leikmannaferilinn þar áður en hann skipti yfir í Leikni fyrir sumarið 1997. „Það eru rúm 20 ár síðan ég var hér leikmaður. Flestir úr því liði eru víst hættir að spila fótbolta.“

Viðar hitti leikmenn Hattar í kvöld. „Ég á eftir að kynnast leikmannahópnum. Þetta verður áskorun, liðið leikur í þriðju deildinni og markmiðið er að lyfta hlutunum á hærra plan.“

Viðar, til vinstri, ásamt Guðmundi Björnssyni Hafþórssyni, formanni rekstrarfélags Hattar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar